Bændafundur SS 15. – 18. nóvember 2016 – Samtal við bændur með skemmtilegu ívafi

Sláturfélag Suðurlands býður til bændafunda í samvinnu við DLG og YARA þar sem í boði eru fræðsluerindi um fóðrun og áburð. Hinir frábæru skemmtikraftar ,,Hundur í óskilum” fara með gamanmál og  stýra fundum. Léttar veitingar og góðgæti verða í umsjá kvenfélagskvenna viðkomandi svæða. Fundirnir verða haldnir frá kl. 20:30 – 23:00.

Valaskjálf, Egilsstöðum – þriðjudaginn 15. nóvember 2016

Hlíðarbæ, Akureyri – Miðvikudaginn 16. nóvember 2016

Félagsheimilinu Hvoli, Hvolsvelli – Fimmtudaginn 17. nóvember 2016

Hótel Borgarnesi – Föstudaginn 18. nóvember 2016

Jakob Kvistgaard, fóðurfræðingur og vörustjóri hjá DLG mun fjalla um hvað gerir kvígu að góðri mjólkurkú. Ole Stampe, viðskiptastjóri hjá Yara.fer yfir kostnað við öflun gæða gróffóðurs og Unnsteinn Snorri Snorrason, bútæknifræðingur fjallar um fóðrun og frjósemi sauðfjár.

Nánari upplýsingar um bændafundi SS í nóvember 2016.

Verðhlutföll sauðfjár 2017

Verðhlutföll haustsins 2017 eru nú birt fyrr en nokkru sinni áður. Það er til að bændur sem þess óska geti flýtt fengitíma ef þeir telja sér hagstætt að slátra fyrr en áður. Breyting milli ára er einkum sú að samfelld slátrun hefst tveimur dögum fyrr en áður og sláturtími í nóvember er styttur. Slátrun í október er einnig aukin. Lítils háttar breyting er gerð á verðhlutföllum byggt á reynslu þessa hausts. Verðhlutföllin gilda um innlegg sem er innan gæðastýringar. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort greitt verður með öðrum hætti fyrir innlegg sem er utan gæðastýringar.

Samfelld slátrun hefst miðvikudaginn 6. september. Engir stakir sláturdagar verða þar á undan. Taflan sýnir eingöngu verðhlutföll milli sláturvikna en ekki verðið sjálft sem verður ákveðið er nær dregur hausti. Verðhlutföll hjálpa bændum til að meta hvenær hagkvæmast er að slátra eftir aðstæðum hvers og eins.

Þjónustuslátrun verður miðvikudaginn 29. nóvember og er ætluð fyrir það sem bændur flokka frá, síðgotunga og eftirheimtur en ekki fyrir almenna slátrun þar sem þessi slátrun er mun dýrari fyrir félagið en samfelld slátrun. Greitt verður 85% af lægsta verði haustsins fyrir innlegg í þjónustuslátrun.

Nánari upplýsingar um verðhlutföll sauðfjár 2017.

Nýtt vöruhús í Þorlákshöfn – Opið hús 3. nóvember 2016

Nýtt vöruhús tekið í notkun í Þorlákshöfn – Opið hús kl. 16:00 – 19:00 þann 3. nóvember 2016 að Hafnarskeiði 12 í Þorlákshöfn í nýju vöruhúsi félagsins.

– Kynning á starfsemi SS í Þorlákshöfn.
– Samtals 3.500 fermetra vöruhús.
– Nýtt vöruhús tryggir enn betur vörugæði Yara áburðar frá verksmiðju til bónda.

SS er með opið hús á athafnasvæði félagsins að Hafnarskeiði 12 Þorlákshöfn fimmtudaginn 3. nóvember n.k. Kynning á starfsemi félagsins og vígsla á nýju 1.500 fermetra vöruhúsi hefst kl. 16:00.

Í tilefni dagsins verður boðið upp á kjötsúpu að hætti Sunnlenskra bænda og SS. Einnig höfum við fengið til liðs við okkur góða gesti.  Landstólpi sem byggði vöruhúsin í Þorlákshöfn mun kynna það nýjasta í fjósbyggingum ásamt tækjabúnaði sem létta bændum störfin. Jötunn vélar mun einnig vera á staðnum og kynna vélar og tæki m.a. það nýjasta í áburðardreifingu.

Við bjóðum bændur velkomna í tilefni dagsins.

Mikil uppbygging SS á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn.

Í febrúar 2007 keypti SS  511 fermetra vöruhús við höfnina í Þorlákshöfn að Hafnarskeiði 12 ásamt ásamt 5.557 fermetra lóð auk þess að gera samkomulag við Sveitarfélagið Ölfus um úthlutun á viðbótar lóð að Hafnarskeiði 10a við hlið lóðarinnar.  Nýtt deiliskipulag var síðan samþykkt í febrúar 2013 þar sem lóðirnar voru sameinaðar. Athafnasvæðið er nú tæpir 9.500 fermetrar sem tryggir búvörudeild félagsins gott rými til vaxtar á komandi árum.

Undir lok árs 2013 hófust síðan framkvæmdir við 1. áfanga með  byggingu á 1.500 fermetra vöruhúsi. Vöruhúsið var tekið í notkun haustið 2014 og hefur reynst í alla staði vel. Lokaáfangi uppbyggingar á vöruhúsum í Þorlákshöfn lauk síðan með byggingu á öðru 1.500 fermetra vöruhúsi í október 2016 en framkvæmdir hófust í ársbyrjun. Samtals eru því vöruhús SS í Þorlákshöfn rúmlega 3.500 fermetrar að stærð.

SS hefur átt mjög góða samvinnu við Landstólpa sem byggði bæði vöruhúsin.  Húsin er afar vönduð í alla staði og framkvæmdir hafa gengið með afbrigðum vel. Landstólpi hefur mikla reynslu á þessu sviði enda hefur fyrirtækið byggt tugi húsa um allt land á undanförnum árum.   Auk Landstólpa komu að verkinu fjöldi  góðra verktaka á Suðurlandi. Verkfræðistofan Ferill sem SS hefur átt langt og farsælt samstarf við sá um hönnun, umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum.  Vöruhúsin voru eingöngu fjármögnuð úr rekstri SS enda fjárhags-  og lausafjárstaða félagsins góð.

Framtíðarnýting í Þorlákshöfn.

Aðstaðan í Þorlákshöfn er SS mjög mikilvæg vegna uppbyggingar við sölu á Yara áburði.  Árlega fara í gegnum aðstöðu félagsins í Þorlákshöfn um 10 þúsund tonn af áburði.

Með nýju vöruhúsi er lokið uppbyggingu félagsins í Þorlákshöfn. Nýtt vöruhús gefur möguleika til kaupa á áburði á þeim tíma sem innkaupsverð er hvað hagkvæmast en það og varðveisla á gæðum áburðarins frá verksmiðju til bónda eru veigamikil atriði til að tryggja bændum gæða áburð frá Yara með hagkvæmum hætti.

Búvörudeild SS á sér ekki langa sögu en á árinu 2001 hóf SS skipulegan innflutning á tilbúnum áburði fyrir bændur.  SS er í afar farsælu samstarfi við norska stórfyrirtækið YARA um innflutning og sölu á áburði. SS skipar upp áburði á 10 höfnum um allt land. Umsvifin eru hins vegar mest í Þorlákshöfn.  SS flytur einnig inn kjarnfóður í samstarfi við DLG í Danmörku en DLG er samvinnufélag bænda. Í dag rekur SS 3 fóðurbíla og mikil sóknarfæri framundan. Búvörudeildin selur einnig m.a. bætiefni, rúlluplast, sáðvörur og fatnað. Með nýja vöruhúsinu í Þorlákshöfn verður SS enn betur í stakk búið til að þjónusta bændur.

Frekari upplýsingar veita:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is

Elías Hartmann Hreinsson, deildarstjóri búvörudeildar í síma 575 6000 – elias@ss.is

Fréttatilkynning SS 24. okt 2016 – Nýtt vöruhús í Þorlákshöfn

Auglýsing á opnu húsi í Þorlákshöfn 3. nóvember 2016

Sauðfjárslátrun 2016, verðhlutföll, skipulag og flutningsgjald utan félagssvæðis

Vísað er til umræðna á liðnum vetri á deildarfundum og aðalfundi um breytt verðhlutföll og breytt fyrirkomulag við skipulag sauðfjárslátrunar haustið 2016. Niðurstaða stjórnar félagsins er að gera verði umtalsverðar breytingar á verðhlutföllum frá fyrra hausti vegna of mikils kostnaðar við sauðfjárslátrun sem meðal annars hlýst af misvægi í ásókn eftir sláturtíma. Jafnframt verður að skipuleggja slátrunina með meiri fyrirvara en verið hefur.

Í meðfylgjandi skjali má sjá verðhlutföll eftir vikum, sláturtíma og sláturafköst á dag. Sjá má að dregið verður úr dagslátrun flestar vikur til að lækka kostnað við yfirvinnu og sláturtíð einnig lengd um nokkra daga til að ná sambærilegri heildarslátrun. Verðhlutföllin segja ekkert um verðið sjálft eða verðbreytingar milli ára heldur aðeins um hlutfallslegan mun á verði milli vikna þar sem lægsta verðið er sett sem 100%.

Það er ljóst að nýir innleggjendur munu óska eftir að leggja inn hjá félaginu í haust. Stefna félagsins er að þeir sem hafa lagt inn áður verði að hafa forgang og fá aðgang að slátrun áður en félagið getur tekið við nýju innleggi.

Þjónustuslátrun verður miðvikudaginn 30. nóvember. Greitt verður 90% af lægsta verði haustsins.

Deildarstjórar hafa verið beðnir að skila til félagsins ekki síðar en 12. ágúst næstkomandi sláturáætlun fyrir þá sem lagt hafa inn áður í þeirra deild. Slátrun verður eftir það raðað niður á vikurnar. Pantanir sem berast síðar verða að fara á sláturtíma sem þá er laus. Öllum sem lögðu inn sauðfé síðasta haust verður sent bréf í júlí þar sem bent verður á mikilvægi þess að senda deildarstjórum sláturpantanir tímanlega fyrir 12. ágúst til að hafa betri aðgang að þeim sláturtíma sem óskað er eftir. Miklu skiptir að félagsmenn panti tímanlega hjá deildarstjórum og að innleggstölur standist.

Vegna slakrar afkomu af sauðfjárslátrun er ekki verjandi að félagið sæki fé með verulegum aukakostnaði út fyrir félagssvæðið. Frá og með næsta hausti verður því innheimt flutningsgjald, 20 kr/kg án vsk, ef sauðfjárinnlegg berst félaginu utan félagssvæðisins.

Óskað er góðrar samvinnu við félagsmenn svo þjónusta verði sem best á sama tíma og leggja verður áherslu á að draga úr kostnaði.

Sauðfjárslátrun 2016, verðhlutföll & sláturtími.

Framboð til stjórnar og varastjórnar SS á aðalfundi 18. mars 2016

Framboð til stjórnar og varastjórnar skal hafa borist skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund í samræmi við 2. mgr.  27. gr. samþykkta félagsins.

Framboð hefur borist innan tilskilins frests frá eftirtöldum aðilum:

 

Til setu í aðalstjórn

Björn Harðarson, Holti I, 801 Selfossi

Guðmundur H. Davíðsson, Miðdal, 270 Mosfellsbæ

Hallfreður Vilhjálmsson, Kambshóli II, 301 Akranesi

Ingibjörg Daníelsdóttir, Fróðastöðum, 320 Reykholti

Jóhanna B. Ingólfsdóttir, Hrafnkelsstöðum I, 845 Flúðum

Kristinn Jónsson, Staðarbakka, 861 Hvolsvelli

Sverrir Gíslason, Kirkjubæjarklaustur 2, 880 Kirkjubæjarklaustur

 

Til setu í varastjórn

Aðalsteinn Guðmundsson, Húsatóftum II, 801 Selfossi

Björn Harðarson, Holti I, 801 Selfossi

Guðmundur Ó. Helgason, Lambhaga, 861 Hvolsvelli

Guðmundur Jónsson, Reykjum, 270 Mosfellsbæ

 

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn 18. mars 2016 að Goðalandi, Fljótshlíð kl. 15:00.

 

Aðalfundar SS framboð til stjórnar og varastjórnar 2016