Umhverfisstefna

Umhverfisstefna SS

Umhverfisstefna er hluti af samfélagsstefnu SS og felur í sér að starfsemi SS skal vera í sátt við umhverfið og hafa eins lítil skaðleg áhrif og kostur er. Í þessu felast eftirfarandi meginþættir.

Nýting afurða: Stefnt er að fullnýtingu afurða þannig að gera megi allar afurðir að verðmætum eða koma þeim í endurnýjanlegan farveg sem skapar hringrás efna, dregur úr sóun og kolefnisspori framleiðslunnar. Sjúkdómavarnir setja takmarkanir á endurnýtingu nokkurra afurða en stefnt er að  85-90% nýtingarhlutfalli.

Grundvallaratriði í frábærum árangri SS á þessu sviði er stór eignarhluti SS í fyrirtækinu Orkugerðinni ehf. Orkugerðin er fyrirtæki sem tekur við lífrænum úrgangi frá sláturstöð SS á Selfossi, frá Matvælavinnslu SS á Hvolsvelli og frá dótturfélagi SS, Reykjagarði. Orkugerðin breytir lífrænum úrgangi í lífræna fitu og kjötmjöl. Kjötmjölið hefur verið notað með mjög góðum árangri til uppgræðslu lands hjá Landgræðslunni, Hekluskógum og fleiri aðilum. Fitan er notuð með tvennum hætti. Annars vegar er verksmiðja Orkugerðarinnar keyrð með eigin fitu sem eldsneyti sem lágmarkar kolefnisspor framleiðslunnar. Hins vegar er hluti fitunnar er seldur úr landi þar sem hún er notuð til framleiðslu á lífdísel eldsneyti og stuðlar því að minna kolefnisspori í öðrum löndum.

Myndbandið fyrir neðan sýnir helstu þætti í starfsemi Orkugerðarinnar.
https://youtu.be/SzGAMwA1o60

Umbúðir: Umbúðanotkun SS tekur mið af þrennu. Í fyrsta lagi skal nota margnota umbúðir alls staðar sem hægt er til að minnka sóun og úrgang. Í þessu skyni eru notaðir margnota plastkassar við vörudreifingu svo dæmi sé tekið. Í öðru lagi skulu þær umbúðir sem notaðar eru vera endurvinnanlegar ef þess er kostur eða innihalda endurunnið efni að hluta til að draga úr umhverfisáhrifum. Í þriðja lagi þá leggur SS áherslu á mjög vandaðar umbúðir með mikilli súrefnisvörn til að tryggja geymsluþol matvæla og draga þannig úr matarsóun.

Lágmörkun á pappírsnotkun: SS hvetur viðskiptavini til pappírslausra viðskipta og hefur fjölmargar lausnir sem minnka eða gera útprentun á pappír ónauðsynlegar.

Mengun: Tiltækar aðferðir skulu notaðar til að draga úr mengun frá starfsemi SS. Þetta gildir jafnt um frárennsli, úrgang og loftmengun. Í þessu skyni eru m.a. síur á frárennsli og úrgangur lágmarkaður.

Í vörudreifingu er sett lágmark á stærð sendinga til að ekki sé verið að senda flutningabíla um vegi landsins með lítið magn sem veldur óþarfa mengun og slysahættu.

Flokkun úrgangs: SS flokkar úrgang sem kemur frá starfsemi sinni til að endurnýta megi þann hluta sem er endurnýtanlegur.

Útlit stöðva: Starfsstöðvar SS skulu vera snyrtilegar og falla vel að umhverfinu og bera með sér að þar fer fram hágæða matvælaframleiðsla.

Mælikvarðar á árangur: Umhverfisstjórnunarkerfi frá Klöppum er notað til að fylgjast með umhverfisspori starfseminnar auk annarra innri mælikvarða á sóun.

Í allri starfsemi skulu gæði höfð að leiðarljósi svo SS sé hverju sinni fremst fyrir bragðið í huga neytenda.