Vísað er til umræðna á liðnum vetri á deildarfundum og aðalfundi um breytt verðhlutföll og breytt fyrirkomulag við skipulag sauðfjárslátrunar haustið 2016. Niðurstaða stjórnar félagsins er að gera verði umtalsverðar breytingar á verðhlutföllum frá fyrra hausti vegna of mikils kostnaðar við sauðfjárslátrun sem meðal annars hlýst af misvægi í ásókn eftir sláturtíma. Jafnframt verður að skipuleggja slátrunina með meiri fyrirvara en verið hefur.

Í meðfylgjandi skjali má sjá verðhlutföll eftir vikum, sláturtíma og sláturafköst á dag. Sjá má að dregið verður úr dagslátrun flestar vikur til að lækka kostnað við yfirvinnu og sláturtíð einnig lengd um nokkra daga til að ná sambærilegri heildarslátrun. Verðhlutföllin segja ekkert um verðið sjálft eða verðbreytingar milli ára heldur aðeins um hlutfallslegan mun á verði milli vikna þar sem lægsta verðið er sett sem 100%.

Það er ljóst að nýir innleggjendur munu óska eftir að leggja inn hjá félaginu í haust. Stefna félagsins er að þeir sem hafa lagt inn áður verði að hafa forgang og fá aðgang að slátrun áður en félagið getur tekið við nýju innleggi.

Þjónustuslátrun verður miðvikudaginn 30. nóvember. Greitt verður 90% af lægsta verði haustsins.

Deildarstjórar hafa verið beðnir að skila til félagsins ekki síðar en 12. ágúst næstkomandi sláturáætlun fyrir þá sem lagt hafa inn áður í þeirra deild. Slátrun verður eftir það raðað niður á vikurnar. Pantanir sem berast síðar verða að fara á sláturtíma sem þá er laus. Öllum sem lögðu inn sauðfé síðasta haust verður sent bréf í júlí þar sem bent verður á mikilvægi þess að senda deildarstjórum sláturpantanir tímanlega fyrir 12. ágúst til að hafa betri aðgang að þeim sláturtíma sem óskað er eftir. Miklu skiptir að félagsmenn panti tímanlega hjá deildarstjórum og að innleggstölur standist.

Vegna slakrar afkomu af sauðfjárslátrun er ekki verjandi að félagið sæki fé með verulegum aukakostnaði út fyrir félagssvæðið. Frá og með næsta hausti verður því innheimt flutningsgjald, 20 kr/kg án vsk, ef sauðfjárinnlegg berst félaginu utan félagssvæðisins.

Óskað er góðrar samvinnu við félagsmenn svo þjónusta verði sem best á sama tíma og leggja verður áherslu á að draga úr kostnaði.

Sauðfjárslátrun 2016, verðhlutföll & sláturtími.