Dagatal 2008

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 28. mars 2008 á Laugalandi, Holtum og hefst kl. 15:00.
 
Birtingaráætlun:
• Jan-Jún uppgjör, þann 29. ágúst 2008.
• Júl-Des uppgjör, þann 20. febrúar 2009.
 
Jafnframt er fyrirhugað að halda aðalfund vegna ársins 2008, föstudaginn 27. mars 2009.

Afkoma ársins 2007

Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Ársreikningur 2007 á pdf. formi

  • Tekjur ársins 5.472,4 mkr. en 5.043,1 mkr. árið 2006.
  • 132,7 mkr. hagnaður á árinu, en 23,4 mkr. hagnaður árið áður.
  • EBITDA afkoma var 465 mkr. og hækkar um 83 mkr. frá fyrra ári.
    Ársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á að öllu leyti.   
     
    Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2007 var 132,7 mkr. Árið áður var 23,4 mkr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 1.614 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 36%.
     
    Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.472 mkr. árið 2007, en 5.043 mkr. árið áður og hækka því um 8,5%. Aðrar tekjur voru 34 mkr en 41 mkr. árið áður.
     
    Vöru- og umbúðanotkun var 2.540 mkr. en 2.506 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um 14%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæp 14% og afskriftir hækkuðu um tæp 5%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 226 mkr., en 154 mkr. árið áður.
     
    Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 124 mkr., en voru 159 mkr. árið áður. Gengistap nam tæpum 9 mkr. samanborið við 90 mkr. árið áður. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 4 mkr. en 5 mkr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 25 mkr. en árið áður um 23 mkr. Hagnaður af rekstri ársins var 132,7 mkr. en 23,4 mkr. árið áður.
     
    Veltufé frá rekstri var 338 mkr. árið 2007, samanborið við 365 mkr. árið 2006. 
     
    Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember voru 4.527 mkr. og eiginfjárhlutfall 36%. Veltufjárhlutfall var 1,8 árið 2007, en 1,5 árið áður. 
     
    Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2007 var í aprílmánuði greiddur 7,0% arður af B-deild stofnsjóðs alls 13 mkr. og reiknaðir 7,0% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 16 mkr.
     
    Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.
     
    Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallarinnar.
     
     
    Aðalfundur
    Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 28. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 15,86% arður af B-deild stofnsjóðs, alls 28 mkr. og reiknaðir 10% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 24 mkr. Arðleysisdagur er 31. mars og arðréttindadagur er 2. apríl.  Greiðsludagur arðs er 30. apríl n.k.
     
     
    Staða og horfur
    SS hefur breytt áherslum í kjötiðnaði samfara breyttu neyslumunstri landsmanna með því að mæta í auknum mæli þörfum mötuneyta og veitingahúsa. Breytt matarinnkaup heimila samfara minni tíma til eldamennsku kallar á stöðuga vöruþróun í tilbúnum réttum og tímasparandi lausnum sem uppfylla þurfa næringarþörf neytenda. 
     
    Vöxtur í neyslu alifuglakjöts hefur verið mikill á sama tíma og stöðnun hefur ríkt í neyslu lambakjöts. Með þessa þróun í huga hefur SS aukið enn frekar áherslu sína með eignarhaldi í tveimur af þrem kjúklingaframleiðslufyrirtækjum landsins í því skyni að styrkja stöðu sína sem leiðandi matvælafyrirtæki.
     
    Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur aukið hlutdeild sína á markaði enda mörg vörumerki deildarinnar vel þekkt á heimsvísu. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi hefur aukist umtalsvert enda vörugæðin þekkt meðal bænda. Innflutningur á kjarnfóðri er hafin í samstarfi við DLG í Danmörku sem styrkir enn frekar innflutningshluta félagsins.
     
    Áburður og kjarnfóður hefur hækkað mjög mikið að undanförnu, í raun meira en áður hefur þekkst. Bændur geta ekki tekið á sig þessar miklu hækkanir á framleiðslukostnaði án þess að til komi hækkun á afurðaverði. Þetta mun því óhjákvæmilega leiða til hækkunar á matvælum til neytenda á komandi mánuðum.
     
    Á árinu 2009 mun útflutningsskylda falla niður á dilkakjöti. Af þessum sökum ríkir talsverð óvissa um afkomu kjötgreina þegar kemur fram á árið 2009.   Hækkun á aðföngum bænda til framleiðslu afurða og niðurfelling útflutningsskyldu eykur þörf fyrir hagræðingu hjá bændum og afurðafyrirtækjum. Einnig þarf íslenskur landbúnaður að búa sig undir aukin innflutning samfara lækkun innflutningstolla á landbúnaðarvörum.
     
    Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
     
    Reykjavík, 22. febrúar 2008
    Sláturfélag Suðurlands svf.
  • Áburðarverðskrá komin út

    Fréttabréfið KORNIÐ er komið út. Í fréttabréfinu er að finna yfirlit yfir áburðartegundir Yara, upplýsingar um innihald og hagkvæma notkun einstakra áburðartegunda, upplýsingar um sölufulltrúa og nýja verðskrá.

    Nánari upplýsingar er að finna á www.yara.is

    Fréttabréf 21. janúar 2008

    Fréttabréf 21. janúar 2008 á pdf. formi

    Fyrir hönd Sláturfélagsins vil ég óska bændum
    velfarnaðar á nýju ári og þakka viðskiptin á því liðna.
     
    Við erum á miklum óvissutímum. Staðan í
    efnahagsmálum Íslands og fjármálum heimsins er mjög
    óviss. Næsta víst er að á Íslandi erum við á leið inn í
    efnahagslega niðursveiflu. Dýpt hennar ræðst af
    fjöldamörgum þáttum þar á meðal stefnu ríkisvaldsins,
    fjármálum heimsins og kjarasamningum.

    Kjarnfóður – gæðakerfið

    SS er í samstarfi við Dansk Landbrugs Growareselskab (DLG) í innflutningi á kjarnfóðri.  DLG er stærsti framleiðandinn á kjarnfóðri í Danmörku með um 29.000 bændur sem félagsmenn. 

    Fyrstir með ISO 22000 – 2005
    DLG er fyrsti fóðurframleiðandinn í heimi sem fær vottun skv. nýjum alþjóðlegum HACCP staðli, ISO 22000 – 2005. Staðallinn er sérstaklega miðaður við fyrirtæki sem eru í matvælaframleiðslu eða tengjast henni með einhverjum hætti frá fóðurframleiðanda til matvöruverslana. Til að fá vottun þarf fyrirtæki að sýna fram á að það hafi getu til að tryggja viðvarandi öryggi matvæla t.d. skv. HACCP, en jafnframt að það hafi getu til að uppfylla kröfur kaupanda og kröfur um rekjanleika hráefna, með viðunandi hætti.

    Lokað ferli
    Flutningur á lausu fóðri er í lokuðu ferli.  Fóðrið er sett í gáma í verksmiðju DLG í Danmörku strax eftir framleiðslu.  Inn í gámnum er sterkur plastpoki sem fóðrinu er dælt inn í sem tryggir að fóðrið komist ekki í neina snertingu við gáminn eða utanaðkomandi efni eða óæskilega hluti.  Fóðrinu er síðan dælt beint á síló kaupanda úr gámnum með hefðbundum hætti í því magni sem óskað er eftir.  Ferlið allt og gæði hráefna tryggir ferskleika fóðursins til kaupanda.

    Nánari upplýsingar um DLG.