Fjárhagsdagatal 2024

Fjárhagsdagatal 2024 – Sláturfélag Suðurlands

15. febrúar 2024               Ársuppgjör 2023

15. mars 2024                  Aðalfundur vegna ársins 2023

22. ágúst 2024                 Árshlutauppgjör jan-jún 2024

18. febrúar 2025               Ársuppgjör 2024

21. mars 2025                  Aðalfundur vegna ársins 2024

Afkoma á fyrri árshelmingi 2023

Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur jan-jún 2023 á pdf. formi

Afkoma á fyrri árshelmingi 2023

• Tekjur á fyrri árshelmingi 9.001 m.kr. og hækka um 9% milli ára
• 532 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 437 m.kr. hagnaður árið áður
• EBITDA afkoma var 1.068 m.kr. en 958 m.kr. árið áður
• Eigið fé 7.082 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 54%

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2023 var 532 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 437 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 7.082 m.kr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 9.001 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2023, en 8.242 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um rúm 9%. Aðrar tekjur voru 120 m.kr. en 43 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 4.878 m.kr. en 4.470 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 1.960 m.kr. og hækkaði um tæp 12%, annar rekstrarkostnaður var 1.216 m.kr. og hækkaði um rúm 10% og afskriftir voru 263 m.kr. og hækkuðu um rúm 10%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 804 m.kr., en 718 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 1.068 m.kr. en var 958 m.kr. á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 165 m.kr., en voru 181 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 15 m.kr. Reiknaður tekjuskattur nam 122 m.kr., en 103 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 532 m.kr. en 437 m.kr. á sama tímabili árið áður.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 1.062 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2023, samanborið við 951 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2022. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 13.015 m.kr. og eiginfjárhlutfall 54% en 51% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,9 á fyrri hluta ársins 2023, en 2,4 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrri árshelmingi 2023 fyrir 245 m.kr. en 331 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 64 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 181 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2023 var í aprílmánuði greiddur 19,34% arður af B-deild stofnsjóðs alls 35 m.kr. og reiknaðir 7,5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 28 m.kr.

Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2023
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.

Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu SS: www.ss.is

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2023 þann 15. febrúar 2024.

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 54% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,9. Langtímaskuldir í lok júní 2023 voru 2.774 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 95 m.kr. en lán samstæðunnar eru til mjög langs tíma. Lausafjárstaða félagsins er einnig góð en handbært fé var í lok júní 938 m.kr.

Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára um 95 m.kr. Velta samstæðunnar jókst á milli ára um 9% eða 760 m.kr. Jákvæð áhrif á veltu má m.a. rekja til aukningar á ferðamönnum, sterkari stöðu í sölu kjötvara, innflutningi matvæla og búrekstrarvara til bænda.

Nokkur óvissa er framundan sem getur haft neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar á seinni árshelmingi. Hækkanir á rekstrarvöru, bæði innlendri sem erlendri, hafa verið umtalsverðar á árinu en gert er ráð fyrir að það hægist á þeirri þróun. Gengisstyrking krónu hefur einnig haft jákvæð áhrif. Afurðaverð sauðfjár mun hins vegar taka hækkunum í haust og áhrif af kjarasamningum sem framundan eru geta orðið framleiðslufyrirtækjum þung.

Sala á lambakjöti hefur gengið vel á árinu og birgðastaða í upphafi sláturtíðar verður í sögulegu lágmarki. Aukinn innflutningur á kjöti hefur hins vegar neikvæð áhrif á afkomu afurðafélaga og dregur úr framleiðslu innanlands en 1,5% samdráttur var milli ára í kjötframleiðslu innanlands. Áfram verður unnið að því að aðlaga rekstur samstæðunnar að breyttu rekstrarumhverfi, m.a. með því að leggja áherslu á sérstöðu og gæði innlendrar framleiðslu.

Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hefur styrkt grundvöll félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði. Samt sem áður er reiknað með erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði á næstu árum vegna hækkana á hrávöru til landbúnaðarframleiðslu og aukningu í innflutningi kjötvara en um 25% af nautgripa- og svínakjöti sem nú er selt á landsvísu er flutt inn.

Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði með nýjum vöruflokkum sem ganga vel. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur. Áfram verða nýtt tækifæri til frekari vaxtar. Jákvætt er að verð á áburði til bænda á erlendum mörkuðum hefur lækkað frá fyrra ári. Samt sem áður er nokkur óvissa um verðþróun helstu rekstrarvara á næstu misserum sem getur haft neikvæð áhrif á framleiðslukostnað landbúnaðarvara.

Fjárhagsdagatal
15. febrúar 2024              Ársuppgjör 2023
15. mars 2024                 Aðalfundur 2023
22. ágúst 2024                Árshlutauppgjör jan-jún 2024
18. febrúar 2025             Ársuppgjör 2024
21. mars 2025                Aðalfundur vegna ársins 2024

Frekari upplýsingar veita:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is

 

Niðurstöður aðalfundar 17. mars 2023

Niðurstöður aðalfundar Sláturfélags Suðurlands svf.  Hér á PDF formi

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands var haldinn föstudaginn 17. mars 2023 kl. 15:00 að Goðalandi, Fljótshlíð.

1. Ársreikningur
Aðalfundur samþykkti ársreikning félagsins vegna ársins 2022.

2. Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs samþykkt
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að greiddur verði 19,34% arður af B-deild stofnsjóðs þar af er verðbótaþáttur 9,34% skv. 1. mgr. 14. gr. samþykkta félagsins, alls kr. 34.826.376,- eða 0,1934 kr. á hvern útgefin hlut. Jafnframt að reiknaðir verði 7,5% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls kr. 27.537.844,- Arðleysisdagur er 20. mars og arðréttindadagur er 21. mars. Greiðsludagur arðs er 29. mars n.k.

3. Kosning stjórnar
Stjórn félagsins eftir kosningar skipa eftirtaldir:

Aðalmenn:
Hallfreður Vilhjálmsson, formaður, kt. 031259-4449
Guðrún S. Magnúsdóttir, kt. 270875-5729
Lilja Guðrún Eyþórsdóttir, kt. 260864-5489
Sverrir Gíslason, kt. 060469-4319
Þorsteinn Logi Einarsson, kt. 221082-5169

Til vara:
Áslaug Finnsdóttir, kt. 090863-2669
Eiríkur Jónsson, kt. 140465-5429
Guðmundur H. Davíðsson, kt. 020659-2119
Gunnar Sigurjónsson, kt. 170166-3299
Magðalena Karlotta Jónsdóttir, kt. 010865-3449

4. Kosning skoðunarmanna og endurskoðenda
Löggiltur endurskoðandi:
Deloitte hf., Smáratorgi 3, 201 Kópavogur

Skoðunarmenn:
Aðalmenn:
Finnur Pétursson, kt. 260662-2609
Jónas Erlendsson, kt. 230263-7369

Varaskoðunarmenn:
Ingibjörg Harðardóttir, kt. 020371-4639
Ragnar Lárusson, kt. 141057-4569

5. Laun stjórnar og skoðunarmanna
Stjórnarformaður kr. 1.633.000,- á ári.
Meðstjórnendur kr. 815.000,- á ári.
Skoðunarmenn kr. 215.000,- á ári.
Endurskoðunarnefnd(stjórnarmaður) kr. 215.000,- á ári.

6. Aðrar tillögur
Tillaga um merkingu kjötvara: Aðalfundur samþykkti að vísa til stjórnar.
Tillaga um ráðningu sölu- og markaðsstjóra: Aðalfundur samþykkti að vísa til stjórnar.

 

Tillögur fyrir aðalfund Sláturfélags Suðurlands svf. 17. mars 2023

Eftirfarandi tillögur hafa borist stjórn Sláturfélags Suðurlands:

 

Merking kjötvara
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands haldinn á Goðalandi í Fljótshlíð 17. mars 2023, samþykkir að Sláturfélag Suðurlands merki þær vörur sem innihalda erlent kjöt. Útbúið verði sér merki þar sem fram kemur með afgerandi hætti að um erlent kjöt sé að ræða.

Greinargerð: Í dag er erlent kjöt selt undir merkjum Búrfells, og er eini munurinn að lítil fánarönd er á þeim vörum sem innihalda íslenskt kjöt en sú fánarönd er ekki á þeim vörum sem innihalda erlent kjöt. Þetta er engan vegin greinilegt fyrir neytendum. Það fyrsta sem neytendur eiga að sjá er þeir horfa á vöru er hvort hún sé með erlendu eða íslensku hráefni.

Gylfi Sigríðarson

 

Ráðning sölu- og markaðsstjóra
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands haldinn á Goðalandi í Fljótshlíð 17. mars 2023, samþykkir að stjórn Sláturfélags Suðurlands ráði til starfa sölu- og markaðsstjóra.

Greinargerð: Í dag sinnir forstjóri Sláturfélags Suðurlands einnig starfi sölu- og markaðsstjóra félagssins. Hjá eins stóru félagi og Sláturfélag Suðurlands er, þá á það ekki að vera vafamál að félagið þurfi að hafa sölu- og markaðsstjóra í fullu starfi.

Gylfi Sigríðarson

 

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn 17. mars 2023 að Goðalandi, Fljótshlíð kl. 15:00.

 

Reykjavík, 3. mars 2023.

Sláturfélag Suðurlands svf.

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri – sími: 575 6000 – hjalti@ss.is

Tillögur fyrir aðalfund Sláturfélgs Suðurlands svf. 17. mars 2023