Framboð til stjórnar og varastjórnar Sláturfélags Suðurlands svf. á aðalfundi 12. júní 2020

Framboð til stjórnar og varastjórnar Sláturfélags Suðurlands svf. á aðalfundi 12. júní 2020.

Framboð til stjórnar og varastjórnar skal hafa borist skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund í samræmi við 2. mgr. 27. gr. samþykkta félagsins. Framboð hefur borist innan tilskilins frests frá eftirtöldum aðilum:

Til setu í aðalstjórn
Guðrún S. Magnúsdóttir, Bræðratungu, 801 Selfossi
Hallfreður Vilhjálmsson, Kambshóli II, 301 Akranesi
Ingibjörg Daníelsdóttir, Fróðastöðum, 320 Reykholti
Kristinn Jónsson, Staðarbakka, 861 Hvolsvelli
Sverrir Gíslason, Kirkjubæjarklaustur 2, 880 Kirkjubæjarklaustri

Til setu í varastjórn
Guðmundur H. Davíðsson, Miðdal, 270 Mosfellsbæ
Guðmundur Ó. Helgason, Lambhaga, 851 Hellu
Gunnar Sigurjónsson, Litla-Hofi, 785 Öræfi
Lilja Guðrún Eyþórsdóttir, Vestri-Reynir, 301 Akranesi
Oddný Steina Valsdóttir, Butru, 861 Hvolsvelli
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðakoti, 801 Selfossi

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn 12. júní 2020 að Goðalandi, Fljótshlíð kl. 15:00.

Aðalfundur SS framboð til stjórnar og varastjórnar 2020

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands svf. verður haldinn föstudaginn 12. júní 2020

Auglýsing aðalfundar SS

Dagskrá og tillögur fyrir aðalfund á pdf. formi

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands svf. verður haldinn föstudaginn 12. júní 2020 á Goðalandi Fljótshlíð og hefst kl. 15:00

Dagskrá:

1. Setning aðalfundar, kosning starfsmanna fundarins og könnun á mætingu fulltrúa.
2. Skýrsla stjórnar félagsins.
3. Starfsemi félagsins á liðnu ári.
4. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skýrður.
5. Skýrsla skoðunarmanna.
6. Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.
7. Umræður um skýrslu stjórnar, skýrslu um starfsemi félagsins, ársreikning og tillögu um vexti og arð af stofnsjóði.
8. Afgreiðsla ársreiknings og tillagna um vexti og arð af stofnsjóði.
9. Tillaga stjórnar um breytingar á 27. gr. samþykkta félagsins.
10. Kosin stjórn félagsins.
11. Kosning endurskoðenda og skoðunarmanna.
12. Ákvörðun um þóknun stjórnar, skoðunarmanna og greiðslur til fulltrúa.
13. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál, löglega upp borin.

Tillögur frá félagsaðilum sem bera á fram á aðalfundi þurfa að vera komnar skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Framboð til stjórnar og varastjórnar skal hafa borist skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund í samræmi við 2. mgr. 27. gr. samþykkta félagsins.

Tillögur:

Liður 6 í dagskrá: Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að greiddur verði 12,66% arður af B-deild stofnsjóðs þar af er verðbótaþáttur 2,66% skv. 1. mgr. 14. gr. samþykkta félagsins, alls kr. 22.797.411,- eða 0,13 kr. á hvern útgefin hlut. Jafnframt að reiknaðir verði 3,0% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls kr. 10.642.637,- Arðleysisdagur er 15. júní og arðréttindadagur er 16. júní. Greiðsludagur arðs er 24. júní n.k.

Liður 9 í dagskrá: Tillaga stjórnar um breytingar á 27. gr. samþykkta félagsins.
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að gætt sé kynjahlutfalls í varastjórn og óheimilt sé að tilnefna fólk til aðalstjórnarstarfa sem ekki er á auglýstum framboðslista allt þar til sjálf kosningin fer fram.

Breytingar sem lagðar eru til á 27. gr. eru undirstrikaðar og með rauðu letri:

27. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm aðalmönnum og fimm varamönnum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi úr hópi félagsmanna til eins árs í senn. Í aðal– og varastjórn skal hlutfall hvors kyns fyrir sig ekki vera lægra en 40%.

Stjórn skal auglýsa með opinberum hætti eftir framboðum til stjórnar og varastjórnar með lok framboðsfrests þremur vikum fyrir félagsfund þar sem stjórnarkjör fer fram. Stjórn skal tilkynna aðalfundarfulltrúum með auglýsingu eða dreifibréfi (rafpósti) um hverjir eru frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar ekki síðar en tveimur vikum fyrir félagsfund þar sem stjórnarkjörið fer fram. Á félagsfundi þar sem stjórnarkjör er á dagskrá, er ávallt heimilt að tilnefna fólk til varastjórnarstarfa sem ekki er á auglýstum framboðslista allt þar til sjálf kosningin fer fram.

Allir aðalstjórnarmenn skulu kosnir á sama tíma og varastjórnarmenn með sama hætti eftir að kjöri aðalstjórnar er lokið. Hver fulltrúi á félagsfundi þar sem stjórnarkjör fer fram getur greitt einum til fimm frambjóðendum til stjórnar atkvæði sitt. Þeir stjórnarmenn sem flest atkvæði hljóta skulu réttkjörnir til stjórnarstarfa næsta kjörtímabil með þeirri undantekningu þó, að skili kosningin ekki réttum hlutföllum hvors kyns fyrir sig í aðal– og varastjórn til samræmis við ákvæði 1. mgr., þá skulu atkvæðaflestu frambjóðendur til aðal– og varastjórnar af gagnstæðu kyni sem hallar á við stjórnarkjörið, taka sæti í stjórn, einn eða tveir, eins og nauðsynlegt er til að lögmætu hlutfalli milli kynjanna verði náð, og þar með víkja þeim frambjóðendum til aðal– og varastjórnar af gagnstæðu kyni sem þó hafa hlotið fleiri atkvæði við stjórnarkjörið.

Ef aðalmaður deyr, gengur úr félaginu eða víkur úr stjórninni á löglegan hátt, áður en kjörtíminn er liðinn, tekur sá varamaður sæti til fulls í hans stað sem flest atkvæði fékk í kjöri varastjórnar þó þannig að lögmætu hlutfalli kynjanna sé haldið. Enginn félagsmaður getur skorast undan kosningu í stjórn félagsins, nema um jafnmörg ár og hann hefur næst áður verið í stjórninni og með samþykki hans má endurkjósa hann í stjórn.

Félagsstjórnin velur árlega formann og varaformann úr sínum flokki.

Reykjavík, 19. maí 2020.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.

Rafræn skráning 20. apríl 2020

Öll hlutabréf í B-deild stofnsjóðs Sláturfélags Suðurlands svf. hafa verið tekin til rafrænnar skráningar í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. í dag 20. apríl 2020. Frá þeim tíma eru hin áþreifanlegu hlutabréf í félaginu ógild.

Að lokinni rafrænni skráningu geta hluthafar nálgast hluti sína sem og arð með því að fela reikningsstofnun sem gert hefur aðildarsamning við Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. umsjón með eignarhlut sínum í félaginu og stofna vörslureikning. Arður verður framvegis einungis greiddur út í gegnum kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.

Aðalfundi Sláturfélags Suðurlands svf. sem halda átti 20. mars 2020 frestað um óákveðin tíma.

Aðalfundi Sláturfélags Suðurlands sem halda átti 20. mars 2020 er frestað um óákveðin tíma.

Við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi vegna kórónaveirunnar COVID-19 hefur SS gripið til fjölþættra aðgerða til að draga úr sýkingaráhættu til að vernda starfsfólk sitt og viðskiptavini í samræmi við tilmæli stjórnvalda. Aðgerðirnar taka einnig mið af því að tryggja eins og hægt er að starfsemi félagsins raskist sem minnst. Sem liður í að draga úr áhættu er aðalfundi félagsins sem halda átti 20. mars n.k. frestað um óákveðin tíma.

Þegar aðstæður skýrast og samkomubanni verið aflétt verður aðalfundur SS haldinn og hann auglýstur að nýju í samræmi við ákvæði samþykkta félagsins.

Reykjavík, 16. mars 2020.

Sláturfélag Suðurlands svf.

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri – sími: 575 6000 – hjalti@ss.is

Fréttatilkynning á pdf. formi