Íslandsmet í slátrun

Síðastliðinn fimmtudag, 27. nóvember fór slátrun í sláturhúsinu á Selfossi yfir 100.000 fjár. Aldrei fyrr hefur verið slátrað svo mörgu fé í einu sláturhúsi á Íslandi og er því um Íslandsmet að ræða. Gert er ráð fyrir að slátrun fari í 111 þúsund fjár áður en vetrarslátrun lýkur þann, 18. des. n.k.
Meðalvikt dilka það sem af er er 15,2 kg. Innviktað magn til innleggs er 1.511,5 tonn og 60,3 tonn eru heimtekið. Þá var slátrað 1376 kindum í páskaslátrun, sem gáfu af sér u.þ.b. 21 tn. af kjöti. Því hafa farið í gegnum húsið tæp 1.600 tn.

Til gamans má geta þess að til að sækja þetta fé til bænda hafa verið eknir 114 þús. km. og til að slátra og vinna afurðirnar til geymslu og útflutnings hafa verið notaðar u.þ.b. 52 þúsund vinnustundir, sem eru u.þ.b. 25 mannár.

Hundrað þúsundasta kindin var frá Brynjólfi Ottesen, bónda í Ytri-Hólmi í Akraneshreppi, áburðarsölumanni og tengilið félagsins vegna sauðfjárslátrunar af Vesturlandi.

Afköst og vinnubrögð í húsinu á Selfossi hafa verið til mikillar fyrirmyndar þetta haustið. Til starfa hefur valist einstaklega samhentur hópur dugnaðarfólks sem lagt hefur sig fram til að gera ofangreint að veruleika.

Í tilefni íslandsmetsins var starfsfólki boðið upp á brauðtertur og þverhandarþykkar hnallþórur að hætti Gísla og samstarfsfólks í mötuneytinu á Selfossi.

Á meðfylgjandi myndum gefur að líta þau Jóhönnu, Sverri og Gísla, sem borið hafa hitann og þungann, hvert á sínu sviði.

Við sendum okkar bestu hamingjuóskir og þakkir á Selfoss.

slatrun

Afkoma fyrstu níu mánaða ársins 2003

Rekstrartap Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til september 2003 var 30,0 milljónir, en á sama tímabili árið áður var 14,5 milljón króna rekstrartap. Afkoma fyrir fjármagnsliði batnar um 38 milljónir, en aukin fjármagnsgjöld og tap af rekstri hlutdeildarfélaga leiða til 15 milljón króna lakari afkomu milli ára. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er áfram góð með eigið fé rúmar 1.188 milljónir og 46% eiginfjárhlutfall.

Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands voru 2.398 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2003, en 2.667 milljónir á sama tíma árið áður og minnkuðu um rúm 10% aðallega vegna mikillar verðsamkeppni á kjötmarkaðnum. Veltusamdrætti hefur verið mætt með lækkun rekstrarkostnaðar.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 2.238 milljónum á fyrri hluta ársins 2003 samanborið við 2.546 milljónum árið áður og minnka um 12%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 115 milljónir sem er óbreytt frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 45 milljónir, en 7 milljónir króna árið áður.

Fjármagngjöld umfram fjármunatekjur voru 36 milljónir, en á árinu á undan voru fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld 16 milljónir. Undir fjármagnsliðum er 23 milljón króna gjaldfærsla vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins en árið áður var hún 14 milljónir.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 35 milljónir en árið áður 28 milljónir. Skattar voru 4 milljónir. Tap af rekstri tímabilsins var 30,0 milljónir en 14,5 milljónir árið áður.

Veltufé frá rekstri var 141 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2003, samanborið við 85 milljónir frá rekstri fyrir sama tímabil árið 2002.

Í lok september 2003 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 2.605 milljónir og höfðu lækkað um 326 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 499 milljónir, langtímaskuldir 918 milljónir og eigið fé 1.188 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 46% í lok september 2003, en var 45% á sama tíma árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,7 í lok september 2003, en 0,9 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 78 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins, aðallega í tækjabúnaði kjötiðnaðar og í sláturhúsinu á Selfossi. Fjárfest var í félögum fyrir 51 milljón, en aukið var hlutafé í Gullfoss og Ferskum kjötvörum.

Nú í haust var undirritað samkomulag milli Kaupþings Búnaðarbanka hf. og SS Eigna ehf. dótturfélags Sláturfélags Suðurlands svf. um kaup félagsins á 100% hlut í kjúklingaframleiðslufyrirtækinu Reykjagarði hf. Kaupin og rekstur Reykjagarðs hf. koma inn í reikningsskil Sláturfélagsins á síðasta ársfjórðungi 2003.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Við gerð þess er í öllum meginatriðum fylgt sömu reikningsskilaaðferðum og á fyrra ári. Reikningsskilin eru verðleiðrétt. Ef reikningsskilin hefðu ekki verið verðleiðrétt hefði tap tímabilsins orðið 5 milljónum hærra og eigið fé 53 milljónum lægra.

Horfur
Afkoma félagsins á fyrri árshelmingi ársins 2003 var óviðunandi og einkenndist af mikilli verðsamkeppni og offramboði á kjöti á markaðnum sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Ekki er gert er ráð fyrir að aukið jafnvægi náist á kjötmarkaðnum fyrr en kemur fram á árið 2004.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár. Til að bæta afkomu sauðfjárslátrunar var sláturhúsið að Laxá aflagt í haust.

Aðhaldi verður áfram beitt í rekstri félagsins, en gripið hefur verið til þess að draga úr útgjöldum auk þess sem fjárfestingar hafa verið dregnar saman. Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins batni á síðasta ársfjórðungi.

Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000

Reykjavík, 13. nóvember 2003
Sláturfélag Suðurlands svf.

 

Sala á rekstri og eignum Reykjagarðs hf.

Miklir erfiðleikar hafa verið á innlendum kjötmarkaði undanfarið eitt og hálft ár. Rekstur afurðafyrirtækja hefur gengið illa og sérstaklega verið slök afkoma fyrirtækja í alifuglaeldi, slátrun og úrvinnslu.

Reykjagarður hf. hefur ekki farið varhluta ef þessum erfiðleikum og verið rekinn með miklu tapi undanfarin misseri.

Til að tryggja áframhaldandi rekstur og ótruflaða verðmætasköpun hefur stjórn Reykjagarðs hf. tekið þá ákvörðun að selja allan rekstur og eignir til nýs fyrirtækis með sama nafni í eigu sömu aðila.

Söluverð er 779 mkr.

Samningar þar að lútandi voru gerðir í dag og miðast við yfirtöku eigna og skuldbindinga m.v. 1. október. Samhliða hefur fjárhagur hins nýja félags verið endurskipulagður og því lagt til aukið eigið fé.

Hluti skulda eldra félags verður ekki yfirtekinn af nýjum rekstraraðila og verður unnið að uppgjöri þeirra á næstu mánuðum.

Nánari uppl. veitir Steinþór Skúlason stjórnarformaður Reykjagarðs hf. í síma 575 6000.

SS Eignir ehf. kaupa Reykjagarð

Fyrir um ári síðan var gerður samningur á milli Búnaðarbanka Íslands hf. og SS Eigna ehf., dótturfélags Sláturfélagsins, um kaup SS Eigna ehf. á 67% hlut í Reykjagarði hf. með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Á þeim tíma sem liðinn er hafa verið miklar sviptingar á kjötmarkaði og forsendur samnings breyst.

Eftir viðræður á milli Kaupþings Búnaðarbanka hf. og SS Eigna ehf. er það niðurstaða aðila að víkja til hliðar þeim samningi sem gerður var.

Aðilar hafa gert með sér nýjan samning. Í honum felst að SS Eignir ehf. hafa keypt allt hlutafé Reykjagarðs hf. og tekið við allri stjórn félagsins. Atriði samningsins eru trúnaðarmál.

Með þessum lyktum er eytt óvissu sem tengst hefur frágangi á kaupum SS Eigna ehf. á Reykjagarði hf. Kaupþing Búnaðarbanki hf. fjármagnar kaupin og íþyngja þau því ekki greiðslustöðu Sláturfélagsins.

Nánari uppl. veitir Steinþór Skúlason forstj. SS í síma 575 6000.

Afkoma á fyrri árshelmingi 2003

Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali (95 kb) 

Afkoma á fyrri árshelmingi 2003
Rekstrartap Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2003 var 59,9 milljónir, en á sama tímabili árið áður var 5,5 milljón króna rekstrartap. Verri afkoma stafar fyrst og fremst af minni veltu vegna offramboðs á kjötmarkaði og 38 milljón króna hækkun fjármagnsgjalda frá fyrra ári. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með eigið fé rúmar 1.154 milljónir og 44% eiginfjárhlutfall.

Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands voru 1.567 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2003, en 1.747 milljónir á sama tíma árið áður og minnkuðu um rúm 10%.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 1.510 milljónum á fyrri hluta ársins 2003 samanborið við 1.682 milljónum árið áður og minnka um rúm 10%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 76 milljónir sem er óbreytt frá fyrra ári. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 19 milljónir, en 11 milljónir króna árið áður.

Fjármagngjöld umfram fjármunatekjur voru 12 milljónir, en á árinu á undan voru fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld 26 milljónir. Undir fjármagnsliðum er 15 milljón króna gjaldfærsla vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins en árið áður var hún 9 milljónir.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 27 milljónir en árið áður 14 milljónir. Skattar voru 2 milljónir. Tap af rekstri tímabilsins var 59,9 milljónir en 5,5 milljónir árið áður.

Veltufé frá rekstri var 42 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2003, samanborið við 39 milljónir frá rekstri fyrir sama tímabil árið 2002.

Í lok júní 2003 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 2.619 milljónir og höfðu lækkað um 313 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 552 milljónir, langtímaskuldir 913 milljónir og eigið fé 1.154 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 44% í lok júní 2003 óbreytt frá sama tíma árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,6 í lok júní 2003, en 1,4 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 42 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, aðallega í tækjabúnaði kjötiðnaðar og fyrir 9 milljónir í félögum.

Á árinu 2002 var undirritað samkomulag milli Búnaðarbanka Íslands hf. og Sláturfélags Suðurlands svf. um kaup Sláturfélagsins á 67% hlut í kjúklingaframleiðslufyrirtækinu Reykjagarði hf. Þar sem uppgjöri vegna áreiðanleikakönnunar sem gerð var vegna kaupanna er ekki lokið, þá er kaupverð hlutabréfanna ekki fært í árshlutauppgjöri Sláturfélagsins pr. 30. júní 2003.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Við gerð þess er í öllum meginatriðum fylgt sömu reikningsskilaaðferðum og á fyrra ári. Reikningsskilin eru verðleiðrétt. Ef reikningsskilin hefðu ekki verið verðleiðrétt hefði tap tímabilsins orðið 5 milljónum hærra og eigið fé 52 milljónum lægra.

Horfur fyrir árið 2003
Afkoma félagsins á fyrri árshelmingi ársins 2003 var óviðunandi og einkenndist af mikilli verðsamkeppni og offramboði á kjöti á markaðnum sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Ekki er gert er ráð fyrir að aukið jafnvægi náist á kjötmarkaðnum fyrr en kemur fram á árið 2004.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár. Tekin hefur verið ákvörðun um að úrelda sláturhúsið að Laxá til að bæta afkomu sauðfjárslátrunar.

Aðhaldi verður áfram beitt í rekstri félagsins, en gripið hefur verið til þess að draga úr útgjöldum auk þess sem fjárfestingar hafa verið dregnar saman. Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins verði áfram þung næstu mánuði en afkoman batni á síðasta ársfjórðungi.

Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000

Reykjavík, 28. ágúst 2003
Sláturfélag Suðurlands svf.