Síðastliðinn fimmtudag, 27. nóvember fór slátrun í sláturhúsinu á Selfossi yfir 100.000 fjár. Aldrei fyrr hefur verið slátrað svo mörgu fé í einu sláturhúsi á Íslandi og er því um Íslandsmet að ræða. Gert er ráð fyrir að slátrun fari í 111 þúsund fjár áður en vetrarslátrun lýkur þann, 18. des. n.k.
Meðalvikt dilka það sem af er er 15,2 kg. Innviktað magn til innleggs er 1.511,5 tonn og 60,3 tonn eru heimtekið. Þá var slátrað 1376 kindum í páskaslátrun, sem gáfu af sér u.þ.b. 21 tn. af kjöti. Því hafa farið í gegnum húsið tæp 1.600 tn.

Til gamans má geta þess að til að sækja þetta fé til bænda hafa verið eknir 114 þús. km. og til að slátra og vinna afurðirnar til geymslu og útflutnings hafa verið notaðar u.þ.b. 52 þúsund vinnustundir, sem eru u.þ.b. 25 mannár.

Hundrað þúsundasta kindin var frá Brynjólfi Ottesen, bónda í Ytri-Hólmi í Akraneshreppi, áburðarsölumanni og tengilið félagsins vegna sauðfjárslátrunar af Vesturlandi.

Afköst og vinnubrögð í húsinu á Selfossi hafa verið til mikillar fyrirmyndar þetta haustið. Til starfa hefur valist einstaklega samhentur hópur dugnaðarfólks sem lagt hefur sig fram til að gera ofangreint að veruleika.

Í tilefni íslandsmetsins var starfsfólki boðið upp á brauðtertur og þverhandarþykkar hnallþórur að hætti Gísla og samstarfsfólks í mötuneytinu á Selfossi.

Á meðfylgjandi myndum gefur að líta þau Jóhönnu, Sverri og Gísla, sem borið hafa hitann og þungann, hvert á sínu sviði.

Við sendum okkar bestu hamingjuóskir og þakkir á Selfoss.

slatrun