Afkoma á fyrri árshelmingi 2013

• Tekjur á fyrri árshelmingi 5.351 mkr. og aukast um 9% milli ára.
• 230 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 160 mkr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 524 mkr. en 471 mkr. árið áður.
• Eigið fé 3.339 mkr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 49%.

Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur SS jan – jún 2013 á PDF. formi

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2013 var 230 mkr.  Á sama tímabili árið áður var 160 mkr. hagnaður.  Eigið fé Sláturfélagsins er 3.339 mkr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.351 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2013, en 4.925 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um 9%.  Aðrar tekjur voru 14 mkr en 23 mkr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 3.080 mkr. en 2.899 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 11%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 12% og afskriftir hækkuðu um tæpt 1%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 380 mkr., en 328 mkr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 524 mkr.  en var 471 mkr. á sama tíma í fyrra.
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 10 mkr. en árið áður um 17 mkr.  Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 105 mkr., en voru 150 mkr., á sama tímabili í fyrra.  Reiknaður tekjuskattur nam 55 mkr., en 36 mkr. árið áður.  Hagnaður af rekstri tímabilsins var 230 mkr. en 160 mkr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 519 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2013, samanborið við 469 mkr. fyrir sama tímabil árið 2012. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní  voru 6.792 mkr. og eiginfjárhlutfall 49%.  Veltufjárhlutfall var 2,8 á fyrri hluta ársins 2013, en 3,2 árið áður.
Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2013 fyrir 183 mkr. en 148 mkr. á sama tímabili árið áður. Seldar voru eignir fyrir 10 mkr. Á fyrri árshelmingi hófust framkvæmdir við stækkun starfstöðvar félagsins á Selfossi en þar er m.a. slátur- og frystihús félagsins.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2013 var í aprílmánuði greiddur 14,5% arður af B-deild stofnsjóðs alls 26 mkr. og reiknaðir 7% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 20 mkr.
Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2013
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX.  Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti.  Ráðgert er að birta afkomu ársins 2013 þann 18. febrúar 2014.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 49% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,8. Langtímatímaskuldir í lok júní 2013 voru 2.018 mkr. og skuldahlutfall því um 2 að teknu tilliti til EBITDA afkomu félagsins. Næsta árs afborganir eru um 88 mkr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma sem tryggir lága árlega greiðslubyrði.
Innanlandssala á kjöti fer hægt vaxandi. Aðstæður á erlendum mörkuðum eru misjafnar fyrir lambakjöt og enn ríkir nokkur óvissa með afsetningu á hluta afurða sem falla til í haust.
Bætt rekstrarskilyrði á síðastliðnum árum, öflug vöruþróun og markaðssókn hafa styrkt afkomu kjötiðnaðar. Staða lykilvörumerkja félagsins í kjötiðnaði er afar sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum.  Gert er ráð fyrir að á síðari árshelmingi hægi á afkomubata kjötiðnaðar einkum vegna hærra innkaupsverðs á aðföngum.
Matvöruhluti innflutningsdeildar stendur vel. Með nýjum viðskiptasamböndum hefur vöruúrval verið aukið til áframhaldandi vaxtar. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði fyrir helstu rekstrarvörur bænda. Sala á Yara áburði til bænda gekk vel á fyrri hluta ársins og sala á dlg kjarnfóðri og öðrum rekstrarvörum eykst stöðugt.  Framkvæmdir við byggingu á nýju vöruhúsi í Þorlákshöfn undir starfsemi búvöruhluta innflutningsdeildar hefjast fljótlega og áætlað að framkvæmdum verði lokið fyrir áramót.
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is

Tindfjallahangikjét af 2013 árgerðinni komið á markað

Það ríkir ávallt ákveðin eftirvænting hjá kjötmeisturum SS á Hvolsvelli þegar nýr árgangur af Tindfjallahangikjeti er fullverkaður og settur á markað.  Framleiðsluferlið er flókið og tekur marga mánuðið þar sem fagmennirnir leggja metnað og þekkingu í verkefnið.


Í upphafi eru sérvalin lambalæri með ákveðinni holdfyllingu og réttu fituhlutfalli.  Síðan eru lærin snyrt, söltuð með sérstakri saltuppskrift, tvíreykt með íslensku birki og sauðataði, þurrkuð og látin hanga og moðna eftir kúnstarinnar reglum við kjöraðstæður.  Utanaðkomandi þættir hafa áhrif á endanlegt bragð og það hvernig til tekst.  Þannig hefur rigningasumar áhrif á kjötið sjálft og auk þess á sauðataðið og birkilurkanna.
Meðfylgjandi mynd af kjötmeisturum SS er tekin þegar þeir gerðu lokapróf á 2013 árgerðinni.  Að mörgu er að hyggja.  Varan er snædd hrá og því þarf hún að vera mátulega sölt, mátulega þurr og rétta reykbragðið þarf að vera til staðar.  Þetta árið höfðu kjötmeistararnir býsna ólíkar skoðanir, sumir töldu óþurrkasumarið hafa haft áhrif til hins verra á meðan aðrir töldu að birkið hefði laufgast seint vegna vorkulda, en síðan sprottið vel í vætutíðinni, sem skilaði sér í einstöku birkibragði þetta árið.  Einn hafði það á orði að skítaveður Sunnanlands og hátt rakastig í lofti hefði haft góð áhrif á sauðataðið og gæfi þannig örlítinn keim af koníaki.  Allir voru sammála um að 2013 árgangurinn væri ljúffengur og sæmdi sér vel á borðum landsmanna.


Tindfjallahangikjet er sælkeravara, framleidd í mjög takmörkuðu magni og fáanleg tímabundið í öllum betri matvöruverslunum.

 

kjotidnadarmenn

SS tekur í notkun tvo nýja vörubíla

Sláturfélag Suðurlands fékk nýverið afhentar tvær Mercedes-Benz vörubifreiðar frá Bílaumboðinu Öskju. Um er að ræða annars vegar 13 tonna Atego bíl með kassa, kæli og lyftu, ætlaðan í útkeyrslu á vörum innan höfuðborgarsvæðisins, sem leysir af hólmi 6 ára gamla Man bifreið á Fosshálsi.

Hin bifreiðin er 25 tonna Actros með kassa, kæli og brautum í lofti fyrir hangandi kjöt, ætluð í akstur frá sláturhúsinu á Selfossi til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu og afurðaflutninga milli starfsstöðva SS á Suðurlandi. Sá bíll leysir af hólmi tæplega 10 ára gamla Volvo bifreið á Selfossi.

Nýju bílarnir eru báðir vel útbúnir til flutninga á matvælum með kælikössum af fullkomnustu gerð, uppfylla ítrustu gæða- og mengunarstaðla og með sparneytnari vélum en eldri bílar.

Endurnýjun þessara tveggja bíla endurspeglar áherslu SS á að þau tæki sem notuð eru til matvælaflutninga í þágu félagsins séu mikilvægur hlekkur í því að uppfylla markmið félagsins um hámarksgæði og þjónustu.

Eldri bílarnir hafa verið seldir og gekk kaupverðið upp í kaup nýju bílanna.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við afhendingu bílanna eru frá vinstri Páll Halldór Halldórsson frá Öskju, Friðrik Kristjánsson og Heiðar B. Jónsson bílstjórar hjá SS.

 nyir_vorubilar

SS tekur í notkun tvo nýja vörubíla

Sláturfélag Suðurlands fékk nýverið afhentar tvær Mercedes-Benz vörubifreiðar frá Bílaumboðinu Öskju. Um er að ræða annars vegar 13 tonna Atego bíl með kassa, kæli og lyftu, ætlaðan í útkeyrslu á vörum innan höfuðborgarsvæðisins, sem leysir af hólmi 6 ára gamla Man bifreið á Fosshálsi.

Hin bifreiðin er 25 tonna Actros með kassa, kæli og brautum í lofti fyrir hangandi kjöt, ætluð í akstur frá sláturhúsinu á Selfossi til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu og afurðaflutninga milli starfsstöðva SS á Suðurlandi. Sá bíll leysir af hólmi tæplega 10 ára gamla Volvo bifreið á Selfossi.

Nýju bílarnir eru báðir vel útbúnir til flutninga á matvælum með kælikössum af fullkomnustu gerð, uppfylla ítrustu gæða- og mengunarstaðla og með sparneytnari vélum en eldri bílar.

Endurnýjun þessara tveggja bíla endurspeglar áherslu SS á að þau tæki sem notuð eru til matvælaflutninga í þágu félagsins séu mikilvægur hlekkur í því að uppfylla markmið félagsins um hámarksgæði og þjónustu.

Eldri bílarnir hafa verið seldir og gekk kaupverðið upp í kaup nýju bílanna.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við afhendingu bílanna eru frá vinstri Páll Halldór Halldórsson frá Öskju, Friðrik Kristjánsson og Heiðar B. Jónsson bílstjórar hjá SS.

 nyir_vorubilar