Sláturfélag Suðurlands fékk nýverið afhentar tvær Mercedes-Benz vörubifreiðar frá Bílaumboðinu Öskju. Um er að ræða annars vegar 13 tonna Atego bíl með kassa, kæli og lyftu, ætlaðan í útkeyrslu á vörum innan höfuðborgarsvæðisins, sem leysir af hólmi 6 ára gamla Man bifreið á Fosshálsi.

Hin bifreiðin er 25 tonna Actros með kassa, kæli og brautum í lofti fyrir hangandi kjöt, ætluð í akstur frá sláturhúsinu á Selfossi til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu og afurðaflutninga milli starfsstöðva SS á Suðurlandi. Sá bíll leysir af hólmi tæplega 10 ára gamla Volvo bifreið á Selfossi.

Nýju bílarnir eru báðir vel útbúnir til flutninga á matvælum með kælikössum af fullkomnustu gerð, uppfylla ítrustu gæða- og mengunarstaðla og með sparneytnari vélum en eldri bílar.

Endurnýjun þessara tveggja bíla endurspeglar áherslu SS á að þau tæki sem notuð eru til matvælaflutninga í þágu félagsins séu mikilvægur hlekkur í því að uppfylla markmið félagsins um hámarksgæði og þjónustu.

Eldri bílarnir hafa verið seldir og gekk kaupverðið upp í kaup nýju bílanna.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við afhendingu bílanna eru frá vinstri Páll Halldór Halldórsson frá Öskju, Friðrik Kristjánsson og Heiðar B. Jónsson bílstjórar hjá SS.

 nyir_vorubilar