• Tekjur á fyrri árshelmingi 5.351 mkr. og aukast um 9% milli ára.
• 230 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 160 mkr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 524 mkr. en 471 mkr. árið áður.
• Eigið fé 3.339 mkr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 49%.

Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur SS jan – jún 2013 á PDF. formi

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2013 var 230 mkr.  Á sama tímabili árið áður var 160 mkr. hagnaður.  Eigið fé Sláturfélagsins er 3.339 mkr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.351 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2013, en 4.925 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um 9%.  Aðrar tekjur voru 14 mkr en 23 mkr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 3.080 mkr. en 2.899 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 11%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 12% og afskriftir hækkuðu um tæpt 1%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 380 mkr., en 328 mkr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 524 mkr.  en var 471 mkr. á sama tíma í fyrra.
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 10 mkr. en árið áður um 17 mkr.  Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 105 mkr., en voru 150 mkr., á sama tímabili í fyrra.  Reiknaður tekjuskattur nam 55 mkr., en 36 mkr. árið áður.  Hagnaður af rekstri tímabilsins var 230 mkr. en 160 mkr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 519 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2013, samanborið við 469 mkr. fyrir sama tímabil árið 2012. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní  voru 6.792 mkr. og eiginfjárhlutfall 49%.  Veltufjárhlutfall var 2,8 á fyrri hluta ársins 2013, en 3,2 árið áður.
Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2013 fyrir 183 mkr. en 148 mkr. á sama tímabili árið áður. Seldar voru eignir fyrir 10 mkr. Á fyrri árshelmingi hófust framkvæmdir við stækkun starfstöðvar félagsins á Selfossi en þar er m.a. slátur- og frystihús félagsins.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2013 var í aprílmánuði greiddur 14,5% arður af B-deild stofnsjóðs alls 26 mkr. og reiknaðir 7% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 20 mkr.
Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2013
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX.  Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti.  Ráðgert er að birta afkomu ársins 2013 þann 18. febrúar 2014.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 49% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,8. Langtímatímaskuldir í lok júní 2013 voru 2.018 mkr. og skuldahlutfall því um 2 að teknu tilliti til EBITDA afkomu félagsins. Næsta árs afborganir eru um 88 mkr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma sem tryggir lága árlega greiðslubyrði.
Innanlandssala á kjöti fer hægt vaxandi. Aðstæður á erlendum mörkuðum eru misjafnar fyrir lambakjöt og enn ríkir nokkur óvissa með afsetningu á hluta afurða sem falla til í haust.
Bætt rekstrarskilyrði á síðastliðnum árum, öflug vöruþróun og markaðssókn hafa styrkt afkomu kjötiðnaðar. Staða lykilvörumerkja félagsins í kjötiðnaði er afar sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum.  Gert er ráð fyrir að á síðari árshelmingi hægi á afkomubata kjötiðnaðar einkum vegna hærra innkaupsverðs á aðföngum.
Matvöruhluti innflutningsdeildar stendur vel. Með nýjum viðskiptasamböndum hefur vöruúrval verið aukið til áframhaldandi vaxtar. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði fyrir helstu rekstrarvörur bænda. Sala á Yara áburði til bænda gekk vel á fyrri hluta ársins og sala á dlg kjarnfóðri og öðrum rekstrarvörum eykst stöðugt.  Framkvæmdir við byggingu á nýju vöruhúsi í Þorlákshöfn undir starfsemi búvöruhluta innflutningsdeildar hefjast fljótlega og áætlað að framkvæmdum verði lokið fyrir áramót.
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is