Sauðfjársláturtíð lauk hjá SS á Selfossi síðastliðinn fimmtudag, 8. nóvember, en hún hófst þann 5. september sl.  Áður hafði verið slátrað í sumarslátrun tvo daga í ágúst.

Þegar allt er talið, þjónustuslátrun að vori, sumarslátrun og haustslátrun hefur verið slátrað á Selfossi 95.926 dilkum og 8.380 fullorðnum kindum eða alls 104.306 stk.  Á sama tíma árið 2011 hafði verið slátrað 92.431 dilk og 7.603 fullorðnum kindum eða alls 100.034 stk.  Aukning slátrunar er því u.þ.b. 4% milli ára.  Heimteknar voru 7.040 kindur árið 2012 og 6.432 árið 2011.
 
Meðalþyngd dilka er 16,33 kg. og hefur aldrei verið hærri í 105 ára sögu SS. Til samanburðar var meðalþyngdin 15,72 kg. árið 2011 og hefur því hækkað um ríflega 600 grömm milli ára.   Meðaleinkunn fyrir fitu í ár er 6,67  og fyrir gerð 8,46 en árið 2011 var meðaleinkunn fyrir fitu 7,62 og fyrir gerð 7,57.
 
Þyngsti dilkurinn þetta árið kom frá Eiríki Jónssyni í Gýgjarhólskoti í Bláskógabyggð.  Vóg hann 33,3 kg. og flokkaðist í DU4.  Hann átti einnig næstþyngsta dilkinn, sem vóg 32,9 kg. og flokkaðist í DE3+. Þess má geta að af 10 þyngstu dilkunum voru 7 talsins frá Eiríki. egnov2012

Ráðstöfun kjöts og annara afurða var með hefðbundnum hætti.  Ferskt kjöt hlutað og skorið bæði á Selfossi og á Hvolsvelli, skrokkar frystir í heilu og grófhlutaðir á báðum stöðum. Kjöt flutt út og sett í geymslur á Hvolsvelli, Selfossi og í leigugeymslur til eigin ráðstöfunar eða útflutnings síðar.  Slátur og innmatur fer í slátursölu, til frystingar fyrir kjötvinnslu og til útflutnings. Gærur eru saltaðar á staðnum og fluttar út jafnóðum.

Helstu útflutningsmarkaðir eru í Evrópu, Asíu og Rússlandi.  Vaxandi eftirspurn er erlendis eftir aukaafurðum af ýmsu tagi.  Þannig eru lambatyppi og lungu nú flutt út í fyrsta skipti auk vamba, garna og ýmisskonar fitu og afskurðar.

Það færist í vöxt að bændur taki heim fé til eigin sölu eða verkunar og er áhugaverð viðbót við íslenskan kjötmarkað.  SS leggur þessu verkefni lið með því að hluta kjöt og ganga frá því í vandaðar pakkningar og hefur útbúið sérmerkingar í þessum tilgangi.

Ný tækni var notuð þetta haust í fyrsta skipti, svokölluð  rafmagnsmeyrnun sem bætir meyrni kjöts og gerir hraðari kælingu mögulega. Einnig var tekin í notkun ný skurðar- og pökkunarlína og hún meðal annars notuð til að pakka verðmætum afurðum úr hrygg fyrir lúxusmarkaði í Tokyo og Moskvu.

Mönnun sláturhússins var með ágætum þetta árið alls eru u.þ.b. 140 manns starfandi í stöðinni þegar flest er.  Samstilltur hópur af nokkrum þjóðernum með ólíkan bakgrunn og reynslu.  Fólk sem ýmist er fastafólk eða kemur gagngert til að vinna í sláturtíð ár eftir ár.

SS sækir sauðfjárinnlegg á svæðið frá Öræfum í austri og vestur um í Borgarfjörð, Snæfellsnes og í Dali.  Flutningar eru í höndum verktaka sem hafa langa reynslu af gripaflutningum og hafa á að skipa sérhæfðum tækjum þar sem vel er hugað að aðbúnaði og vellíðan gripanna.

Starfsemi á Selfossi er vaxandi og framundan er frekari úrvinnsla og útflutningur sauðfjárafurða auk stórgripaslátrunar og úrvinnslu stórgripaafurða, en sú starfsemi er starfrækt allt árið um kring.

Á mynd Jónasar Erlendssonar hér að ofan leiðir Einar Guðni Þorsteinsson, kjötmatsmaður hjá SS og bóndi á Ytri-Sólheimum í Mýrdal fjárrekstur úr Hvítmögu afréttarlandi Sólheimabæja yfir Sólheimajökul.