Sumarslátrun sauðfjár hófst í sláturhúsi okkar á Selfossi í gær.  Slátrað var 641 kind og var meðalfallþungi 13,13 kg.  Lömbin komu frá bændum af suðvesturhluta landsins, frá Mýrdal og vestur í Borgarfjörð.

Stærstur hluti kjötsins fer ferskur á innanlandsmarkað og verður til sölu í kjötborðum verslana Nóatúns og Samkaupa.  Neytendur kunna vel að meta nýmetið, enda lambakjöt af nýslátruðu hreint lostæti, hvort sem er á grillið, í ofninn eða í kjarngóða íslenska kjötsúpu.

Áformað er að slátra vikulega, 1-2 daga í viku fram að hefðbundinni sláturtíð.

Birgðir lambakjöts hjá félaginu eru í sögulegu lágmarki og því er nýja kjötið kærkomið.

Á þessari stundu hefur grunnverð haustsins ekki verið ákveðið, en gera má ráð fyrir hækkun frá fyrra ári og bændur munu njóta sambærilegra eða betri kjara en aðrir sláturleyfishafar bjóða.  Þá munu innleggjendur hjá SS njóta þess að fá uppgert hratt og örugglega.  Bændur eru því áhugasamir um að láta lömb til sumarslátrunar þetta árið, enda eru yfirborganir umtalsverðar eins og kynnt var í fréttabréfi sl. vor.