„SS er leiðandi matvælafyrirtæki sem framleiðir og selur matvörur og vörur tengdar matvörum á heildsölustigi. Leiðandi staða skal varin með því að bjóða viðskiptavinum vörur sem skara fram úr á markaði og eru einn af þremur leiðandi valkostum í hverjum flokki. Hagnaður af rekstri og góð ímynd er grundvöllur forystu svo félagið sé hverju sinni „Fremst fyrir bragðið“ í huga viðskiptavina.“

Starfshættir
Í samræmi við tilgang og stefnu félagsins hafa verið skilgreindir lykil starfshættir eða gildi sem félagið leggur til grundvallar í starfsemi og samkeppni á markaði. Tilgangur skilgreindra starfshátta er að varða þá leið sem félagið fer til árangurs og velgengni.
 
Starfsháttunum er skipt í eftirfarandi fimm þætti:

Frumkvæði
Til að halda forystu á markaði þarf frumkvæði til að gera nýja hluti og vera leiðandi. Á markaði látum við hlutina gerast með nýjum vörum, nýrri þjónustu og bjóðum viðskiptavinum okkar verðmæti í viðskiptum sem taka fram því sem keppinautar bjóða. Með þeim hætti einum getum við tryggt stöðu okkar.
Inn á við höfum við frumkvæði til að gera sífellt betur, jafnt stjórnendur sem og annað starfsfólk. Ekkert er gert eingöngu af því að það hafi alltaf verið gert eins áður. Umhverfið breytist í sífellu og við þurfum að breytast með og á undan öðrum. Það eina sem breytist ekki er þörfin á sífelldri endurskoðun og sífelldum breytingum.
Við höfum frumkvæði til að leita nýrra leiða til að auðvelda okkur verkin og skapa aukin verðmæti starfsfólki og fyrirtæki til góða.

Samvinna
Heildin er sterkari en einstaklingarnir. Með því að vinna saman að sameiginlegu markmiði náum við árangri. Fyrirtækið er óslitin keðja þar sem reynir á hvern hlekk. Samvinna deilda og samvinna starfsfólks skapar árangursríkan og skemmtilegan vinnustað. Starfsfólk stefnir fram á við og vilja vaxa í starfi og njóta til þess samvinnu og stuðnings fyrirtækisins.
Í keppni á markaði erum við metin sem heild og það er frammistaða heildarinnar sem skiptir höfuðmáli gagnvart viðskiptavinum.

Gæði
Okkur er treyst til að framleiða og dreifa matvælum til neytenda. Þessu trausti fylgir sú ábyrgð að vanda til verka, standa undir nafni og styðja og styrkja það álit sem við njótum á markaði. Gott mannorð starfsfólks og fyrirtækis er gulls ígildi. Í allri starfsemi höfum við gæði að leiðarljósi með það að markmiði að gera hvern hlut aðeins einu sinni og gera hann rétt.

Þjónusta
Þjónusta snýst um að viðskiptavinir fái vörur með réttum hætti, að samskipti þeirra við félagið séu ánægjuleg og árangursrík og að mætt sé þörfum þeirra innan þeirra marka sem félagið setur sér. Þjónusta lýtur einnig að því að sjá fyrir þarfir viðskiptavina og bjóða þeim með þeim hætti aukin verðmæti í viðskiptum við félagið.
Þjónusta snýr einnig inn á við að eigendum og samstarfsfólki, styrkir samvinnu og gerir kröfu um gagnkvæma virðingu í samskiptum jafnt inn á við sem út á við.

Ráðdeild
Við sýnum ráðdeild í rekstri og bruðlum ekki með fjármuni félagsins. Vinnuumhverfi og búnaður skal uppfylla ströngustu kröfur en ekki vera ofhlaðið eða bera með sér íburð. Samstarfsmenn, eigendur og viðskiptavinir skulu sjá á öllu framferði okkar að vel sé farið með fjármuni. Hagkvæmni og ráðdeild skapa virðingu.