Kaup SS á 67% hlut í Reykjagarði hf.

Samkomulag hefur orðið á milli Búnaðarbanka Íslands hf. (BÍ) og Sláturfélags Suðurlands svf. (SS) um kaup SS á 67% hlut í fyrirtækinu Reykjagarði hf. (RG).
Reykjagarður er stærsti kjúklingaframleiðandi landsins með starfsemi víða um Suður- og Vesturland en meginstarfsemi á Hellu. Á Hellu er RG að byggja nýtt og fullkomið sláturhús og vinnslustöð sem verður tilbúin í lok október næstkomandi.

Velta RG á þessu ári er áætluð um 900 mkr. og starfsmannafjöldi er um 80.

Framkvæmdastjóri RG er Jónatan Smári Svavarsson.

SS hefur kauprétt á 16% hlut í RG til viðbótar. Áætluð hlutdeild SS og RG á heildar kjötmarkaði er um 36%.

Markmið kaupanna er hagræðing í framleiðslu kjöts og unninna kjötvara. Fyrirséð er að neysla fuglakjöts mun aukast mikið á næstu árum og nýtist þekking SS á sviði úrvinnslu vel fyrir RG.

Kjötiðnaðarstöð SS á Hvolsvelli er sú stærsta í landinu. Samvinna við stöð RG á Hellu gerir kleyft að hagræða í innkaupum, vélvæðingu og gæða- og framleiðslustjórnun.
SS og RG verða áfram rekin sem aðskilin og sjálfstæð fyrirtæki.

Með samvinnu er áætlað að rekstrarkostnaður lækki og bæði fyrirtækin verði betur í stakk búin til að framleiða og selja gæða kjötvörur á lægsta mögulega verði og styrkja þar með stöðuna gegn fyrirséðri aukningu á innflutningi kjötvara.

BÍ eignaðist RG með kaupum á Fóðurblöndunni í júní 2001. BÍ hefur annast endurskipulagningu RG og unnið að því undanfarið að selja félagið.

Fjárhagshlið kaupanna er trúnaðarmál.