Landssamband kúabænda (LK) birti á vefsíðu sinni 20. mars s.l. grein um samanburð á kjarnfóðurverði hjá SS og DLG í Danmörku en SS flytur inn kúafóður frá DLG.  Í greininni er vikið að nokkrum atriðum sem þörf er á að skýra betur.

Frávik í efnainnihaldi í kúafóðurblöndum
Þegar SS ákvað að hefja innflutning á kjarnfóðri  2007 var lagt upp með að flytja inn kúablöndur sem hentuðu aðstæðum hér.  Tvær blöndur Malco Lac Græs og Malko Lac III uppfylltu þessi skilyrði en þó með þeim breytingum að auka þurfti  steinefnainnihald þeirra.  Kjarnfóðurblöndurnar sem SS flytur inn eru því  með meira steinefnainnihald en þær sem boðnar eru í Danmörku.  Af þeim sökum er hráefniskostnaður hærri við íslensku blöndurnar.

Verð í Danmörku sem DLG kannast ekki við
SS hefur haft samband við DLG til að staðfesta þau verð sem LK notar  í samanburðinum vegna þess að þau eru umtalsvert lægri en innkaupsverð SS frá DLG og því kæmi það sér vel að njóta þeirra og geta lækkað enn frekar  verð á kúafóðri.  Því miður kannast DLG ekki við samanburðarverð LK og hafði í framhaldi samband við LK til að staðfesta heimildir.  Kom þá í ljóst að þær voru ekki verðskrá DLG heldur áætluð nálgun heimildarmanns LK eftir því sem næst verður komist.

Annar kostnaður en innkaupsverð frá DLG
SS er að flytja inn kúafóðrið laust í sérstökum gámum sem síðan er dælt úr í fóðursílo kaupenda.  Umsýsluferill gámainnflutningsins og kostnaðaruppbygging er því með öðrum hætti en við hefðbundna fóðurframleiðslu og afhendingu beint í fóðurbíl eins og við þekkjum. 

Við gámaflutninginn er að leggjast á kostnaður við fyllingu gámsins hjá DLG sem er meiri en við að setja fóður í hefðbundinn fóðurbíl.  Mest munur þó um að gámafragt er mun dýrari heldur en flutningur á lausu fóðri í heilum skipsförmum.  Sérstaklega er gámafragt nú há vegna veikrar stöðu íslensku krónunnar en meginhluti fragtkostnaðar er bundin erlendri mynt.  Við styrkingu gengis lækkar flutningskostnaður því hraðar við gámainnflutning og vonandi verður það fyrr en seinna. 

Þrátt fyrir að bændur greiði akstur að bæ þá er því miður halli á flutningsliðnum.  Við aukna hlutdeild á markaði nær SS að stytta vegalengdir í útkeyrslu og þannig næst aukin hagkvæmni þegar fram í sækir.  

Auk þess sem að framan greinir er ýmis annar kostnaður sem leggst á eins og fóðureftirlitsgjald, sölukostnaður og fl.  Við allan verðsamanburð getur því verið gott hafa framgreint í huga. Verðlagning SS á kúafóðri byggir einfaldlega á því eins og öðrum rekstri að þessi þáttur í starfsemi félagsins standi undir sér.  Við munum sem fyrr leita allra leiða til að auka hagkvæmni innflutnings á kjarnfóðri með góðum innkaupsverðum og með því að halda öllum kostnaði í lágmarki. 

Nautaeldiskögglar ekki fluttir inn í lausu
LK er jafnframt með verðsamanburð á nautaeldiskögglum.  Við höfum því miður ekki séð þetta hagstæða verð á nautaeldiskögglum sem LK kynnir en munum leita eftir því við DLG.

SS er að selja lítið magn af nautaeldiskögglum.  Nautaeldiskögglar hafa ekki verið fluttir inn í lausu sem veldur hærri kostnaði og óhagstæðu verði en gengið er út frá því að viðmiðunarverð LK sé verð í lausu. Talsvert  er síðan nauteldiskögglar voru fluttir inn síðast.  Reynsla þeirra bænda sem notað hafa nautaeldiskögglana er hins vegar afar góð.

Hvað hefur breyst eftir að SS kom inn á kjarnfóðurmarkað?
Margt hefur breyst síðan SS kom inn á kjarnfóðurmarkaðinn.  Við það hefur orðið aukið verðaðhald en SS hélt til að mynda sama verði á kúafóðri frá því í maí 2008 fram í mars 2009 þegar verð var lækkað um 7%.  Þetta var gert þrátt fyrir gengisfall krónu en á móti kom í haust s.l. verðlækkun á hráefnum.  Við styrkingu krónu eftir áramót lækkaði síðan SS verð um 7%.

Í frétt LK á vefsíðu skorar LK á SS að ,,standa við stóru orðin“ með vísun í frétt á mbl.is frá 27. janúar  2007 um „að bjóða bændum uppá 10-20% lægra verð á kjarnfóðri en þeir áttu kost á.“ 
Það hefur líklega farið framhjá greinarhöfundi LK að um leið og SS boðaði komu sýna inn á kjarnfóðurmarkaðinn þá bauðst bændum strax  um 15% verðlækkun í nýjum kjarnfóðurblöndum innlendu framleiðendanna. 

Það er hins vegar ljóst að samkeppnisaðilar SS á fóðurmarkaði  gera sér fulla grein fyrir þeim breytingum sem orðnar eru á innlendum kjarnfóðurmarkaði.  Í fréttatilkynningu Fóðurblöndunnar frá 22. janúar s.l. kemur eftirfarandi m.a. fram:

“Fóðurblandan væntir þess að Samkeppniseftirlitið skoði sérstaklega í rannsókn sinni innflutning og sölu Sláturfélags Suðurlands svf. á fóðri frá DLG, sem er stærsti framleiðandi á fóðri í Danmörku og markaðsráðandi þar, en allt bendir til að annað hvort hinn erlendi framleiðandi eða umboðsmaður hans hérlendis niðurgreiði vöruna, til hagsbóta fyrir kaupendur, en slík markaðssetning grefur undan eðlilegri samkeppni.”

SS vill þó árétta til að fyrirbyggja misskilning að það sem kemur fram í framangreindri fréttatilkynningu samkeppnisaðila á ekki við nein rök að styðjast. 

SS vill jafnframt hvetja LK til að halda áfram málefnalegum umræðum um öll þau málefni sem eru bændum til hagsbóta.