Afkoma SS var góð á árinu 2021 en móðurfélagið skilaði sinni bestu afkomu í 115 ára sögu félagsins. Starfsmönnum, bændum og viðskiptavinum er þakkaður góður árangur. Fjárhagsstaða SS er góð, en stefna félagsins er að miðla hluta af afkomu til félagsmanna. Í janúar voru greiddar 84 m.kr. til félagsmanna, sem 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2021.

Matarsóun og umhverfismál eru í forgangi hjá félaginu. Unnið er að því í samstarfi við verslanir og aðra viðskiptavini að minnka vöruskil, en SS endurgreiddi verslunum 160 m.kr. vegna vöruskila á síðasta ári.  Breytt viðhorf neytenda og aukin umhverfisvitund mun leiða til jákvæðra breytinga í þessum efnum.

SS er að ná góðum árangri í sorpflokkun  en í stefnu félagsins kemur fram mikil áhersla á umhverfismál. Miklar framfarir voru í matvælaiðnaði í þessum efnum á síðasta ári.

Afurðaverð nautgripa hækkaði 28. febrúar. Betri flokkar voru hækkaðir en slökustu flokkarnir undir 200 kg lækkaðir.  Þetta er í takt við verðbreytingu í lok ágúst. SS er að greiða samkeppnishæft verð fyrir nautgripi, auk þess ein afurðastöðva, að greiða 5% viðbót á allt nautgripainnlegg ársins 2021.

Áburður hefur hækkað gríðarlega frá fyrra ári. Ástandið í Úkraníu er að auka enn á óvissuna. SS hefur lagt sig fram um að lágmarka eins og hægt er verð á áburði. Verð á Yara einkorna áburði er í mörgum tilvikum lægra en á fjölkorna áburði. SS hefur auk þess vegna styrkingar krónu lækkað áburðarverð um rúmlega 5% frá fyrri verðskrá. Vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir í Úkraníu hefur SS nú þegar hafið flutning á áburði til landsins en fyrsta áburðarskipið losaði áburð í vörugeymslu félagsins í Þorlákshöfn í síðustu viku.  Búið er að loka samningum um fjóra skipsfarma í mars og byrjun apríl.

Þeir fjölmörgu bændur sem nota Dolemit Mg-kalk eru farnir að sjá verulegan árangur og ávinning með betri nýtingu á áburði og bættu gróffóðri. Jarðvegssýni eru farin að sýna mjög jákvæða þróun en á árinu 2021 voru 54% jarðvegssýna með pH gildi yfir 5,5 en einungis 23% árið áður. Kalk hefur ekki hækkað í verði eins og áburður og því mikill hagur að kalka til að draga úr áburðarnotkun og lækka kostnað. Dolemit Mg-kalk er í boði frá helstu höfnum landsins, og verktakar til staðar, en í vor verður þjónustan aukin enn frekar þar sem kalkdreifurm verður fjölgað um tvo.

SS er eitt elsta fyrirtæki landsins, stofnað 28. janúar árið 1907.  Í fórum félagsins eru margir merkilegir hlutir en nýlega kom í ljós 5 punda lóð með merki Kristjáns 5. Danakonungs.

Í fréttabréfi 2021 – 2. tbl. var reifuð sú hugmynd að greiða álag á þyngri dilka. Farið er yfir helstu forsendur sem styðja tillögu að slíkri útfærslu.

Farið er yfir stöðuna á kjötmarkaði og innflutning til landsins á kjöti á árinu 2021. Oft er því haldið fram að innflutningurinn sé óverulegur en svo er í raun ekki.

SS fékk nýlega afhenta glæsilega Scania vörubifreið sem nýtist til flutninga á búvörum til bænda og tilfallandi flutninga á kæli og frystivörum. Komið er inn á vörunýjungar auk þess sem farið er yfir langan og farsælan starfsferil Níels Hjaltasonar deildarstjóra gæðaeftirlits.

Fréttabréf SS 1. tbl. 2022 á pdf formi.