Hangikjötið frá SS fær jafnan góða dóma.Gamlar aðferðir við vinnsluna. Reykt í tvo sólarhringa.
Skemmtileg törn fyrir jólin, segir Viktor Steingrímsson.

viktor2

Hefur skorað hátt

Hangikjötið frá SS hefur á undanförnum árum skorað hátt meðal matgæðinga sem fengnir hafa verið til að leggja dóm á kjöt og krásir. Því er mikið lagt undir til að halda sessi. Kjötvinnsla SS á Hvolsvelli er ein hin stærsta á landinu og starfsemin umfangsmikil. Eðli málsins samkvæmt tekur hún að verulegu leyti mið af neysluvenjum landsins á hverjum tíma. Pylsur og grillkjöt kemur sterkt inn yfir sumarið og þegar líða fer á haust byrjar jólatörnin.

Frampartar og læri

„Við byrjum í jólavinnslunni venjulega viku af nóvember. Í kjötskurðinum standa tíu til fimmtán manns með hnífinn við borðið og úrbeina dilkakjötið, sem skila okkur frampörtum og lærum sem fara svo í reyk. Miðum þá við að hvert stykki sé einhvers staðar á bilinu 1,2 til 1,4 kg og þannig í lögun að neytendum líki,“ segir Viktor og heldur áfram: „Já, þetta eru yfirleitt dilkar sem við tökum beint úr frosti og vinnum. Þó gerist stundum að dilkarnir séu úrbeinaðir strax að hausti eftir sláturtíð, sem breytir svo sem engu um gæðin. Allt okkar hangikjöt er úrbeinað fyrir reykingu og ekki fryst eftir reyk.“

Lurkar og tað

Birkið skapar bragðið. Það er galdurinn í hangikjötsvinnslu SS en þar eru notaðir íslenskir birkilurkar frá Skógræktinni. Birki og tað úr fjárhúsum sunnlenskra bænda er sett í ofninn og reykt í tvo sólarhringa eða svo og þá er kjötið orðið vel reykt og tilbúið.
„Þetta er allt gert samkvæmt hefðum sem ná langt aftur í tímann. Ég hef unnið hér í bráðum tuttugu ár og við höfum ekkert breytt aðferðinni,“ segir Viktor sem með sínu fólki framleiðir tugi tonna af hangikjöti fyrir þessi jól. „Vinnslan fyrir jólin, þar með talið á hangikjötinu, er törn. Raunar einn skemmtilegasti tími ársins hér í kjötvinnslunni. Og við leggjum mikinn metnað í þessa framleiðslu, sérveljum kjötið, höfum salt og önnur hjálparefni í hárréttum hlutföllum og fylgjum mjög nákvæmum verklýsingum. Í raun er hangikjötsvinnslan ákveðið stolt okkar – enda er þessi gæðavara eitt af því sem fólk tengir SS sterkt og sérstaklega við,“ segir Viktor Steingrímsson að síðustu.


sbs@mbl.is

oddurhttps://www.ss.is_og_viktor
Á myndinni er Oddur verksmiðjustjóri til vinstri og Viktor til hægri.