Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Ársreikningur 2020 á pdf. formi

• Rekstrartekjur ársins 11.352 m.kr. en 12.069 m.kr. árið 2019
• 259 m.kr. tap á árinu á móti 78 m.kr. hagnaði árið áður
• EBITDA afkoma var 363 m.kr. en 727 m.kr. árið 2019
• Eigið fé 5.046 m.kr. og eiginfjárhlutfall 50%

Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélaga þess, Reykjagarðs hf. og Hollt og gott ehf.

Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2020 var 259 m.kr. Árið áður var 78 m.kr. hagnaður. COVID-19 hafði víðtæk neikvæð áhrif á afkomu félagsins á árinu með samdrætti í tekjum og auknum kostnaði. Eigið fé er 5.046 m.kr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 50%.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 11.352 m.kr. árið 2020, en 12.069 m.kr. árið áður og lækka því um 6%. Aðrar tekjur voru 79 m.kr. en 99 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 5.335 m.kr. en 5.651 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 3.573 m.kr. og lækkaði um 1%, annar rekstrarkostnaður var 2.159 m.kr. og lækkaði um tæpt 1%. Afskriftir hækkuðu um 2%. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 123 m.kr., en 253 m.kr. rekstrarhagnaður árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 363 m.kr. en var 727 m.kr. árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 208 m.kr., en voru 196 m.kr. árið áður. Gengishagnaður var 7 m.kr. samanborið við 17 m.kr. gengistap árið áður.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 4 m.kr.

Reiknaður tekjufærður tekjuskattur er 68 m.kr. en gjaldfærður 8 m.kr. árið áður. Tap af rekstri ársins var 259 m.kr. en 78 m.kr. hagnaður árið áður.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 361 m.kr. árið 2020 samanborið við 717 m.kr. árið 2019. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2020 voru 10.085 m.kr. og eiginfjárhlutfall 50%. Veltufjárhlutfall var 1,8 árið 2020, en 2,3 árið áður.

Fjárfest var á árinu fyrir 419 m.kr. í varanlegum rekstrarfjármunum en 359 m.kr. árið áður. Seldar voru eignir fyrir 7 m.kr. Á árinu var fjárfest í fasteignum fyrir 100 m.kr., vélum og tækjabúnaði fyrir 306 m.kr. og bifreiðum 13 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í júní 2020 var í júnímánuði greiddur 12,66% arður af B-deild stofnsjóðs alls 23 m.kr. og reiknaðir 3% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 10 m.kr.

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu fyrri árshelmings ársins 2021 þann 26. ágúst 2021.

Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 19. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að ekki verði reiknaðir vextir af höfuðstól stofnsjóðs A-deildar og ekki verði greiddur arður af stofnsjóði B-deildar.

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 50% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 1,8. Langtímatímaskuldir í lok árs voru 2.039 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 102 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma. Aðgangur að lausu fé er jafnframt vel tryggður með 625 m.kr. lánalínu.

Afkoma Sláturfélagsins versnaði milli ára vegna tekjusamdráttar og aukins kostnaðar m.a. vegna smitvarna sem grípa þurfti til vegna COVID-19. Gert er ráð fyrir að neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins muni gæta áfram á árinu 2021.

Framleiðsla kjöts á landsvísu dróst saman um 2% á árinu 2020 og sala um 5%. Ekki er gert ráð fyrir að kjötmarkaðurinn komist í betra jafnvægi fyrr en neikvæðum áhrifum af COVID-19 líkur með auknum fjölda ferðamanna til landsins. Áfram er gert ráð fyrir neikvæðum áhrifum af innflutningi kjötvara á afkomu afurðahluta samstæðunnar.

Kjötiðnaður félagsins stendur traustum fótum þrátt fyrir neikvæð áhrif af COVID-19. Á árinu var fjárfest í nýjum vélbúnaði til að auka enn frekar hagkvæmni matvælaframleiðslunnar. Ímynd félagsins á markaði er góð og staða lykilvörumerkja sterk sem treystir grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði.

Innflutningshluti félagsins gekk vel á árinu. Góð tækifæri eru til frekari vaxtar en félagið er í samstarfi við leiðandi aðila á sínu sviði.

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 2021 19. mars 2021
Janúar – júní 2021 uppgjör 26. ágúst 2021
Júlí – desember 2021 uppgjör 17. febrúar 2022
Aðalfundur 2022 18. mars 2022

Frekari upplýsingar veitir:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is