• Tekjur á fyrri árshelmingi 4.925 mkr. og aukast um 12% milli ára.
• 160 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins.
• EBITDA afkoma var 471 mkr. en 468 mkr. árið áður.
• Eigið fé 2.831 mkr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 47%.
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2012 var 160 mkr.  Á sama tímabili árið áður var 921 mkr. hagnaður en á fyrra árshelmingi 2011 voru gengistryggð lán félagsins leiðrétt. Eigið fé Sláturfélagsins er 2.831 mkr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.925 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2012, en 4.397 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um 12%.  Aðrar tekjur voru 23 mkr en 31 mkr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 2.899 mkr. en 2.516 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um tæp 13%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um rúm 5% og afskriftir lækkuðu um tæp 2%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 328 mkr., en 322 mkr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 471 mkr.  en var 468 mkr. á sama tíma í fyrra.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 150 mkr., en fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru 804 mkr., á sama tímabili í fyrra. Niðurfelling gengistaps lána og vaxta nam 1.027 mkr. á árinu 2011 og var leiðréttingin tekjufærð meðal fjármagnsliða og skattaáhrif 205 mkr. færð til gjalda meðal skatta í rekstrarreikningi.  Gengishagnaður nam 6 mkr. samanborið við 133 mkr. gengistap árið áður.  Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um tæpar 17 mkr. en árið áður um 20 mkr. Reiknaður tekjuskattur nam tæpum 36 mkr., en 225 mkr. árið áður.  Hagnaður af rekstri tímabilsins var 160 mkr. en 921 mkr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 469 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2012, samanborið við 467 mkr. fyrir sama tímabil árið 2011. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní  voru 6.064 mkr. og eiginfjárhlutfall 47%.  Veltufjárhlutfall var 3,2 á fyrri hluta ársins 2012, en 2,4 árið áður.
Sláturfélagið hefur samþykkt kauptilboð í eignarhlut sinn í Ísfugli ehf.  Gangi salan á eignarhlutnum eftir mun hún hafa um 50 mkr. jákvæð áhrif á rekstur félagsins á síðari árshelmingi 2012.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2012 var í aprílmánuði greiddur 15,2% arður af B-deild stofnsjóðs alls 27 mkr. og reiknaðir 15,2% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 38 mkr.
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX.  Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti.  Ráðgert er að birta afkomu ársins 2012 þann 19. febrúar 2013.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 47% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 3,2. Heildarskuldir samstæðunnar hafa lækkað um tæpa 2 milljarða króna frá miðju ári 2009. Eftir endurfjármögnun og uppgreiðslu lána eru lán samstæðunnar nú til mjög langs tíma sem tryggir lága árlega greiðslubyrði.
Tæplega 3% söluaukning var í innanlandssölu á kjöti frá fyrra ári sem eru jákvæð umskipti eftir erfið ár þar á undan. Útflutningshorfur á lambakjöti eru hins vegar mun verri fyrir haustið en á sama tíma í fyrra. Bæði kemur til verðlækkun og sölutregða vegna erfiðleika í Evrópu. Af þessum sökum er gert ráð fyrir neikvæðum horfum á rekstur afurðahluta félagsins á síðari árshelmingi.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi bata í rekstri kjötiðnaðar á árinu 2012 en markviss vöruþróun, markaðssókn og aðhald í rekstri eru farin að skila sér. Styrking krónunnar hefur einnig haft jákvæð áhrif á erlend innkaup á rekstrarvörum.
Matvöruhluti innflutningsdeildar stendur ágætlega. Með nýjum viðskiptasamböndum hefur vöruúrval verið aukið til áframhaldandi sóknar. Búvöruhluti innflutningsdeildar stendur vel en sala á Yara áburði til bænda jókst umtalsvert milli ára.
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is