Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali (76 kb)

Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2004 var 97,6 milljónir, en 2,2 milljón króna hagnaður var af rekstri á öðrum ársfjórðungi. Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf., dótturfélagi Sláturfélagsins, SS Eignum ehf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. Samanburðarfjárhæðir eiga eingöngu við rekstur Sláturfélags Suðurlands en á sama tímabili árið áður var 59,9 milljón króna tap hjá því. Verri afkoma skýrist fyrst og fremst vegna afkomu dótturfélaga sem nú eru hluti af samstæðuuppgjöri. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.074 milljónir og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 29%. Lækkun eiginfjárhlutfalls samstæðu milli ára skýrist af innkomu dótturfélaga í uppgjörið.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 2.052 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2004, en 1.567 milljónir á sama tíma árið áður. Velta samstæðunnar jókst því um 31%, og er aukningin að mestu til kominn vegna innkomu dótturfélaga í samstæðuuppgjörið.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 1.995 milljónum á fyrri hluta ársins 2004 samanborið við 1.510 milljónir árið áður og jukust um rúm 32%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 118 milljónir og aukast um 55%. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 61 milljón, en 19 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 79 milljónir, en 12 milljónir árið áður. Breyting milli ára skýrist fyrst og fremst af innkomu dótturfélaga í uppgjörið. Seld var hlutabréfaeign í Íslenskum Markaði hf. og nam söluhagnaður vegna þess 44 milljónum króna. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um rúmar 3 milljónir en árið áður um rúmar 27 milljónir. Tap af rekstri tímabilsins var 97,6 milljónir en 59,9 milljónir árið áður.

Veltufé frá rekstri var 9 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2004, samanborið við 42 milljónir frá rekstri fyrir sama tímabil árið 2003.

Í lok júní 2004 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 3.702 milljónir og höfðu hækkað um 857 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 620 milljónir, langtímaskuldir 2.008 milljónir og eigið fé 1.074 milljónir. Veltufjárhlutfall var 1,9 í lok júní 2004, en 1,6 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 78 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins. Keypt voru hlutabréf í Hollu og Góðu ehf. fyrir 25 milljónir og seld hlutabréf fyrir 73 milljónir.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Árshlutareikningurinn er nú samstæða Sláturfélags Suðurlands svf. og gerður samkvæmt almennum reikningsskilaaðferðum.Horfur
Afkoma félagsins á fyrri árshelmingi ársins 2004 var óviðunandi og einkenndist einkum af slakri afkomu dótturfélaga.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár.

Kjötmarkaðurinn er nú farinn að færast hægt í átt að auknu jafnvægi sem á að leiða til betri afkomu í rekstri félagsins á síðari árshelmingi.


Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000

Reykjavík, 26. ágúst 2004
Sláturfélag Suðurlands svf.