Afgreiðsludeild SS var flutt frá Fosshálsi á Hvolsvöll um helgina og hófst starfsemin í dag.  Verkefni deildarinnar felast í að taka til pantanir frá viðskiptavinum, pakka þeim, merkja og gera klárt í flutning. 

Verktaki á okkar vegum flytur svo vörurnar til Flytjanda í Reykjavík, sem annast dreifingu til viðskiptavina okkar um allt land.

Deildin hefur aðstöðu í 450 m2 nýbyggingu auk hluta af eldra húsnæði sem tekið var í gegn og endurbætt.

Deildinni fylgja 14 starfsmenn úr Reykjavík, sem setjast munu að á Hvolsvelli og nágrenni og verður heildarfjöldi starfsmanna á Hvolsvelli 160-170 manns eftir breytinguna.

Flest starfsfólkið flutti heimili sín um helgina og varð það vaskur og jákvæður hópur starfsmanna sem hóf störf í nýju umhverfi í gærmorgun. 

Húsnæðið var hannað af okkar tæknideild í samráði við Verkfræðistofuna Feril og verktaka.  Fyrsta skóflustungan var tekin 2. júní sl. og hefur framkvæmdum miðað hratt hjá vöskum hópi iðnaðarmanna úr röðum starfsmanna SS og verktaka.

Helstu verktakar:   
   Smíðandi ehf.
   Frostmark ehf.
   Gólflagnir ehf.
   Þormar Andrésson
   Rafmagnsverkstæði Ragnars ehf.
   Vélgrafan ehf.
   Vélsmiðja Suðurlands ehf.

Flutningur deildarinnar er stór áfangi í sögu og framtíð Sláturfélagsins, sem skila mun mikilli hagræðingu og störfum heim í hérað.

Í tilefni dagsins var Íslenski fáninn við hún og boðið upp á rjómatertu með kaffinu.