Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands var haldinn föstudaginn 2. apríl síðastliðinn í félagsheimilinu Þingborg. Mættir voru 91 af 94 fulltrúum skv. 16.gr. samþykkta félagsins.

Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að ekki verði greiddur arður af nafnverði hluta í B-deild stofnsjóðs né að reiknaðir verði vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs.

Páll Lýðsson stjórnarformaður félagsins gaf ekki kost á sér eftir 21 árs stjórnarsetu þar af 17 ár sem stjórnarformaður. Voru honum þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins.

Aðalsteinn Guðmundsson, Húsatóftum var kosin í aðalstjórn, en hann var áður í varastjórn. Nýr í varastjórn var kosinn Björn Harðarson, Holti. Félagskjörnir skoðunarmenn og löggiltir endurskoðendur eru þeir sömu.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi laun til stjórnar og skoðunarmanna :

Stjórnarformaður kr. 552.000,- á ári.
Meðstjórnendur kr. 368.000,- á ári.
Skoðunarmenn kr. 96.000,- á ári.

Tap Sláturfélags Suðurlands á árinu 2003 var 37,5 milljónir, en á sama tímabili árið áður var 19,5 milljón króna hagnaður. Afkoma fyrir fjármagnsliði versnar um 11 milljónir, en aukin fjármagnsgjöld og tap af rekstri hlutdeildarfélaga leiða til 57 milljón króna lakari afkomu milli ára. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er áfram góð með eigið fé tæpar tólfhundruð milljónir og 42% eiginfjárhlutfall.

Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var Jónas Jónsson, Kálfholti kjörinn formaður, Hallfreður Vilhjálmsson, Kambshóli varaformaður og Sigurlaug Jónsdóttir, Hraunkoti, ritari.