Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands var haldinn föstudaginn 5. apríl síðastliðinn í félagsheimilinu Þingborg. Mættir voru 90 af 92 fulltrúum skv. 16.gr. samþykkta félagsins.

Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að ekki verði greiddur arður af nafnverði hluta í B-deild stofnsjóðs né að reiknaðir verði vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs.

Sigulaug Jónsdóttir, Hraunkoti var kosin í aðalstjórn, en hún var áður í varastjórn. Sigurlaug kemur í stað Lárusar Siggeirssonar, Kirkjubæ II. Nýr í varastjórn var kosinn Ólafur Þorsteinn Gunnarsson, Giljum I. Félagskjörnir skoðunarmenn og löggiltir endurskoðendur eru þeir sömu.

Rekstrartap Sláturfélags Suðurlands á árinu 2001 var 59 milljónir króna, en 91 milljón króna hagnaður var á árinu áður. Lakari afkoma stafar af hækkun fjármagnsgjalda, lægri framlegð af vörusölu, hækkun launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar milli ára. Rekstrarárið einkenndist af mikilli samkeppni sem leiddi til fækkunar aðila í slátrun og í kjötiðnaði en afkoma beggja greina var óviðunandi á árinu. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er þó áfram traust með eigið fé tæpar 1.185 milljónir og 41% eiginfjárhlutfall.