6. KAFLI.

Stjórn félagsins.

27. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm aðalmönnum og fimm varamönnum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi úr hópi félagsmanna til eins árs í senn. Í aðalstjórn skal hlutfall hvors kyns fyrir sig ekki vera lægra en 40%.
 
Stjórn skal auglýsa með opinberum hætti eftir framboðum til stjórnar og varastjórnar með lok framboðsfrests þremur vikum fyrir félagsfund þar sem stjórnarkjör fer fram. Stjórn skal tilkynna aðalfundarfulltrúum með auglýsingu eða dreifibréfi (rafpósti) um hverjir eru frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar ekki síðar en tveimur vikum fyrir félagsfund þar sem stjórnarkjörið fer fram. Á félagsfundi þar sem stjórnarkjör er á dagskrá, er ávallt heimilt að tilnefna fólk til stjórnarstarfa sem ekki er á auglýstum framboðslista allt þar til sjálf kosningin fer fram.
 
Allir aðalstjórnarmenn skulu kosnir á sama tíma og varastjórnarmenn með sama hætti eftir að kjöri aðalstjórnar er lokið. Hver fulltrúi á félagsfundi þar sem stjórnarkjör fer fram getur greitt einum til fimm frambjóðendum til stjórnar atkvæði sitt. Þeir stjórnarmenn sem flest atkvæði hljóta skulu réttkjörnir til stjórnarstarfa næsta kjörtímabil með þeirri undantekningu þó, að skili kosningin ekki réttum hlutföllum hvors kyns fyrir sig í aðalstjórn til samræmis við ákvæði 1. mgr., þá skulu atkvæðaflestu frambjóðendur til aðalstjórnar af gagnstæðu kyni sem hallar á við stjórnarkjörið, taka sæti í stjórn, einn eða tveir, eins og nauðsynlegt er til að lögmætu hlutfalli milli kynjanna verði náð, og þar með víkja þeim frambjóðendum til aðalstjórnar af gagnstæðu kyni sem þó hafa hlotið fleiri atkvæði við stjórnarkjörið.

Ef aðalmaður deyr, gengur úr félaginu eða víkur úr stjórninni á löglegan hátt, áður en kjörtíminn er liðinn, tekur sá varamaður sæti til fulls í hans stað sem flest atkvæði fékk í kjöri varastjórnar. Enginn félagsmaður getur skorast undan kosningu í stjórn félagsins, nema um jafnmörg ár og hann hefur næst áður verið í stjórninni og með samþykki hans má endurkjósa hann í stjórn. 

Félagsstjórnin velur árlega formann og varaformann úr sínum flokki.

                                                                                                                                     28. gr.

Félagsstjórnin ræður öllum félagsmálum milli félagsfunda samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Félagsstjórnin skal gæta þess að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og skal hún jafnframt gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi félagsins og meðferð fjármuna félagsins. Stjórnin hefur heimild til að taka lán fyrir félagið og getur skuldbundið það og eignir þess, þar á meðal veðsett þær með ályktunum sínum og samþykktum.

Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum. Ef atkvæði eru jöfn, telst meiri hluti þeim megin sem atkvæði formanns er. Stjórnarfundir eru lögmætir, ef þrír stjórnendur eru mættir. Stjórnin skal bóka stutta skýrslu um það, sem gerist á stjórnarfundum og staðfestir hún það með undirskrift mættra stjórnenda.

Undirskrift þriggja stjórnenda er skuldbindandi fyrir félagið. Stjórnin heldur fundi, þegar formanni þykir þurfa en auk þess er formanni skylt að boða til fundar, ef meðstjórnandi krefst þess, endurskoðandi eða skoðunarmenn.

Stjórnendur bera ábyrgð fyrir aðalfundi einn fyrir alla og allir fyrir einn, nema sá er látið hefur bóka ágreiningsatkvæði í gerðabók félagsins.

29. gr.

Stjórn félagsins ræður forstjóra fyrir félagið og gerir við hann skriflegan samning, sem ákveður starfssvið hans og launakjör og annað, er þurfa þykir. Forstjóri annast daglegan rekstur félagsins í samræmi við stefnu og fyrirmæli félagsstjórnarinnar og félagsfundar. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur forstjóri aðeins gert með samþykki stjórnarinnar. Þoli slíkar ráðstafanir ekki bið, án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins, er honum heimilt að grípa til þeirra í samráði við stjórnarformann enda tilkynni hann stjórninni það án tafar. Forstjóri ræður alla aðra starfsmenn félagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Forstjóri skal þó hafa samráð við stjórn félagsins um ráðningu starfsmanna í stjórnunarstöður. Þá skal forstjóri annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

Forstjóri á sæti á fundum félagsstjórnarinnar. Forstjóra ber að veita stjórninni, endurskoðanda og skoðunarmönnum allar þær upplýsingar um hag félagsins og starfsemi sem þeir óska.

Forstjóri getur ráðstafað lausafé félagsins en aðeins félagsstjórnin getur samþykkt kaup, eða veðsetningu fasteigna.
Forstjóri skal jafnan hafa prókúruumboð, sem stjórn félagsins veitir honum.