SS greiðir 2% viðbót á afurðaverð 2018

SS greiðir 2% viðbót á andvirði afurðainnleggs 2018 til bænda 8. mars 2019. Í heild nemur viðbótin með virðisaukaskatti 40,9 milljónir króna.

Afkoma SS var ágæt á árinu 2018. Í samræmi við stefnu félagsins um að tengja saman ávinning bænda af góðum hag SS er með þessum hætti miðlað hluta af hagnaði félagsins til innleggjenda. SS sýnir í verki samvinnuhugsjónina með þessum hætti og leggur áherslu á mikilvægi þess að bændur beini viðskiptum til félagsins til að styrkja áfram grundvöll fyrir því að félagið geti greitt viðbót á afurðaverð.

Dagatal 2019

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 22. mars 2019 á Goðalandi, Fljótshlíð og hefst kl. 15:00.

Birtingaráætlun:
• Jan – júní 2019 uppgjör, þann 22. ágúst 2019
• Júl – des 2019 uppgjör, þann 20. febrúar 2020

Jafnframt er fyrirhugað að halda aðalfund vegna ársins 2019, föstudaginn 20. mars 2020.

Dagskrá aðalfundar 22. mars 2019

Auglýsing aðalfundar SS

Dagskrá og tillögur fyrir aðalfund á pdf. formi

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands svf. verður haldinn föstudaginn 22. mars 2019 á Goðalandi Fljótshlíð og hefst kl. 15:00.

Dagskrá:

1. Setning aðalfundar, kosning starfsmanna fundarins og könnun á mætingu fulltrúa.
2. Skýrsla stjórnar félagsins.
3. Starfsemi félagsins á liðnu ári.
4. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skýrður.
5. Skýrsla skoðunarmanna.
6. Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.
7. Umræður um skýrslu stjórnar, skýrslu um starfsemi félagsins, ársreikning og tillögu um vexti og arð af stofnsjóði.
8. Afgreiðsla ársreiknings og tillagna um vexti og arð af stofnsjóði.
9. Kosin stjórn félagsins.
10. Kosning endurskoðenda og skoðunarmanna.
11. Ákvörðun um þóknun stjórnar, skoðunarmanna og greiðslur til fulltrúa.
12. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál, löglega upp borin.

Tillögur frá félagsaðilum sem bera á fram á aðalfundi þurfa að vera komnar skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Framboð til stjórnar og varastjórnar skal hafa borist skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund í samræmi við 2. mgr. 27. gr. samþykkta félagsins.

Tillögur:

Liður 6 í dagskrá: Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að greiddur verði 13,26% arður af B-deild stofnsjóðs þar af er verðbótaþáttur 3,26% skv. 1. mgr. 14. gr. samþykkta félagsins, alls kr. 23.877.857,- eða 0,13 kr. á hvern útgefin hlut. Jafnframt að reiknaðir verði 5% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls kr. 17.672.512,- Arðleysisdagur er 25. mars og arðréttindadagur er 26. mars. Greiðsludagur arðs er 11. apríl n.k.

Reykjavík, 21. febrúar 2019.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.

Afkoma ársins 2018

Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Ársreikningur 2018 á pdf. formi

• Rekstrartekjur ársins 11.571 m.kr. en 11.741 m.kr. árið 2017
• 179 m.kr. hagnaður á árinu á móti 160 m.kr. árið áður
• EBITDA afkoma var 790 m.kr. en 704 m.kr. árið 2017
• Eigið fé 5.329 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57%

Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélaga þess, Reykjagarðs hf. og Hollt og gott ehf.

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2018 var 179 m.kr. skv. rekstarreikningi. Árið áður var 160 m.kr. hagnaður. Eigið fé er 5.329 m.kr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 57%.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 11.571 m.kr. árið 2018, en 11.741 m.kr. árið áður og lækka því um 1%. Aðrar tekjur voru 151 m.kr. en 53 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 5.361 m.kr. en 5.825 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 3.448 m.kr. og hækkaði um rúm 6%, annar rekstrarkostnaður var 2.123 m.kr. og hækkaði um tæp 5%. Afskriftir hækkuðu um 8%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 360 m.kr., en 304 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 790 m.kr. en var 704 m.kr. árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 135 m.kr., en voru 109 m.kr. árið áður. Gengishagnaður var 3 m.kr. samanborið við 17 m.kr. gengistap árið áður.

Reiknaður gjaldfærður tekjuskattur er 46 m.kr. en 36 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri ársins var 179 m.kr. en 160 m.kr. árið áður.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 787 m.kr. árið 2018 samanborið við 691 m.kr. árið 2017. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2018 voru 9.282 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57%. Veltufjárhlutfall var 2,1 árið 2018, en 2,2 árið áður.

Fjárfest var á árinu fyrir 1.057 m.kr. í varanlegum rekstrarfjármunum en 948 m.kr. árið áður. Seldar voru eignir fyrir 16 m.kr. Á árinu var fjárfest í fasteignum fyrir 477 m.kr., vélum og tækjabúnaði fyrir 553 m.kr. og bifreiðum 27 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2018 var í aprílmánuði greiddur 11,73% arður af B-deild stofnsjóðs alls 21 m.kr. og reiknaðir 4% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 14 m.kr.

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu fyrri árshelmings ársins 2019 þann 22. ágúst 2019.

 

Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 22. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 13,26% arður af B-deild stofnsjóðs, þar af verðbótarþáttur 3,26%, alls 23,9 m.kr. eða 0,13 kr. á hvern útgefin hlut og reiknaðir 5% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 17,7 m.kr.

 

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 57% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,1. Langtímatímaskuldir í lok árs voru 1.955 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 86 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma.

Afkoma afurðahluta félagsins batnaði milli ára en veiking krónu á síðari árshelmingi hafði jákvæð áhrif á útflutningstekjur sem og hærra verð á erlendum mörkuðum. Gert er ráð fyrir áframhaldandi neikvæðum áhrifum af nýjum EB tollasamningi, sérstaklega vegna opnunar fyrir ferskt erlent kjöt. Jákvætt er hins vegar að kindakjötsframleiðslan er að aðlagast betur að innanlandsmarkaði.

Kjötiðnaður félagsins stendur traustum fótum og afkoma batnaði á árinu. Ímynd félagsins á markaði er góð og staða lykilvörumerkja sterk sem treystir grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaðnum.

Innflutningshluti félagsins er traustur bæði í matvælum sem og í búvörum. Góð tækifæri eru til enn frekari vaxtar enda félagið í samstarfi við leiðandi aðila á sínu sviði.

 

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 2019 22. mars 2019
Janúar – júní 2019 uppgjör 22. ágúst 2019
Júlí – desember 2019 uppgjör 20. febrúar 2020
Aðalfundur 2020 20. mars 2020

Frekari upplýsingar veitir:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is