1. KAFLI.

Nafn félagsins, heimilisfang þess og tilgangur.

1. gr.

Félagið er samvinnufélag. Nafn þess er “Sláturfélag Suðurlands svf.”, skammstafað S.S.

2. gr.


Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði er: Vestur-Skaftafellssýsla, Austur- Skaftafellssýsla austur að Jökulsá á Breiðamerkursandi, Rangárvallasýsla, Árnessýsla, Kjósar- og Gullbringusýsla, Borgarfjarðarsýsla, Mýrarsýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla auk bæja og kaupstaða innan framangreindra svæða.


3. gr.


Tilgangur félagsins er að annast slátrun, úrvinnslu og sölu á framleiðslu félagsmanna. Til þess að skapa fjölbreytni um vöruval og þar með að styrkja sölu á framleiðslu félagsmanna hefur félagið með höndum ýmis konar iðnrekstur. Félagið flytur einnig inn vörur og stundar aðra verslun eftir því sem það styrkir sölu á framleiðslu félagsins.

Vegna starfsemi sinnar skipuleggur félagið flutning sláturgripa til sláturhúsa og flutning afurða á markað. Jafnframt skal að því stefnt að losna við ónauðsynlega milliliði og að félagsmenn fái fullt verð fyrir framleiðslu sína.