Starfsemi

Félagið
Sláturfélag Suðurlands svf. er samvinnufélag, í eigu búvöruframleiðenda á félagssvæði sínu og almennra hluthafa. Félagið starfar á grundvelli laga um samvinnufélög nr. 22/1991.

Félagssvæði Sláturfélagsins skv. samþykktum er Vestur-Skaftafellssýsla, Austur- Skaftafellssýsla austur að Jökulsá á Breiðamerkursandi, Rangárvallasýsla, Árnessýsla, Kjósar- og Gullbringusýsla, Borgarfjarðarsýsla, Mýrarsýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla auk bæja og kaupstaða innan framangreindra svæða.

Tilgangur félagsins er skv. samþykktum, að annast slátrun, úrvinnslu og sölu á framleiðslu félagsmanna. Félagið flytur einnig inn vörur og stundar aðra verslun eftir því sem það styrkir sölu á framleiðslu félagsins.

Með hliðsjón af tilgangi félagsins og stöðu þess er höfuðmarkmið félagsins að vera leiðandi matvælafyrirtæki sem starfar á heildsölustigi og dreifir vörum á landsvísu. Félagið starfar á þremur sviðum, slátrun, kjötiðnaði og innflutningi.

Sláturfélag Suðurlands svf. er með höfuðstöðvar að Fosshálsi 1, Reykjavík. Að Fosshálsi eru auk skrifstofu, markaðs- og söludeildir.  Á Hvolsvelli er meginhluti kjötiðnaðar staðsettur ásamt frystihúsi og vörudreifingu kjötvara.  Sláturhús rekur félagið á Selfossi ásamt úrbeiningu á kjöti og pökkunarstöð.

Afurðadeild
Undir afurðadeild félagsins fellur slátrun og rekstur frystihúsa.   Í engu sláturhúsi á landinu fer fram jafn mikil slátrun og í sláturhúsi félagsins á Selfossi.  Sláturhúsið á Selfossi er með útflutningsleyfi til EB, USA, Japans og Rússlands.

Deildin er með um 19% af samanlagðri slátrun sauðfjár, nautgripa, svína og hrossa í landinu. Afurðadeild SS selur kjöt fyrst og fremst til kjötiðnaðar félagsins en í minna mæli til annarra kaupenda.

Kjötiðnaður
Undir kjötiðnað fellur kjötvinnsla og það sem henni tilheyrir á Hvolsvelli. Kjötvinnsla Sláturfélagsins var flutt á árinu 1991 til Hvolsvallar frá Reykjavík þar sem hún hafði verið frá upphafi. Um er að ræða stærstu og fullkomnustu kjötvinnslu landsins.

Mikið starf hefur verið unnið í uppbyggingu á gæðakerfum félagsins. Komið hefur verið á innra eftirliti í samræmi við svokallað GÁMES gæðakerfi auk gæðakerfa sem þarf til að halda leyfum fyrir erlenda markaði. Reglulega eru haldin námskeið og fundir með starfsmönnum til að viðhalda gæðavitund og réttum vinnubrögðum.

Starfsstöð kjötvinnslunnar á Hvolsvelli hlaut umhverfis- og vinnuverndunarviðurkenningu Iðnlánasjóðs 1995 og Fjöregg MNÍ 1996 (Matvæla- og næringarfræðingafélag Íslands) fyrir framúrskarandi árangur í vöruþróun. Kjötiðnaðarmenn félagsins hafa einnig í gegnum árin unnin til fjölda verðlauna fyrir vörur sem sendar hafa verið á sýningar og í keppni bæði innanlands og utan. Kjötiðnaðarmeistarar SS hafa í tvígang unnið Norðurlandatitil í kjötiðnaði.

Mikil áhersla er á vöruþróun undanfarin ár en stefna félagsins er að 10% af sölu hvers árs í kjötiðnaði komi frá nýjum framleiðsluvörum.

Framleiðsla kjötiðnaðar er markaðssett undir fjölmörgum vörulínum. Í vörumerkjum félagsins liggja verðmæti sem skapast hafa á umliðnum áratugum með vandaðri framleiðslu og stöðugri markaðssetningu framleiðslunnar.

Kjötvinnsludeild Sláturfélagsins er stærsti einstaki aðili í kjötiðnaði hér á landi með markaðshlutdeild einstakra vöruflokka allt að 80%.
Staða SS á pylsumarkaði hér á landi er sérstaklega sterk auk þess sem félagið nýtur sterkrar stöðu með kjötálegg undir merkjum SS og Búrfells og  tilbúna rétti undir „1944“ vörumerkinu.
Innflutningsdeild
Innflutningsdeild félagsins er staðsett að Fosshálsi 1 í Reykjavík. Deildin hefur einkaumboð fyrir mörg þekkt vörumerki sem eru leiðandi hvert í sínum vöruflokki á heimsmarkaði. Má þar nefna fjölda vörumerkja af sælgæti frá Mars fyrirtækinu, Barilla pasta, Uncle Ben´s hrísgrjón og sósur , Pedigree og Whiskas dýramat og krydd frá McCormick.

Innflutningsdeild Sláturfélagsins hefur vaxið á undanförnum árum.  Árið 1994 hóf SS innflutning á Mars sælgæti og um mitt ár 1995 var leyfður innflutningur á ís og var SS fyrst innlendra fyrirtækja til að hefja innflutning með Mars sælgætisís. Innflutningur á hinu vinsæla m&m sælgæti hófst um miðjan janúar 1998.

Yara
Sláturfélagið hóf samstarf við Norsk Hydro (nú Yara) á árinu 1999 um innflutning á áburði og sér nú um sölu og dreifingu áburðar á landsvísu í samvinnu við Yara. Það er stefna Sláturfélagsins að bjóða bændum hágæða áburð á hagstæðu verði sem stuðlar að lækkun framleiðsukostnaðar og hreinleika afurða. Yara leggur áherslu á að vinna með bændum við að þróa áburð sem uppfyllir ströngustu kröfur um um gæði og umhverfisáhrif. Sláturfélagið er leiðandi í sölu á einkorna áburði.

DLG
Sláturfélagið er í samstarfi við Dansk Landbrugs Growareselskab (DLG) í innflutningi á kjarnfóðri.  DLG er stærsti framleiðandinn á kjarnfóðri í Danmörku með um 29.000 bændur sem félagsmenn. DLG er með um 46% markaðshlutdeild á kjarnfóðri í Danmörku auk þess að flytja út kjarnfóður og er auk þess stærsta fóðurfyrirtæki Norðurlanda.

Fjárfestingarstefna og eignarhluti í félögum
SS á allt hlutaféð í fyrirtækinu Reykjagarði hf. sem er stærsta fyrirtæki landsins sem framleiðir og selur kjúklingaafurðir. Jafnframt á SS 30% hlutafjár í fyrirtækinu Ísfugli hf. sem er þriðja stærsta kjúklingafyrirtæki landsins. SS á einnig 50% hlutafjár í fyrirtækinu Hollt & gott efh. sem er leiðandi aðili í framleiðslu á salati og grænmeti í neytendapakkningum. SS á einnig 26% eignarhlut í fyrirtækinu Orkugerðinni hf. sem vinnur fitu og mjöl úr dýraleifum.

Stefna félagsins er að kaupa ekki eignarhluta í öðrum félögum nema það styrki rekstur félagins til lengri tíma.