Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Ársreikningur 2023 á pdf. formi

• Rekstrartekjur ársins 17.143 m.kr. en 15.757 m.kr. árið 2022
• 792 m.kr. hagnaður á árinu á móti 549 m.kr. hagnaði árið áður
• EBITDA afkoma var 1.787 m.kr. en 1.467 m.kr. árið 2022
• Eigið fé 7.363 m.kr. og eiginfjárhlutfall 53%

Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélaga þess, Reykjagarðs hf. og Hollt og gott ehf.

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2023 var 792 m.kr. Árið áður var 549 m.kr. hagnaður. Betri markaðsaðstæður, veltuaukning og hagræðingaraðgerðir sem gripið var til skýra bætta afkomu frá fyrra ári. Eigið fé er 7.363 m.kr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 53%.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 17.143 m.kr. árið 2023, en 15.757 m.kr. árið áður og hækka því um 9%. Aðrar tekjur voru 164 m.kr. en 88 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 8.484 m.kr. en 7.906 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 4.273 m.kr. og hækkaði um 7%, annar rekstrarkostnaður var 2.762 m.kr. og hækkaði um 11%. Afskriftir fastafjármuna og nýtingarréttar hækkuðu um 17%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 1.215 m.kr., en 978 m.kr. rekstrarhagnaður árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 1.787 m.kr. en var 1.467 m.kr. árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 233 m.kr., en voru 321 m.kr. árið áður. Lækkun milli ára skýrist af góðri ávöxtun lausafjár og hagstæðri langtímafjármögnun. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 0,3 m.kr. Reiknaður gjaldfærður tekjuskattur er 191 m.kr. en 127 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri ársins var 792 m.kr. en 549 m.kr. hagnaður árið áður.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 1.777 m.kr. árið 2023 samanborið við 1.452 m.kr. árið 2022. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2023 voru 13.771 m.kr. og eiginfjárhlutfall 53% en 49% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,7 árið 2023, en 2,0 árið áður.

Fjárfest var á árinu fyrir 512 m.kr. í varanlegum rekstrarfjármunum en 671 m.kr. árið áður. Á árinu var fjárfest í fasteignum fyrir 125 m.kr., og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 387 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2023 var greiddur 19,34% arður af B-deild stofnsjóðs alls 35 m.kr. að frádregnum arði af eigin bréfum félagsins og reiknaðir 7,5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 28 m.kr.

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu SS: www.ss.is
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu fyrri árshelmings ársins 2024 þann 22. ágúst 2024.

Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 15. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 18,01% arður af B-deild stofnsjóðs, þar af verðbótarþáttur 8,01%, alls 36,0 m.kr. eða 0,1801 kr. á hvern útgefin hlut og reiknaðir 10,0% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 39,5 m.kr.

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 53% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,7. Langtímatímaskuldir í lok árs voru 2.799 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 93 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma. Lausafjárstaða félagsins er einnig góð en handbært fé var um áramót 1.843 m.kr. og góður aðgangur að skammtímafjármögnun sé þess þörf.

Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu um 1.387 m.kr. eða um 9% vegna betri markaðsaðstæðna og aðgerða sem gripið var til að auka tekjur. Staðan á veitingamarkaði batnaði auk þess sem samstæðan styrkti stöðu sína á smásölumarkaði og sölu rekstrarvara til bænda. Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára um 242 m.kr.

Framleiðsla kjöts á landsvísu dróst saman á árinu 2023 um 1,2% og sala um 2,2%. Áhyggjuefni er áætlaður samdráttur í kindakjötsframleiðslu á komandi árum en afkoma bænda í greininni hefur verið slök og brýnt að hún verði bætt. Jákvætt er að lækkanir á hrávörumarkaði eru að koma fram eftir miklar verðhækkanir á síðustu árum en áburður, kjarnfóður og ýmsar rekstrarvörur bænda hafa nú lækkað milli ára. Mikilvægt er að stuðningur verði áfram við greinina til lengri tíma en annað getur haft mjög neikvæð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu. Áfram er gert ráð fyrir neikvæðum áhrifum af innflutningi kjötvara á afkomu afurðahluta samstæðunnar.

Matvælaiðnaður félagsins stendur vel og styrkti stöðu sína á árinu 2023. Á árinu var fjárfest í nýjum vélbúnaði til að auka enn frekar hagkvæmni matvælaframleiðslunnar. Ímynd félagsins á markaði er góð og staða lykilvörumerkja sterk sem treystir grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði.

Sala á innflutningsvörum, matvælum og búrekstrarvörum jókst talsvert milli ára. Góð tækifæri eru til frekari vaxtar en félagið er í samstarfi við leiðandi framleiðendur á sínu sviði.

Fjárhagsdagatal
15. mars 2024 Aðalfundur vegna ársins 2023
22. ágúst 2024 Árshlutauppgjör jan-jún 2024
18. febrúar 2025 Ársuppgjör 2024
21. mars 2025 Aðalfundur vegna ársins 2024

 

Frekari upplýsingar veitir:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is