Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur jan-jún 2020 á pdf. formi

Afkoma á fyrri árshelmingi 2020

• Tekjur á fyrri árshelmingi 5.891 m.kr. og lækka um 2% milli ára.
• 21 m.kr. tap á fyrri árshelmingi ársins en 57 m.kr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 298 m.kr. en 406 m.kr. árið áður.
• Eigið fé 5.285 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 52%.

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.

Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2020 var 21 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 57 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 5.285 m.kr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.891 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2020, en 6.009 m.kr. á sama tíma árið áður og lækka því um 2%. Aðrar tekjur voru 166 m.kr. en 160 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 3.133 m.kr. en 3.110 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 1.647 m.kr. og hækkaði um tæpt 1%, annar rekstrarkostnaður var 979 m.kr. og lækkaði um tæp 4% og afskriftir voru 244 m.kr. og hækka um tæp 4%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 55 m.kr., en 171 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 298 m.kr. en var 406 m.kr. á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 88 m.kr., en voru 109 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Reiknaður tekjuskattur nam 9 m.kr. til tekna, en 5 m.kr. til gjalda árið áður. Tap af rekstri tímabilsins var 21 m.kr. en 57 m.kr. hagnaður á sama tímabili árið áður. COVID-19 hafði víðtæk neikvæð áhrif á afkomu félagsins á árinu með samdrætti í tekjum og auknum kostnaði.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 297 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2020, samanborið við 398 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2019. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 10.126 m.kr. og eiginfjárhlutfall 52% óbreytt frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 2,0 á fyrri hluta ársins 2020, en 1,9 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2020 fyrir 244 m.kr. en 193 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 54 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 190 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2019 var í aprílmánuði greiddur 12,66% arður af B-deild stofnsjóðs alls 23 m.kr. og reiknaðir 3% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 10 m.kr.

Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2020
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2020 þann 18. febrúar 2021.

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 52% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,0. Langtímaskuldir í lok júní 2020 voru 2.048 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 97 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma.

Afkoma Sláturfélagsins versnaði milli ára, fyrst og fremst vegna neikvæðra áhrifa af COVID-19 sem komu fram í lækkun tekna vegna fækkunar á erlendum ferðamönnum og samdráttar i veitingageiranum og kostnaðarauka vegna aðgerða sem gripið var til m.a. vegna sóttvarna.

Innflutningur á kjöti hefur haft neikvæð áhrif á innlenda kjötframleiðslu og afkomu afurðafélaga. Áfram verður unnið að því að aðlaga rekstur samstæðunnar að breyttu rekstrarumhverfi, m.a. með því að leggja áherslu á sérstöðu og gæði innlendrar framleiðslu.

Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hefur styrkt grundvöll félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði. Samt sem áður er reiknað með erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði á næstu árum. Einnig er erfitt að meta nú hversu lengi neikvæð áhrif af COVID-19 munu vara.

Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði með nýjum vöruflokkum sem ganga vel. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur.

Fjárhagsdagatal
Júlí – desember 2020 uppgjör 18. febrúar 2021
Aðalfundur 2021 19. mars 2021

Frekari upplýsingar veita:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is