Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali (13 kb)


Afkoma á 1. ársfjórðungi ársins 2003
Rekstrartap Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til mars 2003 var 43,2 milljónir, en á sama tímabili árið áður var 8,5 milljón króna rekstrartap. Verri afkoma stafar fyrst og fremst af minni veltu vegna offramboðs á kjötmarkaði. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með eigið fé rúmar 1.182 milljónir og 42% eiginfjárhlutfall.

Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands voru 747 milljónir á fyrstu þrem mánuðum ársins 2003, en 837 milljónir á sama tíma árið áður og minnkuðu um tæp 11%.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 751 milljón á fyrsta ársfjórðungi ársins 2003 samanborið við 811 milljónir árið áður og minnka um rúm 7%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 38 milljónir sem er óbreytt frá fyrra ári. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 42 milljónir, en 12 milljónir króna árið áður.

Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru 16 milljónir, en á árinu á undan voru þær 12 milljónir. Undir fjármagnsliðum er 8 milljón króna gjaldfærsla vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins en árið áður var hún 5 milljónir.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 17 milljónir en árið áður 6 milljónir. Skattar voru 1 milljón. Tap af rekstri tímabilsins var 43,2 milljónir en 8,5 milljónir árið áður.

Veltufé til reksturs var 7 milljónir á fyrstu þrem mánuðum ársins 2003, samanborið við 17 milljónir frá rekstri fyrir sama tímabil árið 2002.

Í lok mars 2003 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 2.812 milljónir og höfðu lækkað um 120 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 969 milljónir, langtímaskuldir 661 milljón og eigið fé 1.182 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 42% í lok mars 2003, en var 40% á sama tíma árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,1 í lok mars 2003, en 1,3 árið áður. Lækkun veltufjárhlutfalls milli ára skýrist af því að næsta árs afborganir langtímalána eru í lok mars 443 milljónir króna en voru einungis 284 milljónir á sama tíma í fyrra. Um er að ræða lán með gjalddaga í júní n.k. sem verður endurfjármagnað.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 21 milljón á fyrstu þrem mánuðum ársins og fyrir 9 milljónir í félögum.

Á árinu 2002 var undirritað samkomulag milli Búnaðarbanka Íslands hf. og Sláturfélags Suðurlands svf. um kaup Sláturfélagsins á 67% hlut í kjúklingaframleiðslufyrirtækinu Reykjagarði hf. Þar sem uppgjöri vegna áreiðanleikakönnunar sem gerð var vegna kaupanna er ekki lokið, þá er kaupverð hlutabréfanna ekki fært í árshlutauppgjöri Sláturfélagsins pr. 31. mars 2003.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Við gerð þess er í öllum meginatriðum fylgt sömu reikningsskilaaðferðum og á fyrra ári. Reikningsskilin eru verðleiðrétt. Ef reikningsskilin hefðu ekki verið verðleiðrétt hefði tap tímabilsins orðið 7 milljónum hærra og eigið fé 20 milljónum lægra.


Horfur fyrir árið 2003
Afkoma félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2003 var óviðunandi og einkenndist af mikilli verðsamkeppni og offramboði á kjöti á markaðnum sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Gert er ráð fyrir að aukið jafnvægi náist á kjötmarkaðnum er nær dregur áramótum.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár.

Aðhaldi verður áfram beitt í rekstri félagsins, en gripið hefur verið til þess að draga úr útgjöldum auk þess sem fjárfestingar hafa verið dregnar saman. Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins verði áfram þung næstu mánuði en afkoma batni seinni hluta ársins.



Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000


Reykjavík, 16. maí 2003
Sláturfélag Suðurlands svf.