Þann, 10. júní sl. voru 92 starfsmenn kjötvinnslunnar á Hvolsvelli útskrifaðir af 9 stunda námskeiði í matvælaöryggi.

Námskeiðið var haldið í samvinnu við Sæmund fróða, sem er símenntunarstofnun í hótel-, matvæla- og ferðagreinum.
Markmið námskeiðsins er að tryggja að fólk sem starfar við framleiðslu og dreifingu matvæla hafi þekkingu á meðferð matvæla, almennu og persónulegu hreinlæti og þá þekkingu á innra eftirliti fyrirtækis sem nauðsynleg er til að tryggja öryggi matvælanna.

Námskeiðið er liður í væntanlegri reglugerð frá umhverfisráðuneyti um grunnnám fyrir almennt starfsfólk í matvælafyrirtækjum. Þar segir m.a. “Þeir einstaklingar sem hyggjast starfa eða starfa nú þegar við framleiðslu og dreifingu matvæla skulu sækja námskeið sem veiti þeim grunnþekkingu í meðferð matvæla,vexti örvera, almennu og persónulegu hreinlæti o.fl. þ.m.t. ábyrgð á eigin heilsu og innra eftirliti matvælafyrirtækja.”

Sláturfélag Suðurlands er stór vinnustaður. Því þurfti að skipta starfsfólki í 5 hópa, 20 þátttakendur í hverjum hóp. Hverju námskeiði var skipt í tvo hluta og fór það fram í lok vinnudags og á laugardögum. Um það bil helmingur þátttakenda eru nýbúar þannig að tveir af hópunum nutu aðstoðar túlks sem jafnframt er kennari við Hvolsskóla.

Námskeiðið var sniðið að þörfum Sláturfélags Suðurlands þar sem fjallað var um öll þau atriði er snerta matvælaöryggi. Í lok námskeiðsins leystu þátttakendur verkefni sem tengdust vinnustað þeirra. Kennari á námskeiðinu var Kristján Guðmundur Kristjánsson.

Sláturfélaginu er það metnaðarmál að hafa ávallt á að skipa hæfu og vel þjálfuðu starfsfólki, sem er meðvitað um þá stefnu félagsins að framleiða aðeins gæða matvöru, sem nýtur trausts Íslendinga. Til okkar eru gerðar miklar gæðakröfur og þær nást ekki nema að allir leggist á eitt og að sér hver starfsmaður upplifi sig sem mikilvægan hlekk í því sambandi. Það er því mikið fagnaðarefni að svo margir af starfsmönnum vinnslunnar skyldu taka þátt í námskeiðinu, sem án efa skilar sér í bættum vinnubrögðum og meðhöndlun framleiðsluvaranna.

Við færum öllum sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd námskeiðsins okkar bestu þakkir og hinum útskrifuðu innilegar hamingjuóskir.