Sláturfélag Suðurlands svf. og Reykjagarður hf. hafa keypt kjötmjölsverksmiðjuna í Flóahreppi og tekið við rekstri hennar. Verksmiðjan er sú eina sinnar tegundar í landinu. Hún tekur á móti sláturúrgangi og öðrum lífrænum úrgangi og framleiðir úr þessum afurðum mjöl og fitu. Fitan er að stærstum hluta notuð til gufuframleiðslu fyrir verksmiðjuna og verksmiðjan því nær sjálfbær um orku. Þessi kaup eru áfangi í gæða- og umhverfismálum SS og Reykjagarðs og tryggja að ráðstöfun úrgangs sem til fellur í fyrirtækjunum verði með besta mögulega hætti og í samræmi við ströngustu umhverfissjónarmið.

Kjötmjölsverksmiðjan er í eigu hlutafélagsins Förgun ehf. sem SS og Reykjagarður hafa keypt. Kaupverðið er trúnaðarmál.  Framkvæmdastjóri Förgunar er Torfi Áskelsson.
 
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason forstjóri í síma 575 6000.