Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna var haldin í mars. Kjötiðnaðarmenn sendu inn vörur sínar sem voru dæmdar og í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna Covid-19 fengu þeir verðlaunin send heim án þess að komið væri saman. Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu fagmenn Sláturfélags Suðurlands uppskáru sérlega vel í keppninni og titillinn Kjötmeistari Íslands féll í skaut Bjarka Frey Sigurjónssyni sem var stigahæstur allra með 243 stig. Fast á hæla honum kom svo Steinar Þórarinsson einnig frá Sláturfélaginu með 241 stig. Pylsur hafa notið vaxandi vinsælda síðustu ár og það var því gaman að Ostapylsan frá SS skyldi vera valin Besta matarpylsan 2020.

Sláturfélag Suðurlands leggur mikinn metnað í vöruþróun, fjölbreytt vöruval og gæði. Að hafa kappsama starfsmenn sem eru ávallt tilbúnir að leggja örlítið meira á sig, gera tilraunir og prófa sig áfram er lykillinn að góðum árangri. Allir hlekkir í virðiskeðjunni eru mikilvægir, bændurnir – eigendurnir sjálfir, afurðastöðin, vinnslan og þeir sem þar starfa, dreifingin, allt þar til varan er komin á borð neytenda.

Fæðuöryggi okkar Íslendinga hefur fengið nýja og stærri merkingu fyrir marga á þessum viðsjárverðu tímum og óhætt að segja að þessi mikla eftirspurn að undanförnu eftir heilnæmum og góðum matvælum sé okkur hjá Sláturfélaginu enn frekari hvatning til áframhaldandi afreka þó það endurspeglist raunar alltaf í slagorðinu okkar – SS, fremst fyrir bragðið.

Frá SS fengu þessir kjötiðnaðarmenn verðlaun og Sláturfélagið færir þeim innilegar hamingjuóskir og horfir með bjartsýni til þess að þróa með þeim enn frekari nýjungar og fleiri frábærar vörur:

Benedikt Benediktsson
Besta varan úr svínakjöti: Rauðvínssalamí

Jónas Pálmar Björnsson
Besta varan úr folalda- og hrossakjöti: Fjalla-Cayen-grafið hrossafillé
og besta varan úr nautakjöti sem og í flokknum sælkeravörur:
Grafið nautafillé með lakkrískeim. 

Oddur Árnason
Lambaorðan, besta varan úr lambakjöti: Tindfjallahangikjet
Oddur Árnason

Steinar Þórarinsson
Besta varan í elduðum kjötvörum: Sviðasulta

Jón Sigurðsson
Besta varan í flokknum soðnar pylsur: Piparostapylsur með sveppum

Kjötmeistari Íslands 2020 Bjarki Freyr Sigurjónsson

 

Fagmenn SS – myndin er samsett