Verðlækkun á Yara áburði

Yara birti verðskrá 12. desember s.l. Frá þeim tíma hefur köfnunarefnisáburður lækkað á erlendum mörkuðum.

SS vill koma ávinningi af lækkun köfnunarefnis til bænda og gefur út nýja verðskrá á Yara áburði 2023.

Umtalsverð verðlækkun
Verðlækkun frá verðskrá 12. desember er allt að 9%. Mest er lækkun á hreinum köfnunarefnistegundum eins og OPTI-KAS, OPTI-NS og á NPK 25-2-6. Aðrar algengar þrígildar tegundir eru að lækka allt að 6%. Það sem vegur á móti frekari verðlækkun er mikil gengisveiking á undanförnum vikum.

Frí heimkeyrsla á áburði framlengd til 15. febrúar
Til að koma til móts við þá bændur sem dregið hafa að ljúka áburðarpöntun þar sem verð frá öðrum áburðarsölum hefur ekki legið fyrir þá framlengjum við tilboði um fría heimkeyrslu fram til 15. febrúar n.k.

Þeir fjölmörgu bændur sem nú þegar hafa pantað Yara áburð njóta einnig þessarar verðlækkana sem og bændur sem keyptu birgðir í haust.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Yara: Verðlækkun á Yara áburði

 

Greiðsla á 5% viðbót á afurðainnlegg ársins 2022 komin til bænda

Í dag greiddi SS 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2022. Greiðslan var 106,6 m.kr. fyrir utan virðisaukaskatt. Einnig var greidd 30 kr/kg viðbótargreiðsla á stórgripainnlegg september – desember 2022. Eingreiðsla, 30 kr/kg, vegna stórgripainnleggs janúar – ágúst var greidd  föstudaginn 23. september 2022

Í heild hefur SS því að greitt tæpar 213 m.kr. ofan á allt afurðainnlegg ársins 2022 til bænda.

Stefna félagsins er að greiða samkeppnishæft verð fyrir afurðainnlegg og skila hluta af rekstrarhagnaði sem viðbót á afurðaverð. 

Stjórn og starfsfólk SS óskar öllum til hamingju með bóndadaginn og þakkar félagsmönnum samstarfið á árinu.

SS greiðir 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2022

Stjórn SS hefur ákveðið að greiða 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2022 þann 20. janúar 2023. Greiðslan er áætluð rúmar 106 m.kr. fyrir utan virðisaukaskatt.

Viðbótargreiðslan er því hrein viðbót við heildarafurðaverð ársins 2022 að meðtaldri 30 kr/kg eingreiðslu ofan á afurðverð ársins 2022 sem kynnt var í ágúst síðast liðnum til að mæta erfiðum aðstæðum hjá bændum vegna hækkana á rekstrarvörum. Viðbótargreiðslan 30 kr/kg er áætluð tæpar 106 m.kr.  Í heild er SS því að greiða um 212 m.kr. ofan á allt afurðainnlegg ársins 2022 til bænda.

Stefna félagsins er að greiða samkeppnishæft verð og skila hluta af rekstrarhagnaði sem viðbót á afurðaverð. 

Stjórn og starfsfólk SS þakkar félagsmönnum samstarfið á árinu og óskar öllum gleðilegra hátíða.