Verðhlutföll og sláturáætlun sauðfjár 2024

Áætlað er að hefja sauðfjárslárun þriðjudaginn 10. september 2024 og ljúka slátrun 31. október.

Taflan sýnir eingöngu verðhlutföll milli sláturvikna en ekki verðið sjálft. Verðhlutföll hjálpa bændum til að meta hvenær hagkvæmast er að slátra eftir aðstæðum hvers og eins. Yfirborgun dilka er 19% í fyrstu sláturviku og 14% í annarri sláturviku þannig að um er að ræða töluverða hækkun frá fyrra ári. Nú er jafnframt yfirborgun á fullorðið, 10% fyrstu tvær sláturvikurnar og 5% í þriðju og fjórðu sláturviku en bændur eru hvattir til að láta einnig með dilkum fullorðið fé, sérstaklega fyrstu sláturvikurnar.

Það er mikilvægt fyrir bændur og félagið að átta sig á breytingum sem gætu orðið. Í því skyni verður óskað eftir sláturpöntunum í júní. Bændur verða að vita í tíma hvort þeir koma fé að þær vikur sem óskað er eftir og félagið verður að geta brugðist við eins og hægt er.

Ef mikil breyting verður á dreifingu sláturpantana verður að áskilja rétt til að breyta yfirborgunum vikna til að jafna aðsókn.

Verðhlutföll og sláturáætlun sauðfjár 2024

Fréttabréf SS – 1. tbl. 2023

Í fréttabréfinu er umfjöllun um sauðfjársláturtíðina sem er komin á fullt og annasamar vikur framundan.

Á stjórnarfundi SS þann 6. júní síðastliðinn var ákveðið að greiða 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins . Búið er að greiða viðbótina á innlegg fyrir tímabilið janúar – júní en viðbótin fyrir seinni helming ársins verður greidd inn á bankareikninga bænda 19, janúar 2024.

Kynnt er allt að 10% verðlækkun á nautgripafóðri frá dlg en verð SS hefur verið óbreytt frá október 2022. Bændur eru hvattir til að hafa samband búvörudeild félagsins og tryggja sér kjarnfóður á óbreyttu verði til næstu 10 mánaða.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður var afkoma SS samstæðunnar góð á fyrri árshelmingi ársins 2023 og mun betri en í fyrra. Fjárhagsstaða félagsins er einnig mjög traust.

Fjallað er um stækkun Orkugerðarinnar en framkvæmdum verður lokið fyrir áramót en afköst verða tvöfölduð til að mæta auknu framboði á lífrænum afurðum.

Fjallað er ítarlega um stöðuna á kjötmarkaði, vörunýjungar og kynningu á  stöðvarstjóra félagsins á Selfossi.

Fréttabréf SS 1. tbl. 2023 á pdf formi.

Ný uppfærð afurðaverðskrá sauðfjár 2023 – Hækkun á verðskrá

Á stjórnarfundi SS 24. ágúst var ákveðið að hækka verðskrá sauðfjár sem SS gaf út 6. júní s.l.

Öll verðskrá dilka er hækkuð um 0,9% og auk þess er álagsgreiðsla fyrir viku 36 hækkuð úr 15% í 17%, fyrir viku 37 hækkuð úr 10% í 12% og fyrir viku 38 hækkuð úr 7% í 9%. Að meðaltali jafngilda þessar breytingar um 1,5% hækkun á meðalverði dilka frá áður útgefinni verðskrá.

Nánari upplýsingar um afurðaverð sauðfjár.

Afurðaverðskrá sauðfjár 2023 og 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2023

SS hefur ákveðið að hækka verðskrá fyrir innlagt dilkakjöt um 18% frá fyrra ári og fullorðið um 12%. Eins og áður eru töluverðar yfirborganir í upphafi sláturtíðar en til að mynda er 15% yfirborgun í fyrstu sláturviku. Slátrun hefst 6. september n.k.

Allt innlegg verður staðgreitt eins og verið hefur.

Stjórn SS hefur ákveðið að greiða 5% viðbót á allt afurðainnlegg ársins 2023, jafnt sauðfé sem aðrar afurðir. Viðbótin verður greidd í tvennu lagi. Greidd verður 5% viðbót á allt stórgripainnlegg á tímabilinu janúar – júní hinn 21. júlí næstkomandi og síðan 5% viðbót á allt stórgripainnlegg júlí – desember og á allt sauðfjárinnlegg haustsins hinn 19. janúar 2024. Með þessum hætti er félagið að skila bændum ávinningi af sterkri stöðu SS en stefna félagsins er að greiða samkeppnishæft verð og skila hluta af rekstrarhagnaði sem viðbót á afurðaverð. 

Nánari upplýsingar um verðskrá, greiðslutíma, heimtöku og aðra þætti sem lúta að sauðfjárslátrun er að finna hér.