Góð viðbrögð við aukningu sauðfjárinnleggs

Félagið þakkar frábær viðbrögð við auknu innleggi sauðfjár næsta haust. Allir sem lagt hafa inn pantanir eru hér með staðfestir.

Ákveðið hefur verið að halda inni svigrúmi til enn meiri slátrunar og því sá möguleiki áfram til staðar að panta fyrir aukið eða nýtt innlegg hjá félaginu.  Ef til þess kemur að möguleg sláturgeta fyllist þá verður það tilkynnt.

SS greiðir 2% viðbót á afurðaverð 2018

SS greiðir 2% viðbót á andvirði afurðainnleggs 2018 til bænda 8. mars 2019. Í heild nemur viðbótin með virðisaukaskatti 40,9 milljónir króna.

Afkoma SS var ágæt á árinu 2018. Í samræmi við stefnu félagsins um að tengja saman ávinning bænda af góðum hag SS er með þessum hætti miðlað hluta af hagnaði félagsins til innleggjenda. SS sýnir í verki samvinnuhugsjónina með þessum hætti og leggur áherslu á mikilvægi þess að bændur beini viðskiptum til félagsins til að styrkja áfram grundvöll fyrir því að félagið geti greitt viðbót á afurðaverð.

Aukið sauðfjárinnlegg hjá SS haustið 2019

Í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og fækkunar sauðfjársláturhúsa hefur SS ákveðið að lengja sláturtíð haustið 2019 um 3 sláturdaga og bjóða nýjum innleggjendum á félagssvæði SS upp á að sækja um innleggsviðskipti með sama rétti og þeir sem fyrir eru.

Áætlað er að auka innlegg sem nemur um 8-10 þúsund kindum.

Ef sótt verður um heildaraukningu sem er umfram þennan fjölda þá verður magninu skipt niður en þó þannig að ekki verða sótt færri en 100 stk að jafnaði til nýs innleggjanda.

Þess er óskað að óskir berist félaginu með tölvupósti til sindrig@ss.is fyrir 1. mars 2019 en þá verður unnið úr umsóknum.

Eftirfarandi er yfirlit um sláturtíma og yfirborganir en verðið sjálft verður ákveðið er nær dregur sláturtíð. Stefna SS er að greiða samkeppnishæft afurðaverð og er vel gengur að miðla hluta af rekstrarafgangi til bænda í formi viðbótar á afurðaverð.

Verðhlutföll og sláturáætlun sauðfjár 2019

Innflutningur SS á kjöti

Af gefnu tilefni er rétt að upplýsa um það kjöt sem SS hefur flutt inn og stefnu félagsins í innflutningi kjöts.

SS flutti ekki inn neitt nautakjöt á liðnu ári.

SS flutti inn 97 tonn af svínakjöti árið 2018, fyrst og fremst svínasíður sem skorti og voru seldar sem beikon undir Búrfells vörumerki.

Stefna félagsins er að flytja ekki inn kjöt nema hráefni skorti. Nægt framboð er á nautgripum og félagið lagt áherslu á að auka slátrun og framboð á innlendu kjöti. Umtalsvert magn af nautgripahakkefni hefur verið selt til annarra sláturleyfishafa og vinnsluaðila á liðnu ári og nægar birgðir eru til.

Hægt er að kynna sér niðurstöðu útboða á innflutningskvótum kjöts á eftirfarandi vefsíðu:

https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/inn-og-utflutningur-landbunadarvara/nidurstodur-utboda/

Auk þess sem hér kemur fram er töluverður innflutningur umfram kvóta en ekki eru aðgengilegar upplýsingar um innflutning einstakra fyrirtækja umfram kvóta en hægt að sjá heildartölur er þær liggja fyrir um 6 vikum eftir lok hvers mánaðar. En eins og áður sagði flutti SS ekkert nautakjöt inn árið 2018 og heildarinnflutningur svínakjöts, innan og utan kvóta var 97 tonn.