• Tekjur ársins 7.120 mkr. en 6.605 mkr. árið 2008.
• 412 mkr. hagnaður á árinu, en 1.555 mkr. tap árið áður.
• EBITDA afkoma var 390 mkr. en 499 mkr. árið 2008.
• Fjármagnsliðir jákvæðir um 262 mkr. en neikvæðir um 1.841 mkr. árið áður.
 
Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.
 
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2009 var 412 mkr. skv. rekstarreikningi. Árið áður var 1.555 mkr. tap. Jákvæð breyting í afkomu milli ára stafar fyrst og fremst af breytingu í fjármagnsliðum. Eigið fé Sláturfélagsins er 1.383 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 23%.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 7.120 mkr. árið 2009, en 6.605 mkr. árið áður og hækka því um 7,8%. Aðrar tekjur voru 35 mkr en 78 mkr. árið áður.
 
Vöru- og umbúðanotkun var 3.939 mkr. en 3.448 mkr. árið áður. Launakostnaður lækkaði um tæp 2%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 10% og afskriftir lækkuðu um 25%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 111 mkr., en 125 mkr. árið áður.
 
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) voru 262 mkr., en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 1.841 mkr. árið áður. Gengistap nam 109 mkr. samanborið við 1.567 mkr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 6,5 mkr. en árið áður um 0,1 mkr. Reiknaður er tekjuskattur til tekna að fjárhæð 33 mkr. en var 160 mkr. árið áður. Hagnaður af rekstri ársins var 412 mkr. en 1.555 mkr. tap árið áður.
 
Veltufé frá rekstri var 385 mkr. árið 2009, samanborið við 485 mkr. árið 2008.
 
Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2009 voru 6.139 mkr. og eiginfjárhlutfall 23% en 16% árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,3 árið 2009, en 1,7 árið áður.
 
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2009 var hvorki greiddur arður af B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir á A-deild stofnsjóðs.
 
Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.
 
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallarinnar.

Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 26. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs.

Staða og horfur
Rekstrarumhverfi fyrirtækja var afar óhagstætt á árinu 2009. Hátt vaxtastig, mikil verðbólga og samdráttur í einkaneyslu vegna lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila og háu atvinnuleysi hafði neikvæð áhrif á rekstur SS. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður jókst velta félagsins um 8% milli ára. Þó tekist hafi að lækka launakostnað milli ára um 2% dugði það ekki til að mæta lægri framlegð af vörusölu og kostnaðarhækkunum á aðföngum.
 
Um 8% samdráttur var í heildarkjötsölu innanlands milli ára. Afurðasölufyrirtæki hafa mætt samdrætti innanlands með auknum útflutningi á lambakjöti en veik staða krónunnar hefur bætt skilyrði til útflutnings.
 
Frá kjötiðnaði félagsins kom fjöldi nýrra vara á markað auk þess sem umbúðir rótgróinna vara voru endurbættar til að mæta þörfum neytenda.
 
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur haldið hlutdeild á markaði þrátt fyrir erfið skilyrði vegna gengisþróunar. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi gekk vel. Innflutningur á kjarnfóðri jókst umtalsvert milli ára en SS er í samstarfi við DLG í Danmörku.
 
Gert er ráð fyrir að rekstarumhverfi verði áfram óhagstætt á árinu 2010. SS mun því halda áfram öflugri vöruþróun og sölustarfsemi jafnframt því að beita aðhaldi í rekstri og fjárfestingum.
 
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000

Reykjavík, 26. febrúar 2010
Sláturfélag Suðurlands svf.