• Tekjur á fyrri árshelmingi 4.397 mkr. og aukast um 8,2% milli ára.
• 921 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins, en 193 mkr. á sama tíma í fyrra.
• EBITDA afkoma var 468 mkr. en 340 mkr. árið áður.
• Langtímaskuldir lækka um 1.100 mkr. við uppgjör gengistryggðra lána og uppgreiðslu lána.
• Eigið fé 2.448 mkr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 41%.

Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur SS jan – jún 2011 á pdf. formi

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.
 
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2011 var 921 mkr.  Á sama tímabili árið áður var 193 mkr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 2.448 mkr. í lok júní.
 
Með samkomulagi við viðskiptabanka félagsins um uppgjör gengistryggðra lána og uppgreiðslu lána lækka langtímaskuldir um 1.100 mkr. Að teknu tilliti til reiknaðs tekjuskatts hefur uppgjör gengistryggðra lána um 800 mkr. jákvæð áhrif á afkomu félagsins á fyrra árshelmingi. Langtímaskuldir félagsins voru endurfjármagnaðar með nýrri lántöku að fjárhæð 1.600 mkr. til 25 ára sem lækkar umtalsvert árlegar afborganir lána.
 
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.397 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2011, en 4.066 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um rúm 8%.  Aðrar tekjur voru 31 mkr en 22 mkr. árið áður.
 
Vöru- og umbúðanotkun var 2.516 mkr. en 2.398 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 3%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæp 12% og afskriftir hækkuðu um rúm 7%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 322 mkr., en 204 mkr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 468 mkr.  en var 340 mkr. á sama tíma í fyrra.
 
Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru 804 mkr., en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 13 mkr. á sama tímabili í fyrra. Niðurfelling gengistaps lána og vaxta nam 1.027 mkr.  Gengistap nam 133 mkr. samanborið við 60 mkr. gengishagnað árið áður.  Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um rúmar 20 mkr. en árið áður um 2 mkr. Reiknaður tekjuskattur nam 225 mkr. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 921 mkr. en 193 mkr. á sama tímabili árið áður.
 
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 467 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2011, samanborið við 339 mkr. fyrir sama tímabil árið 2010. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní  voru 5.923 mkr. og eiginfjárhlutfall 41%.  Veltufjárhlutfall var 2,4 á fyrri hluta ársins 2011, en 1,6 árið áður.
 
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2011 var í aprílmánuði greiddur 6,2% arður af B-deild stofnsjóðs alls 12 mkr. en ekki voru reiknaðir vextir á A-deild stofnsjóðs.
 
Sláturfélagið var skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Opnað var fyrir viðskipti 14. júlí s.l. Áður hafði félagið verið skráð á Opna tilboðsmarkaðnum. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti.  Ráðgert er að birta afkomu ársins 2011 þann 24. febrúar 2012.

Staða og horfur
Endurfjármögnun langtímaskulda félagsins sem nú er lokið hefur jákvæð áhrif á fjármagnsliði samstæðunnar auk þess sem árleg greiðslubyrði lána lækkar umtalsvert. Sláturfélagið hefur nú náð fyrri fjárhagsstyrk með 41% eiginfjárhlutfall.  Lausafjárstaða er einnig góð en veltufjárhlutfall var 2,4 í lok júní s.l.
 
Frá hausti 2008 hefur verið beitt miklu aðhaldi í rekstri og fjárfestingum sem hefur skilað sér í bættri afkomu og góðri fjárhagsstöðu félagsins. Til að styrkja enn frekar stöðu félagins er nauðsynlegt að halda áfram enn um sinn á sömu braut. 

Lítils háttar samdráttur var í kjötsölu á landsvísu milli ára á fyrri árshelmingi.  Gert er ráð fyrir að samdráttar gæti einnig á seinni árshelmingi. Gert er ráð fyrir hægum bata í kjötsölu þegar kemur fram á árið 2012. Sláturfélagið eins og önnur kjötsölufyrirtæki hafa mætt samdrætti í sölu innanlands með auknum útflutningi á lambakjöti. Sláturfélagið hefur þó sinnt vel eins og áður mikilvægum innanlandsmarkaði með því að eiga nægt lambakjöt til að mæta þörfum viðskiptavina.
 
Skertur kaupmáttur heimila hefur haft neikvæð áhrif á afkomu kjötiðnaðar félagsins.  Við því hefur verið brugðist með öflugri vöruþróun, markaðssókn og aðhaldi í rekstri. Gert er ráð fyrir hægum bata í rekstri kjötiðnaðar á árinu 2011.
 
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur náð að halda hlutdeild á markaði þrátt fyrir erfið skilyrði.  Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi gekk vel á fyrri árshelmingi jafnframt því sem SS er að styrkja stöðuna á kjarnfóðurmarkaði í samstarfi við DLG.
 
 
Frekari upplýsingar veitir:
 
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is