· Tekjur á fyrri árshelmingi 4.066 mkr. og aukast um 10,4% milli ára.
· 193 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins, en 46 mkr. tap á sama tíma í fyrra.
· EBITDA afkoma var 340 mkr. en 275 mkr. árið áður.
· Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 13 mkr. en 188 mkr. í fyrra.
 
 
  
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á að öllu leyti.
 
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2010 var 193,1 mkr. Á sama tímabili árið áður var 45,8 mkr. tap. Betri afkoma búvöruhluta innflutningsdeildar og gengishagnaður erlendra lána skýra að stórum hluta betri afkomu frá fyrra ári. Eigið fé Sláturfélagsins er 1.573 mkr. í lok júní.
 
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.066 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2010, en 3.684 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um rúm 10%. Aðrar tekjur voru 22 mkr en 23 mkr. árið áður.
 
Vöru- og umbúðanotkun var 2.398 mkr. en 2.176 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 6%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um rúm 9% og afskriftir lækkuðu um rúm 11%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 204 mkr., en 121 mkr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 340 mkr. en var 275 mkr. á sama tíma í fyrra.
 
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 13 mkr., en 188 mkr. á sama tímabili í fyrra. Gengishagnaður nam 60 mkr. samanborið við 76 mkr. gengistap árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um rúmar 2 mkr. en árið áður um 21 mkr. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 193,1 mkr. en 45,8 mkr. tap var á sama tímabili árið áður.
 
Veltufé frá rekstri var 339 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2010, samanborið við 275 mkr. fyrir sama tímabil árið 2009. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 5.892 mkr. og eiginfjárhlutfall 27%. Veltufjárhlutfall var 1,6 á fyrri hluta ársins 2010, en 1,7 árið áður.
 
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2010 var hvorki greiddur arður af B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir á A-deild stofnsjóðs.
 
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2010 þann 25. febrúar 2011.
 
 
Staða og horfur
Rekstrarumhverfi fyrirtækja sem selja vörur innanlands hefur verið óhagstætt hér á landi frá hausti 2008 en gengisfall krónu, verðbólga og hátt vaxtastig hafa haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja auk þess sem skertur kaupmáttur heimila og atvinnuleysi hafa valdið neyslusamdrætti. Á síðustu mánuðum hefur rekstrarumhverfið tekið að batna samfara styrkingu krónu, minni verðbólgu og lægra vaxtastigi. Áhrif þess má sjá í uppgjöri SS á fyrri árshelmingi 2010. Haldi þessi þróun áfram á seinni hluta ársins mun það hafa jákvæð áhrif á fjármagnsliði samstæðunnar. Vegna kaupmáttarskerðingar heimila er ekki gert ráð fyrir auknum bata á afkomu samstæðunnar fyrir fjármagnsliði á seinni hluta ársins. Beitt verður áfram aðhaldi í rekstri og fjárfestingum.
 
SS hefur verið í viðræðum við Arion banka hf., viðskiptabanka sinn, vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar og er þeim viðræðum ekki lokið. Viðræðurnar felast meðal annars í endurfjármögnun á bankalánum félagsins og jafnari árlegum afborgunum á þeim lánum.
 
Kjötsala á landsvísu jókst á síðasta ársfjórðungi um rúm 4%. Aukningin er einkum í alifuglakjöti og kindakjöti. Gert er ráð fyrir hægum bata í kjötsölu á seinni hluta ársins 2010 eftir mikinn samdrátt á árinu 2009. SS eins og önnur kjötsölufyrirtæki hafa mætt samdrætti í sölu innanlands með auknum útflutningi á lambakjöti en veik staða krónunnar hefur bætt skilyrði til útflutnings. Með aukinni styrkingu á krónu mun skilaverð lækka sem hefur neikvæð áhrif á afkomu afurðahluta félagsins.
 
Skertur kaupmáttur heimila hefur haft neikvæð áhrif á afkomu kjötiðnaðar félagsins. Við því hefur verið brugðist með öflugri vöruþróun en jafnframt ódýrari vörum. Ekki er gert ráð fyrir að rekstur kjötiðnaðar batni fyrr en komið er fram á árið 2011.
 
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur náð að halda hlutdeild á markaði þrátt fyrir erfið skilyrði. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi gekk vel á fyrri árshelmingi jafnframt því sem SS er að styrkja stöðuna á kjarnfóðurmarkaði í samstarfi við DLG.
 
 
 
 
 
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
 
Reykjavík, 27. ágúst 2010
 
Sláturfélag Suðurlands svf.