· Tekjur á fyrri árshelmingi 2.545,1 mkr.
· 121,6 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi, en 47,1 mkr. tap árið áður.
· Afkoma batnar milli ára, einkum vegna lækkunar fjármagnsgjalda.
· EBITDA afkoma var 211 mkr. sem er hækkun um 22 mkr. frá fyrra ári.
 
 
 
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á 51% hlut í.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2007 var 121,6 mkr. Á sama tímabili árið áður var 47,1 mkr. tap. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 1.667 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 42%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 2.545 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2007, en 2.259 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 13%. Aðrar tekjur voru 21 mkr en 17 mkr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 1.206 mkr. en 1.127 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um 17%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæp 24% og afskriftir hækkuðu um rúm 5%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 94 mkr., en 78 mkr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 211 mkr. en var 189 mkr. á sama tíma í fyrra.
Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld voru 9 mkr., en fjármagnsgjöld voru 142 mkr. umfram fjármagnstekjur á sama tímabili í fyrra. Gengishagnaður nam rúmum 56 mkr. samanborið við 96 mkr. gengistap árið áður. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 2 mkr. en 5 mkr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 17 mkr. en árið áður um 12 mkr. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 121,6 mkr. en 47,1 mkr. tap var á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri var 145 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2007, samanborið við 206 mkr. fyrir sama tímabil árið 2006.
Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 3.957 mkr. og eiginfjárhlutfall 42%. Veltufjárhlutfall var 2,6 á fyrri hluta ársins 2007, en 1,6 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2007 var í aprílmánuði greiddur 7,0% arður af B-deild stofnsjóðs alls 13 mkr. og reiknaðir 7,0% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 16 mkr.
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2007 þann 22. febrúar 2008.
 
 
Staða og horfur
Gera má ráð fyrir að innflutningur á landbúnaðarvörum aukist á næstu árum samfara lækkun tolla. Sláturfélagið eins og önnur afurðafyrirtæki þurfa að ná fram frekari hagræðingu í rekstri til að geta mætt þessum breytingum. Á undanförnum árum hafa verið gerðar breytingar á rekstri félagsins til að takast á við aukna erlenda samkeppni.
Stór hluti af matarneyslu landsmanna fer nú fram utan heimilis, á veitingahúsum og í mötuneytum vinnustaða og skóla. Breyttu neyslumunstri hefur verið fylgt eftir með aukinni áherslu á sölu í mötuneyti og veitingahús. Þetta hefur jafnframt kallað á breytt innkaup heimila sem mætt hefur verið með vöruþróun.
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur aukið hlutdeild sína á markaði enda mörg vörumerki deildarinnar vel þekkt á heimsvísu. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi hefur aukist umtalsvert enda vörugæðin þekkt meðal bænda. Innflutningur á kjarnfóðri er að hefjast í samstarfi við DLG í Danmörku en fóðurverð hér á landi hefur verið mun hærra en í nágrannalöndum okkur. Með innkomu SS á fóðurmarkað aukast valkostir bænda auk þess sem mikilvægt er að bændur hér á landi eigi aðgang að úrvalsfóðri á hagstæðu verði til að þeir séu betur í stakk búnir til að lækka framleiðslukostnað.
 
 
 
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 30. ágúst 2007
Sláturfélag Suðurlands svf.