Fréttatilkynning 16. ágúst 2002

Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali (13 kb)


Afkoma á fyrri árshelmingi 2002
Rekstrartap Sláturfélags Suðurlands á fyrri árshelmingi 2002 var 5,5 milljónir, en á sama tíma árið áður var rekstrartap 79 milljónir. Bætt afkoma stafar fyrst og fremst af lækkun fjármagnsgjalda vegna gengishækkunar krónunnar. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með eigið fé tæpar tólfhundruð milljónir og 44% eiginfjárhlutfall.

Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands voru 1.747 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2002, en 1.473 milljónir á sama tíma árið áður og aukast um tæp 19% frá árinu áður.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 1.682 milljónum á fyrri hluta ársins 2002 samanborið við 1.413 milljónir árið áður og aukast um 19%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 76 milljónir en 70 milljónir árið 2001. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 11 milljónir, en 10 milljónir árið áður.

Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru tæpar 26 milljónir, en á árinu á undan voru fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 93 milljónir. Lækkun fjármagnsgjalda skýrist fyrst og fremst af 44,5 milljóna gengishagnaði en árið áður var gengistap 64 milljónir. Undir fjármagnsliðum er 9 milljón króna gjaldfærsla vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins en árið áður var hún 16 milljónir.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 14,2 milljónir en jákvæð árið áður um 0,7 milljónir. Skattar voru tæpar 6 milljónir. Tap af rekstri tímabilsins var 5,5 milljónir en 79 milljónir árið áður.

Veltufé frá rekstri var 39 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2002 samanborið við 35 milljónir árið 2001

Í lok júní 2002 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 2.709 milljónir og höfðu hækkað um 181 milljón frá fyrra ári. Skammtímaskuldir voru 645 milljónir, langtímaskuldir 875 milljónir og eigið fé 1.189 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 44% í lok júní 2002, en var 45% á sama tíma árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,4 í lok júní 2002, en 1,7 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 43 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins og eignarhlutir í félögum jukust um 99 milljónir í félögum. Á fyrri hluta ársins 2002 keypti Sláturfélagið hlut í kjötvinnslufyrirtækinu Ferskum kjötvörum hf. Á tímabilinu var aukið við hlutabréfaeign félagsins í Guldfoss A/S í Danmörku, og selt af hlutabréfaeign félagsins í Ísfugli ehf. Í lok júlí var undirritað samkomulag milli Búnaðarbanka Íslands hf. og Sláturfélags Suðurlands um kaup Sláturfélagsins á 67% hlut í kjúklingaframleiðslufyrirtækinu Reykjagarði hf. og hefur Sláturfélagið kauprétt á 16% hlut til viðbótar.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Við gerð þess er í öllum meginatriðum fylgt sömu reikningsskilaðferðum og á fyrra ári. Reikningsskilin eru verðleiðrétt. Ef reikningsskilin hefðu ekki verið verðleiðrétt hefði tap tímabilsins orðið 8,6 milljónum hærra og eigið fé 15,6 milljónum lægra.


Horfur fyrir árið 2002
Afkoma félagsins á fyrri hluta ársins 2002 var óviðunandi og einkenndist af mikilli verðsamkeppni sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins, en styrking krónunnar hafði jákvæð áhrif á fjármagnsliði. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er þó sterk, jafnframt því sem markaðshlutdeild félagsins er að vaxa á kjötmarkaðnum. Vonast er til að hagræðing samfara kaupum á kjötvinnslufyrirtækjum styrki rekstur félagsins til lengri tíma litið.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár. Aðhaldi verður áfram beitt í rekstri félagsins, en gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða til að draga úr útgjöldum auk þess sem fjárfestingar hafa verið dregnar saman í öðru en í kaupum á kjötvinnslufyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að framangreindar aðgerðir og aðstæður á markaði muni leiða til bættrar afkomu Sláturfélagsins á síðari árshelmingi.



Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000


Reykjavík, 16. ágúst 2002
Sláturfélag Suðurlands svf.