8. KAFLI.

Reikningshald, endurskoðun ofl.

33. gr.

Starfsár félagsins og reikningsár þess er almanaksárið. Forstjóri skal gera ársreikning yfir tekjur og gjöld félagsins umliðið ár og efnahagsreikning þess í árslok. Reikningur félagsins skal liggja frammi fyrir aðalfundarfulltrúum á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.

Ársreikningur félagsins, endurskoðaður, skal úrskurðaður á aðalfundi félagsins.

Nú fellir aðalfundur tillögu um að samþykkja reikninga, og getur hann þá ákveðið, að yfirskoðun skuli fara fram og á hvern hátt. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal að nýju boða til fundar, er tekur fullnaðarákvörðun um reikningana.

34. gr.

Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára og ganga þeir út sitt ár hvor. Á sama hátt eru kosnir tveir skoðunarmenn til vara. Skoðunarmenn skulu vera úr hópi félagsaðila utan stjórnar.

Skoðunarmenn skulu yfirfara rekstur félagsins og ársreikning, fylgjast með að innra eftirlit í rekstri félagsins sé í góðu lagi og fylgjast með framkvæmd samþykkta félagsfunda og stjórnar. Þeir gefa aðalfundi skýrslu um störf sín.

Skoðunarmenn skulu hafa aðgang að öllum bókum og reikningum félagsins á hvaða tíma sem er.

35. gr.

Aðalfundur kýs einnig löggiltan endurskoðanda til þess að endurskoða reikninga félagsins í samræmi við góða reikningsskilavenju og lög. Endurskoðandi skal árita ársreikning félagsins og greina frá athugasemdum í áritun sinni ef ástæða er til. Endurskoðandi skal einnig athuga einstaka þætti bókhalds félagsins ef skoðunarmenn óska þess.