Breytt vinnubrögð til að tryggja gæði í þjónustuslátrun sauðfjár. Verð sem greitt verður í næstu slátrun miðvikudaginn 16. mars.

Næsta þjónustuslátrun sauðfjár verður miðvikudaginn 16. mars næstkomandi.

Vegna hennar verður að gefa út strangari reglur en gilt hafa um þessa slátrun því ella er ekki hægt að tryggja gæðakröfur SS og MAST.

Ástæðan er sú að talsverð brögð hafa verið að því að félagið hafi fengið óhreint fé til slátrunar.  Mjög erfitt er að slátra slíku fé án þess að afurðir mengist og spillist.

Af ofangreindum orsökum er félagið knúið til að setja fram þá kröfu að framvegis verði allt fé sem kemur til slátrunar í þjónustuslátrun að vera hreint þannig að hægt sé að slátra því án hættu á því að kjötið mengist. Rúningur á kvið, klofi og bringu innan tveggja vikna fyrir slátrun hjálpar mikið en dugar ekki til ef féð er haft á mjög skítugu undirlagi.

Ef óhreint fé kemur til slátrunar kemur til verðskerðingar sem nemur 2.000,- kr. á stykki til að mæta kostnaði við gæðarýrnun og kostnaði við töfum í slátrun. Gæðaeftirlit SS og dýralæknir frá MAST munu meta hvort féð telst skítugt.

Þjónustuslátrun er boðin sem valkostur fyrir bændur sem vilja af einhverjum ástæðum losna við fé sitt. Flutningar að sláturhúsi og slátrunin sjálf eru mjög óhagkvæm. Af þeim sökum er ekki hægt að greiða meira en 90% af verðskrá síðasta hausts fyrir þetta innlegg.

Óskum eftir samstarfi við bændur til að tryggja gæði framleiðslunnar.