Afkoma fyrstu níu mánaða ársins 2004

Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali (75 kb)

Afkoma fyrstu níu mánaða ársins 2004
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til september 2004 var 5,2 milljónir, en 102,8 milljón króna hagnaður var af rekstri á þriðja ársfjórðungi. Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf., dótturfélagi Sláturfélagsins, SS Eignum ehf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. Samanburðarfjárhæðir eiga eingöngu við rekstur Sláturfélags Suðurlands en á sama tímabili árið áður var 30,0 milljón króna tap hjá því. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.176 milljónir og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 32%. Lækkun eiginfjárhlutfalls samstæðu milli ára skýrist af innkomu dótturfélaga í uppgjörið.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 3.102 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2004, en 2.398 milljónir á sama tíma árið áður. Velta samstæðunnar jókst því um 29%, og er aukningin að stórum hluta til kominn vegna innkomu dótturfélaga í samstæðuuppgjörið.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 2.886 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 samanborið við 2.238 milljónir árið áður og jukust um tæp 29%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 177 milljónir og aukast um 54%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 39 milljónir, en 45 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 84 milljónir, en 36 milljónir árið áður. Breyting milli ára skýrist fyrst og fremst af innkomu dótturfélaga í uppgjörið. Seld var hlutabréfaeign í Íslenskum Markaði hf. og í Gripið og greitt hf., og nam söluhagnaður vegna þess 53 milljónum króna. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um tæpar 4 milljónir en árið áður um 35 milljónir. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 5,2 milljónir en 30,0 milljón króna tap á sama tíma árið áður.

Veltufé frá rekstri var 150 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2004, samanborið við 141 milljón frá rekstri fyrir sama tímabil árið 2003.

Í lok september 2004 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 3.652 milljónir og höfðu hækkað um 807 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 585 milljónir, langtímaskuldir 1.891 milljón og eigið fé 1.176 milljónir. Veltufjárhlutfall var 1,9 í lok september 2004, en 1,7 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 130 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins. Keypt voru hlutabréf í Hollu og Góðu ehf. og Guldfoss A/S að fjárhæð 31 milljón og seld hlutabréf fyrir 92 milljónir.

Árshlutauppgjörið er með könnunaráritun endurskoðenda sem og árið áður. Árshlutareikningurinn er nú samstæða Sláturfélags Suðurlands svf. og gerður samkvæmt almennum reikningsskilaaðferðum.


Horfur
Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára, en slök afkoma dótturfélaga hefur neikvæð áhrif á uppgjör samstæðunnar á tímabilinu.

Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en betri seinni hluta ársins. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár. Við fækkun sláturhúsa hefur náðst betri afkoma úr afurðastarfsemi félagsins.

Eftir mikið umrót á kjötmarkaðnum er hann nú farinn að færast hægt í átt að auknu jafnvægi sem á að leiða til betri afkomu í rekstri félagsins.



Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000


Reykjavík, 11. nóvember 2004
Sláturfélag Suðurlands svf.

Dagatal deildarfunda 2005

Yfirlit yfir deildarfundardaga á árinu 2005

22. mars 2005 í félagsheimilinu Árbliki kl. 15:00, Daladeild.

21. mars 2005 í Hótel Borgarnesi kl. 15:00, sameiginlegur deildarfundur í deildum norðan Hvalfjarðar og Snæfells- og Hnappadalssýslu. Hvalfjarðarstrandardeild, Borgarfjarðar- og Mýrardeild, Leirár og Meladeild, Akranes- og Skilmannadeild, Snæfells- og Hnappadalsdeild.

16. mars 2005 í félagsheimilinu Heimalandi u/Eyjafjöllum, kl. 21:00, sameiginlegur deildarfundur Hvammsdeildar, Dyrhóladeildar, A-Eyjafjalladeildar, V-Eyjafjalladeildar, A-Landeyjardeildar, V-Landeyjardeildar, Fljótshlíðardeildar og Hvolshreppsdeildar.

15. mars 2005 á Hótel Kirkjubæjarklaustri kl. 13:30, sameiginlegur deildarfundur Öræfadeildar, Hörgslandsdeildar, Kirkjubæjardeildar, Meðallandsdeildar, Skaftártungudeildar og Álftaversdeildar.

10. mars 2005 á Laugalandi í Holtum kl. 14:00, sameiginlegur deildarfundur Rangárvalladeildar, Landmannadeildar, Holtadeildar, Ásadeildar og Djúpárdeildar.

9. mars 2005  í félagsheimilinu Flúðum kl. 20:30, sameiginlegur deildarfundur Skeiðadeildar, Gnúpverjadeildar og Hrunamannadeildar.

7. mars 2005 í Bergsholti, Biskupstungum kl. 13:30, sameiginlegur deildarfundar Biskupstungnadeildar og Laugardalsdeildar.

4. mars 2005 í matsal sláturhúss SS á Selfossi kl. 14:00, sameiginlegur deildarfundur Stokkseyrardeildar, Gaulverjabæjardeildar, Villingaholtsdeildar, Ölfusdeildar, Sandvíkurdeildar, Hraungerðisdeildar, Þingvalla- og Grafningsdeildar og Grímsnesdeildar.

2. mars 2005 í félagsheimilinu Félagsgarði, Kjós kl. 20:30, sameiginlegur deildarfundur Kjósardeildar og Kjalarnes- og Mosfellsdeildar.