SS Söguágrip

Í myndum

Í framhaldi af afnámi verslunarhafta sem viðloðandi höfðu verið um margra alda skeið á íslensku þjóðinni var byrjað um aldamótin að stofna íslensk verslunarfélög til að greiða fyrir sölu búvara á erlenda markaði. Um aldamótin 1900 voru ýmsir erfiðleikar í afurðasölumálum. Árið 1890 var innflutningur lifandi fjár til Bretlands bannaður en fram til þess tíma hafði hann verið ein aðaltekjulind bænda. Varð því að auka slátrun í landinu en á því voru miklir byrjunarannmarkar þar sem skipulögð sauðfjárslátrun hafði ekki tíðkast heldur slátrun heima á bæjum við ófullkomnar aðstæður. Frystitækni var ókunn, geymsluaðferðin var því eingöngu söltun kjötsins og öll sölumeðferð á frumstæðu stigi. Það er upp úr þessum jarðvegi að Sláturfélag Suðurlands er stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 af 565 stofnendum.

Eftir stofnun félagsins urðu miklar framfarir í vinnslu og sölu landbúnaðarafurða á Íslandi sem hefur orðið bæði framleiðendum og neytendum til hagsbóta. Á fyrsta starfsári félagsins var reist sláturhús á aðalmarkaðssvæðinu í Reykjavík og síðar á helstu stöðum á Suðurlandi.

Árið 1920 hóf Sláturfélagið niðursuðu á kjöti og reisti síðan fullkomna niðursuðuverksmiðju árið 1929. Niðursuða var lengi mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins en var aflögð í kjölfar breyttra neysluvenja.

Árið 1908, strax á öðru rekstrarári félagsins, var hafinn rekstur fyrstu matvöruverslunarinnar, Matardeildarinnar í Hafnarstræti. Verslunum Sláturfélagsins fór síðan fjölgandi og á tímabili voru umsvif verslunardeildar félagsins veruleg. Í kjölfar breyttra áherslna voru verslanir félagsins seldar.

Sláturfélagið hóf rekstur sútunarverksmiðju árið 1965 að Skúlagötu 20, Reykjavík, en síðar var verksmiðjan rekin á Grensásvegi 14. Rekstri sútunarverksmiðju var hætt á árinu 1988 og vélar og annar búnaður seldur.

Kjötvinnsla Sláturfélagsins var flutt á árinu 1991 til Hvolsvallar frá Reykjavík þar sem hún hafði verið frá upphafi. Stórgripa- og sauðfjársláturhús á Hvolsvelli var lagt niður og tekið undir kjötvinnsluna ásamt því að húsnæði hennar var stækkað til muna. Lokið var við 1.800 fermetra stækkun kjötvinnslunnar á Hvolsvelli á árinu 1998. Starfsstöð félagsins á Hvolsvelli er rúmir 8.000 fermetrar. Um er að ræða stærstu og fullkomnustu kjötvinnslu landsins.

Að Fosshálsi 1 í Reykjavík er söludeild og skrifstofustarfsemi en á árinu 1993 sameinaðist öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu á einn stað að Fosshálsi 1. Húsnæðið var keypt á árinu 1997 og viðbót á árinu 1998, alls tæpir 3.700 fermetrar.

Á árinu 2008 var vörudreifing félagsins flutt frá Fosshálsi til starfstöðvarinnar á Hvolsvelli.