Markmið og stefna

Stefnulýsing
Starfshættir
Gæðastefna
Starfsmanna og mannauðsmál
Jafnlaunastefna

Stefnulýsing
„SS er leiðandi matvælafyrirtæki sem framleiðir og selur matvörur og vörur tengdar matvörum á heildsölustigi. Leiðandi staða skal varin með því að bjóða viðskiptavinum vörur sem skara fram úr á markaði og eru einn af þremur leiðandi valkostum í hverjum flokki. Hagnaður af rekstri og góð ímynd er grundvöllur forystu svo félagið sé hverju sinni „Fremst fyrir bragðið“ í huga viðskiptavina.“

Starfshættir
Í samræmi við tilgang og stefnu félagsins hafa verið skilgreindir lykil starfshættir eða gildi sem félagið leggur til grundvallar í starfsemi og samkeppni á markaði. Tilgangur skilgreindra starfshátta er að varða þá leið sem félagið fer til árangurs og velgengni.

Starfsháttunum er skipt í eftirfarandi fimm þætti:

Frumkvæði
Til að halda forystu á markaði þarf frumkvæði til að gera nýja hluti og vera leiðandi. Á markaði látum við hlutina gerast með nýjum vörum, nýrri þjónustu og bjóðum viðskiptavinum okkar verðmæti í viðskiptum sem taka fram því sem keppinautar bjóða. Með þeim hætti einum getum við tryggt stöðu okkar.

Inn á við höfum við frumkvæði til að gera sífellt betur, jafnt stjórnendur sem og annað starfsfólk. Ekkert er gert eingöngu af því að það hafi alltaf verið gert eins áður. Umhverfið breytist í sífellu og við þurfum að breytast með og á undan öðrum. Það eina sem breytist ekki er þörfin á sífelldri endurskoðun og sífelldum breytingum.
Við höfum frumkvæði til að leita nýrra leiða til að auðvelda okkur verkin og skapa aukin verðmæti starfsfólki og fyrirtæki til góða.

Samvinna
Heildin er sterkari en einstaklingarnir. Með því að vinna saman að sameiginlegu markmiði náum við árangri. Fyrirtækið er óslitin keðja þar sem reynir á hvern hlekk. Samvinna deilda og samvinna starfsfólks skapar árangursríkan og skemmtilegan vinnustað. Starfsfólk stefnir fram á við og vilja vaxa í starfi og njóta til þess samvinnu og stuðnings fyrirtækisins.

Í keppni á markaði erum við metin sem heild og það er frammistaða heildarinnar sem skiptir höfuðmáli gagnvart viðskiptavinum.

Gæði
Okkur er treyst til að framleiða og dreifa matvælum til neytenda. Þessu trausti fylgir sú ábyrgð að vanda til verka, standa undir nafni og styðja og styrkja það álit sem við njótum á markaði. Gott mannorð starfsfólks og fyrirtækis er gulls ígildi. Í allri starfsemi höfum við gæði að leiðarljósi með það að markmiði að gera hvern hlut aðeins einu sinni og gera hann rétt.

Þjónusta
Þjónusta snýst um að viðskiptavinir fái vörur með réttum hætti, að samskipti þeirra við félagið séu ánægjuleg og árangursrík og að mætt sé þörfum þeirra innan þeirra marka sem félagið setur sér. Þjónusta lýtur einnig að því að sjá fyrir þarfir viðskiptavina og bjóða þeim með þeim hætti aukin verðmæti í viðskiptum við félagið.

Þjónusta snýr einnig inn á við að eigendum og samstarfsfólki, styrkir samvinnu og gerir kröfu um gagnkvæma virðingu í samskiptum jafnt inn á við sem út á við.

Ráðdeild
Við sýnum ráðdeild í rekstri og bruðlum ekki með fjármuni félagsins. Vinnuumhverfi og búnaður skal uppfylla ströngustu kröfur en ekki vera ofhlaðið eða bera með sér íburð. Samstarfsmenn, eigendur og viðskiptavinir skulu sjá á öllu framferði okkar að vel sé farið með fjármuni. Hagkvæmni og ráðdeild skapa virðingu.

Gæðastefna SS

Gæðastefna Sláturfélags Suðurlands er mörkuð í stefnumótun fyrirtækisins. Félagið skal á hverjum tíma í hugum félagsmanna, starfsfólks, neytenda og viðskiptavina vera “Fremst fyrir bragðið” í allri starfsemi sinni. Matvælaframleiðsla leggur mikla ábyrgð á herðar þeirra fyrirtækja sem hana stunda.

Sláturfélag Suðurlands leggur metnað sinn í að standa undir þeirri ábyrgð og tryggja viðskiptavinum vörugæði í samræmi við væntingar. Til að ná þessu hefur fyrirtækið haft til hliðsjónar sambærilegan rekstur í nágrannalöndum og þau skilyrði sem sá rekstur býr við.

Framleiðsla skal standast ströngustu erlendar gæðakröfur til að tryggja framleiðsluöryggi og aðgang að erlendum mörkuðum. Framleiðslan skal standast samanburð við sambærilega erlenda samkeppnisaðila m.t.t. afkasta, nýtingar og gæðastjórnunar. Til að ná settum markmiðum nýtir Sláturfélag Suðurlands sér hugmyndafræði altækrar gæðastjórnunar í samfelldri og viðvarandi endurskoðun á rekstri félagsins. Haccp gæðakerfum hefur verið komið á í öllum framleiðsludeildum og er það í samræmi við áform félagsins um að tryggja neytendum öruggar matvörur.

Það er nauðsynlegt fyrir Sláturfélags Suðurlands að starfsemi þess sé í sátt við umhverfið. Félagið er að stórum hluta í eigu bænda sem leggja inn afurðir sínar til úrvinnslu og markaðssetningar. Frammistaða íslensks landbúnaðar með tilliti til náttúruverndar er því samtvinnuð ímynd félagsins.

Félagið hefur vistvæn sjónarmið að leiðarljósi í starfsemi sinni með tilliti til umhverfis og framleiðslu.

Hlutdeild innlendrar framleiðslu skal styrkt og viðhaldið með áherslu á hreinleika og faglega og vistvæna ímynd.

Til að framfylgja gæðastefnu fyrirtækisins er einstökum einingum (deildum, hópum og/eða starfsmönnum) sett markmið.

Starfsmanna og mannauðsmál

starfsm_skipurit
Smellið á mynd til að skoða ( Pdf skrá )

Stefna SS er að hafa á að skipa framúrskarandi fólki sem hefur metnað & ábyrgð sem þarf til að framleiða & selja öðrum matvæli & halda leiðandi stöðu. Og að skapa þessu fólki umgjörð til að það megi vaxa í starfi & njóta hæfileika sinna & fá sanngjarna umbun fyrir.

Jafnlaunastefna Sláturfélags Suðurlands og dótturfélaga

Stefna Sláturfélags Suðurlands og dótturfélaga þess er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.

Jafnlaunakerfið nær til alls starfsfólks félaganna.

Yfirstjórn og framkvæmdastjórar bera ábyrgð á að jafnlaunakerfi Sláturfélags Suðulands og dótturfélaga standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Starfsmannastjóri er fulltrúi stjórnenda varðandi jafnlaunakerfið og er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012.

Sláturfélag Suðurlands og dótturfélög skuldbinda sig til að:

  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi, skjalfesta og halda við.
  • Fylgja viðeigandi lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.
  • Kynna starfsmönnum niðurstöður launagreiningar hvað varðar kynbundinn launamun.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með árlegum umbótum og eftirliti og gerð tímasettrar úrbótaáætlunar.
  • Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
  • Birta stefnuna á innri vef og kynna hana öllu starfsfólki.
  • Stefnan sé aðgengileg almenningi á vefsíðu félaganna.

Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Sláturfélags Suðurlands og dótturfélaga þess.