Sláturtíð var áður fyrr mikill anna- og tilhlökkunartími þar sem það var
nánast eini tíminn sem nýtt ferskt kjöt var á boðstólum. Lifur, hjörtu og
nýru eru hinn besti matur ef rétt er staðið að matreiðslu.
Innmatur er mjög járnauðugur og því hin hollasta fæða og miðað við aðra
matvöru er hann líka ódýr. Þegar borðaður er járnauðugur matur þá þarf
helst að borða C-vítamínríkan mat með svo sem kartöflur, grænmeti eða
ávexti til þess að líkaminn nýti járnið að fullu. Það ætti að vera auðvelt
þegar margir eiga nýupptekið grænmeti og verslanir eru fullar af því á
þessum tíma.
Hér fyrir neðan eru uppskriftir af gómsætri steiktri lifur í brúnni sósu og
lifrabuffi.

Steikt lifur
með brúnni sósu

800 g lifur
4 msk hveiti
1 tsk salt
¼ tsk pipar
olía til steikingar
2 laukar
2½ dl vatn
sósulitur

Hveitijafningur

1-1½ dl vatn og afgangur
af hveitinu með kryddinu.

Blandið saman hveiti og kryddi.
Takið himnuna af lifrinni og skerið hana í þunnar
sneiðar (t.d. á ská eins og reyktan lax).
Laukurinn sneiddur, steiktur á pönnu og settur í
pott, vatnið sett í og soðið í u.þ.b. 5 mín.
Lifrinni velt upp úr hveitiblöndunni og steikt í
olíunni á pönnu, sett út í vatnið með lauknum.
Soðið í 1 mín., hveitijafningi hellt út í og hrært
stöðugt í, látið sjóða í 3–4 mín., bragðbætt með
salti og pipar. Sósulitur settur út í.
Mjög gott er að setja smá rjóma út í sósuna.
Einnig má setja smátt skorna gulrót út í pottinn
með lauknum ásamt 4 sveskjum og sjóða með.
Hjörtu og nýru eru steikt á sama hátt en þau eru
soðin í 50–60 mín. Skerið hjörtun í fjóra bita,
fituhreinsið þau og himnuhreinsið nýrun.
Ef lifrin á að vera með er hún steikt, geymd á
disk og soðin með síðustu mínúturnar.

Lifrarbuff

200 g lifur
200 g hráar flysjaðar kartöflur
1 laukur
1 epli
1 msk hveiti
1 egg
1 tsk salt
½ tsk pipar
olía til steikingar
3 laukar

Hreinsið lifur og skerið niður. Flysjið lauk og epli.
Hakkið saman (eða notið matvinnsluvél) lifur,
lauk, epli og kartöflur.
Blandið hveiti, eggi, salti og pipar saman við.
Hrærið saman með sleif.
Afhýðið og skerið niður laukana þrjá, steikið á
pönnu í olíu. Setjið á disk og geymið.
Hitið olíu á pönnu. Steikið lifrarbuffið eins og
klatta á pönnunni. Athugið að hafa ekki of háan
hita svo að buffið brenni ekki.
Buffin sett á fat og steikti laukurinn yfir.
Borið fram með soðnum kartöflum, hrásalati og
rabarbarasultu.