Bændur afhenda styrk vegna sölu á bleika rúlluplastinu

Elías Hartmann Hreinsson, deildarstjóri búvörudeildar Sláturfélags Suðurlands, og Ásthildur Skjaldardóttir, bóndi á Bakka á Kjalarnesi, afhentu fyrir skemmstu Krabbameinsfélagi Íslands 900 þúsund krónu styrk sem safnaðist af sölu á bleiku rúlluplasti í vor og sumar.

Ásthildur Skjaldardóttir, bóndi á Bakka á Kjalarnesi, Kolbrún Silja Ásgeirsdóttur, kynningar- og fjáröflunarstjóri, Krabbameinsfélags Íslands og Elías Hartmann Hreinsson, deildarstjóri búvörudeildar Sláturfélags Suðurlands. – Mynd smh  – Frétt Bændablaðsins 8. desember 2016.

 

Það var Kolbrún Silju Ásgeirsdóttur, kynningar- og fjáröflunarstjóri, Krabbameinsfélags Íslands, sem veitt styrknum formlega viðtöku við bleikar rúllustæðurnar á Bakka. Styrkurinn skiptist á milli þriggja aðila; bænda, Trioplast (sænska plastframleiðandans) og þeirra sem selja bleika plastið hér á Íslandi. Hver um sig samþykkti að láta 1 evru renna til Krabbameinsfélags Íslands, sem samsvaraði  samanlagt 425 krónum af hverri seldri plastrúllu. Andvirði söfnunarfjár átaksins mun, að sögn Kolbrúnar, ganga til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

 

Það var í fyrsta skiptið á liðnu sumri sem bleikar heyrúllur skreyttu tún íslenskra bænda og að sögn Elíasar, sem hafði frumkvæðið að því að prófa þetta hér á landi, frétti hann af sambærilegum verkefnum frá nágrannalöndum okkar. „Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og það kom á daginn að við áttum ekki allt það bleika plast sem við hefðum getað selt. Við erum því reynslunni ríkari fyrir næsta sumar.“  Uppruna slíkra verkefna mun þó vera hægt að rekja til Nýja-Sjálands og viðskiptavina Trioplast þar í landi. Bændakonur þar í landi óskuðu eftir því að bleikt rúlluplast yrði framleitt til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir og í framhaldinu var slíkt plast tekið til sölu í Nýja-Sjálandi og í kjölfarið fylgdu meðal annars Noregur, Svíþjóð, Þýskaland, Sviss, Bretland og Írland.

 

Sjá nánari upplýsingar í Bændablaðinu.