Sauðfé – Afurðaverð 2014

 


 

Verðskrá fyrir innlagt sauðfé haustið 2014 á pdf formi.

Fréttabréf SS – september 2014

Allt innlegg er staðgreitt föstudag eftir innleggsviku. 

Pantanir fyrir slátrun
Mikilvægt er að bændur panti sem fyrst fyrir slátrun til að tryggja sér pláss. Skipulagning hefðbundinnar slátrunar er í höndum deildarstjóra og skal óskum um slátrun komið sem fyrst til þeirra. Einnig er hægt að hafa beint samband við sláturhúsið á Selfossi í  síma 480 4100.

Þjónustuslátrun

Þjónustuslátrun á sauðfé er miðvikudaginn 26 nóvember og miðvikudaginn 25. mars 2015.  Þessa sláturdaga verður greitt grunnverð sláturtíðar 2014. 

Tekið er á móti sláturpöntunum í sláturhúsinu á Selfossi í síma 480 4100. 
  
Heimtaka
Gjald fyrir heimtöku og 7 parta sögun  er 2.950 kr/dilk og 3.090 kr/fullorðið. Auk þess er boðin fínsögun og kostar hún aukalega 690 kr/stk. Afhending á Selfossi, Hvolsvelli og Fosshálsi er án kostnaðar og kostnaður af heimsendingum innan félagssvæðis SS er 695 kr/stk. Sent verður með Flytjanda. Vsk bætist við ofangreindar tölur.

Vinsamlegast athugið að merkja við á heimtökublaðinu hvernig heimtakan á vera.  Einnig þarf að koma fram annað sem beðið er um svo sem fínsögun o.s.frv. Þessar upplýsingar verða að liggja fyrir slátrun.

Eyðublað vegna heimtöku sjá hér.  

Heimtaka er slátrun fyrir bændur á lægra verði en almennt er boðið og ber ekki fullan kostnað. Þessi slátrun er takmörkuð við eðlilega heimanotkun og heimasölu bænda og er miðað við 40 skrokka sem hámark. Heimtaka umfram 40 skrokka verður verðlögð sem verktakaslátrun og kostar 4.310 kr/stk að viðbættum vsk.  

Móttaka á fullorðnum hrútum
Vakin er athygli á því að hægt er að koma ógeltum fullorðnum hrútum til slátrunar í september. Þetta gildir um hrúta sem slátrað verður fyrir 1. október 2014. Bændum er bent á að panta sem fyrst fyrir þessa gripi. Ekki er unnt að greiða afurðaverð fyrir fullorðna hrúta enda fyrst og fremst um ákveðna þjónustu að ræða fyrir bændur.


Fyrirvari er gerður um prentvillur !

Afkoma á fyrri árshelmingi 2014

• Tekjur á fyrri árshelmingi 5.757 m.kr. og aukast um 8% milli ára.
• 255 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 230 m.kr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 532 m.kr. en 524 m.kr. árið áður.
• Eigið fé 3.805 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 53%.

Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf.

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2014 var 255 m.kr.  Á sama tímabili árið áður var 230 m.kr. hagnaður.  Eigið fé Sláturfélagsins er 3.805 m.kr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.757 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2014, en 5.351 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um 8%.  Aðrar tekjur voru 11 m.kr en 14 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 3.469 m.kr. en 3.080 m.kr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um tæp 6%, annar rekstrarkostnaður lækkaði um rúm 6% og afskriftir hækkuðu um 9%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 375 m.kr., en 380 m.kr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 532 m.kr.  en var 524 m.kr. á sama tíma í fyrra.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 14 m.kr. en árið áður um 10 m.kr.  Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 74 m.kr., en voru 105 m.kr., á sama tímabili í fyrra.  Reiknaður tekjuskattur nam 60 m.kr., en 55 m.kr. árið áður.  Hagnaður af rekstri tímabilsins var 255 m.kr. en 230 m.kr. á sama tímabili árið áður.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 529 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2014, samanborið við 519 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2013. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní  voru 7.243 m.kr. og eiginfjárhlutfall 53%.  Veltufjárhlutfall var 2,8 á fyrri hluta ársins 2014, sama og árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2014 fyrir 251 m.kr. en 183 m.kr. á sama tímabili árið áður. Seldar voru eignir fyrir 5 m.kr. Á fyrri árshelmingi var m.a. byggt 1500 fermetra vöruhús í Þorlákshöfn undir áburð og lokið við viðbyggingu við sláturhúsið á Selfossi auk fjárfestinga í vélbúnaði.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2014 var í aprílmánuði greiddur 13,7% arður af B-deild stofnsjóðs alls 25 m.kr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 18 m.kr.

Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2014
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX.  Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti.  Ráðgert er að birta afkomu ársins 2014 þann 19. febrúar 2015.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 53% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,8. Langtímatímaskuldir í lok júní 2014 voru 1.975 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 91 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma sem tryggir lága árlega greiðslubyrði.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi neikvæðum áhrifum af vaxandi innflutningi á kjöti á rekstur afurðahluta félagsins. Einnig ríkir nokkur óvissa með afsetningu á hluta kindakjötsafurða sem falla til í haust.
Staða lykilvörumerkja félagsins í kjötiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum.  Samt sem áður er reiknað með að erfiðar markaðsaðstæður á kjötmarkaði hafi neikvæð áhrif  á afkomu kjötiðnaðar á síðari árshelmingi.

Matvöruhluti innflutningsdeildar stendur vel. Með nýjum viðskiptasamböndum hefur vöruúrval verið aukið til áframhaldandi vaxtar. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði fyrir helstu rekstrarvörur bænda. Sala á Yara áburði til bænda gekk vel á fyrri hluta ársins og sala á dlg kjarnfóðri og öðrum rekstrarvörum eykst stöðugt.
Fjárhagsdagatal 2014
Júlí – desember 2014 uppgjör  19. febrúar 2015
Aðalfundur 2015    20. mars 2015
Frekari upplýsingar veita:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is